Leikir Það er ýmislegt skemmtilegt í boði eins og klifur, hoppukastalar og alls konar leikir á sumardaginn fyrsta fyrir börnin og fjölskyldur þeirra.
Leikir Það er ýmislegt skemmtilegt í boði eins og klifur, hoppukastalar og alls konar leikir á sumardaginn fyrsta fyrir börnin og fjölskyldur þeirra. — Ljósmynd/Rita Osório
Skátar fagna sumardeginum fyrsta í dag um land allt og eins og áður eru hátíðahöldin skipulögð fyrir börn, ungmenni og fjölskyldur þeirra. Skrúðgöngur, leikir, hoppukastalar, klifurveggir, skátaþrautir, töframenn, söngur og spil og margt fleira verður á boðstólum í ár

Skátar fagna sumardeginum fyrsta í dag um land allt og eins og áður eru hátíðahöldin skipulögð fyrir börn, ungmenni og fjölskyldur þeirra. Skrúðgöngur, leikir, hoppukastalar, klifurveggir, skátaþrautir, töframenn, söngur og spil og margt fleira verður á boðstólum í ár.

Sumarhátíð Skátafélagsins Árbúa er í Árbæjarsafni og skátafélagið leiðir skrúðgöngu frá Árseli að Árbæjarsafni kl. 12.30 og þar hefst skemmtidagskrá með ýmsum viðburðum í samvinnu við Barnamenningarhátíð. Skátafélögin Garðbúar, Landnemar og Skjöldungar halda saman hátíð í Húsdýragarðinum frá 14-17. Vogarbúar í Grafarvogi standa fyrir skemmtidagskrá fyrir alla fjölskylduna við skátaheimilið kl. 13-16 og mun trúbadorinn Jón Sigurðsson leika fyrir gesti. Ægisbúar í Vesturbæ Reykjavíkur halda einnig skemmtun við sitt skátaheimili kl. 11-14 með fjölbreyttri dagskrá.

Skátafélagið Kópar heldur skemmtun kl. 14-17 í Skátaheimili Kópa og þar verður ýmislegt í boði. Í Garðabænum verða skátafélögin Svanir og Vífill með sameiginlega skrúðgöngu frá Hofsstaðaskóla kl. 14 sem gengur að Miðgarði íþróttamiðstöð þar sem fjölbreytileg skemmtidagskrá tekur við. Hraunbúar í Hafnarfirði verða með fjölbreytta dagskrá á Víðistaðatúni við Víðistaðakirkju og á Thorsplani kl. 13.30-16. Skátafélagið Mosverjar leiðir skrúðgöngu frá Miðbæjartorgi að Varmá kl. 13 og þar verður sumrinu fagnað með tónlist og leikjum eftir gönguna.

Í Reykjanesbæ hefjast hátíðahöld kl. 12.30 og skátafélagið Heiðabúar leiðir skrúðgöngu frá skátaheimilinu að Keflavíkurkirkju þar sem haldin er hátíðarmessa og nýir skátar verða vígðir. Skátamessa skátafélagsins Stróks verður einnig haldin í Hveragerðiskirkju kl. 11 og eftir hana hefst barnaskemmtun á planinu fyrir framan kirkjuna. Skátafélagið Fossbúar á Selfossi tekur þátt í hátíðinni Vor í Árborg sem hefst með skrúðgöngu kl. 13 frá miðbæ Selfoss að Glaðheimum.

Skrúðganga Skátafélags Akraness verður frá skátahúsinu kl. 10.30 að Akraneskirkju þar sem hátíðarhöld hefjast. Í Dalabyggð verður Skátafélagið Stígandi með fjölbreytta dagskrá frá 13-15 í tengslum við Jörfahátíð Dalabyggðar í Laugum í Sælingsdal. Á Akureyri leiðir Skátafélagið Klakkur skrúðgöngu frá Giljaskóla kl. 10.40 að Akureyrarkirkju og eftir messu hefst sumarhátíð síðan á tjaldsvæðinu á Hömrum.