Hörður Vilberg
hordur@mbl.is
Styrkur til tannréttinga frá Sjúkratryggingum verður hækkaður úr 100 í 250 þúsund krónur á þessu ári. Willum Þór Þórsson, heilbrigisráðherra, staðfestir þetta. Um er að ræða svokallaðan fastan styrk en upphæðin getur verið hærri eftir aðstæðum.
Í Morgunblaðinu í vikunni gagnrýndi Krístín Heimisdóttir, formaður Tannréttingarfélags Íslands, að styrkur fólks til tannréttinga hafi ekki hækkað í tuttugu ár. Kyrrstaða hafi verið til staðar en miðað við verðlagsþróun væri eðlilegt að styrkurinn næmi um 400 þúsundum krónum. Kostnaður við algenga meðferð getur verið um ein og hálf milljón króna sem er mörgum barnafjölskyldum dýrt og sérstaklega þeim sem hafa lægri tekjur.
Áætlun liggur fyrir
Heilbrigðisráðherra segir að hækkun styrksins verði innleidd í áföngum. „Eins og við tókum gjaldfrjálsar tannlækningar barna undir 18 ára í skrefum,“ segir Willum. Í maí 2013 tóku gildi samningar við tannlækna um að allir undir 18 ára aldri skyldu njóta gjaldfrjálsrar tannlæknaþjónustu. Breytingin var innleidd í áföngum, tilteknir árgangar voru kallaðir inn til skoðunar, en 2018 var fullri endurgreiðslu komið á.
Stefnt er að því að styrkurinn til tannréttinga taki nú tillit til verðlagsþrónar og að hann verði hækkaður í þrepum á næstu tveimur árum. Endanleg upphæð liggur ekki fyrir en leiða má líkur að því að styrkur fyrir tannréttinga í einum góm verði allt 300 þúsund krónur og 400 þúsund krónur vegna tannréttinga í efri og neðri góm. Áætlun um hækkanirnar liggur fyrir í heilbrigðisráðuneytinu enda mikill vilji til þess að bregðast við þeim vanda sem er til staðar. Ráðuneytið á nú í viðræðun við tannlækna um gjaldskrár vegna tannviðgerða og tannréttinga. Vonir standa til að niðurstaða fáist sem fyrst.
Árið 2022 greiddu Sjúkratrygginar 450 milljónir króna til tannréttinga en ekki liggur fyrir hver kostnaðaraukinn er vegna hækkunar styrksins á þessu ári. Kostnaðurinn hefur aukist umtalsvert á liðnum árum en tæp 2.400 fengu styrk 2022.