— Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
Geimfarar, ljón, kærleiksbirnir, fangar, hákarlar, fangar og sérsveitarmenn lögreglu voru á ferð um miðborg Reykjavíkur í gær. Með öðrum orðum sagt; búningar nemenda Menntaskólans í Reykjavík á dimmissjón voru með fjölbreyttu móti

Geimfarar, ljón, kærleiksbirnir, fangar, hákarlar, fangar og sérsveitarmenn lögreglu voru á ferð um miðborg Reykjavíkur í gær. Með öðrum orðum sagt; búningar nemenda Menntaskólans í Reykjavík á dimmissjón voru með fjölbreyttu móti.

Í MR er löng hefð fyrir því að nemendur 6. bekkjar, sem í vor verða brautskráðir frá skólanum, bregði á leik eftir síðustu kennslustundir vetrarins. Stúdentsefnin voru kvödd með samveru á sal skólans í gær, þar sem Einar Hreinsson konrektor flutti ávarp og þakkaði fyrir samveruna síðustu ár, rétt eins og kennarar gerðu líka. Með það hélt hópurinn, 205 manns, út í vorið sem er fullt af væntingum.

Nemendur í 6. bekk MR fara nú í upplestrarfrí fyrir vorprófin, en þau fyrstu eru næstkomandi mánudag. Hefð er fyrir því í skólanum að fyrstu prófin á vorin séu í sögu og íslensku, en svo koma aðrar greinar. Verður langt liðið á maí þegar kemur að síðustu prófum sem eru í munnlegri stærðfræði. Brautskráning og skólaslit eru 26. maí. sbs@mbl.is