Tvær ljóðabækur eftir Gyrði Elíasson eru komnar út á dönsku í þýðingu Eriks Skyum-Nielsen. Um er að ræða bækurnar Nokkur almenn orð um kulnun sólar (2009) og Hér vex enginn sítrónuviður (2012) sem rata til danskra lesenda, sem geta nú í fyrsta sinn lesið ljóð Gyrðis á dönsku.
„Maður verður bjartsýnn af lestri ljóða Gyrðis. Merkilegt í rauninni, því sjaldan hefur maður séð ljóðasafn jafn fullt af svörtum lit. Hundurinn er svartur, báturinn á sjónum er svartur, og malbikið er svo svart að fólk verður að sofa með ljósið kveikt. Á eftirlætisstað ljóðskáldsins, kirkjugarðinum, krýpur maður með svarta yfirbreiðslu,“ skrifar Thomas Bredsdorff, rýnir Politiken, og gefur bókinni fjögur hjörtu af sex mögulegum.