Viðurkenning Ingibjörg Haraldsdóttir, formaður landskeppninnar, t.v., verðlaunar Ragnheiði fyrir alla keppendur sem hún hefur sent í keppnina.
Viðurkenning Ingibjörg Haraldsdóttir, formaður landskeppninnar, t.v., verðlaunar Ragnheiði fyrir alla keppendur sem hún hefur sent í keppnina.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Landskeppni framhaldsskólanema í eðlisfræði hófst 1984 og nemendur dr. Ragnheiðar Guðmundsdóttur, eðlisfræðikennara í Menntaskólanum í Reykjavík, hafa verið í fremstu röð frá því hún hóf kennslu, en hún lætur senn af störfum vegna aldurs

Steinþór Guðbjartsson

steinthor@mbl.is

Landskeppni framhaldsskólanema í eðlisfræði hófst 1984 og nemendur dr. Ragnheiðar Guðmundsdóttur, eðlisfræðikennara í Menntaskólanum í Reykjavík, hafa verið í fremstu röð frá því hún hóf kennslu, en hún lætur senn af störfum vegna aldurs. „Árangurinn er aðallega vegna þess að ég hef kennt þeim nemendum sem hafa mestan áhuga á eðlisfræði,“ segir hún.

MR er með sérstaka eðlisfræðideild, þar sem boðið er upp á meiri eðlisfræði og stærðfræði en í öðrum deildum, og Ragnheiður bendir á að það sé ekki algengt. „Það er svo lítil eðlisfræði kennd í skólum,“ áréttar hún. Til þess að útskrifast af náttúrufræðibraut í fjölbrautaskóla þurfi nemendur aðeins að taka einn áfanga í eðlisfræði. Til þess að fleiri áfangar séu kenndir þurfi viss lágmarksfjöldi að velja þá. Eðlisfræðikeppnin sé góð gulrót en æskilegt væri að fleiri tækju þátt í henni. Grunnskólanemendur fái litla eðlisfræðikennslu og þegar þeir komi í framhaldsskóla velji þeir frekar fög sem þeir kannist betur við. „Mjög hefur verið dregið úr eðlisfræðikennslu og það er skelfilegt. Miklu meiri kynning þyrfti að vera á eðlisfræði, því fagið er mjög mikilvægt. Það er grundvallarfag, undirstaðan undir öll önnur fög í raunvísindum.“

MR-ingar í fremstu röð

Viðar Ágústsson eðlisfræðingur hefur verið framkvæmdastjóri keppninnar frá upphafi. Hann segir að í forkeppni í febrúar keppi 100 til 200 nemendur hver í sínum skóla. Í úrslitakeppni í mars keppi 14 nemendur í fræðilegri og verklegri eðlisfræði í HÍ. „Meirihluti keppenda á báðum stigum hefur komið úr MR og er það mest fyrir hvatningu eðlisfræðikennaranna Davíðs Þorsteinssonar og Ragnheiðar Guðmundsdóttur.“

Fimm efstu í nýafstaðinni úrslitakeppni voru Benedikt Vilji Magnússon MR, Ólafur Steinar Ragnarsson MR, Jakob Lars Kristmannsson MR, Matthías Andri Hrafnkelsson MR og Ragna María Sverrisdóttir VR. Stigahæstu keppendurnir vinna sér sæti í Evrópukeppni, sem verður í Hannover í Þýskalandi í júní, og/eða í alþjóðakeppninni í Tókýó í Japan í júlí, en Benedikt Vilji valdi að þiggja frekar sæti í stærðfræðiliðinu, sem keppir í Chiba í Japan.

Eftir stúdentspróf frá Menntaskólanum við Hamrahlíð fór Ragnheiður í framhaldsnám til Svíþjóðar og þaðan lá leiðin til Bandaríkjanna, þar sem hún var kennari í New Jersey, þar til hún hóf kennslu í MR 2007, fyrst í stærðfræði og síðan í eðlisfræði. Hún ber hag fagsins fyrir brjósti og nefnir að ekki sé langt síðan hún hafi sent menntamálaráðherra bréf og lagt til að stofnaður yrði sérstakur framhaldsskóli fyrir raunvísindagreinar, þar sem nemendur yrðu valdir inn að loknu inntökuprófi. „Skólinn yrði til þess að auka áhuga grunnskólanna á því að kenna eðlisfræði.“ Engin krafa sé gerð til kennslu eðlisfræði í grunnskólum og kennaranemar fái litla kennslu í faginu. Kennarar í raunvísindum með litla kunnáttu í eðlisfræði geti því hallað sér að öðrum greinum eins og líffræði og því verði eðlisfræðin oft út undan. Bréfinu hafi verið vel tekið og spurt hafi verið hvort nota mætti tillögurnar en síðan hafi ekkert gerst.

Ragnheiður lagði jafnframt til við ráðherra að fleiri gætu nýtt sér Vísindasmiðju Háskóla Íslands ef til dæmis gamlir strætisvagnar yrðu útbúnir með sýnitilraunum í eðlisfræði og skólarnir gætu pantað vagnana til sín. Þannig mætti færa grunnskólanemum eðlisfræði frekar en að þeir þyrftu að sækja fræðsluna í Háskólann. „Ég benti á þetta í bréfinu og tillögurnar þóttu áhugaverðar en þar við situr.“

Ragnehiður vekur athygli á að áður fyrr hafi þótt eðlilegt að allir þekktu helstu lögmál í eðlisfræði. „Þetta var almenn þekking. Til þess að fara í framhaldsskóla þurfti að taka þriggja klukkustunda próf í eðlisfræði, landspróf. Í dag er engin krafa um eðlisfræðikunnáttu. Það má segja að skortur á eðlisfræði og almennum skilningi á umhverfinu geri það að verkum að það er hægt að segja fólki hvað sem er.“

Höf.: Steinþór Guðbjartsson