Öflug Daniela Wallen skorar fyrir Keflvíkinga í fyrri hálfleiknum gegn Valskonum í gærkvöld. Liðin mætast næst á laugardagskvöldið.
Öflug Daniela Wallen skorar fyrir Keflvíkinga í fyrri hálfleiknum gegn Valskonum í gærkvöld. Liðin mætast næst á laugardagskvöldið. — Morgunblaðið/Jökull
Valur náði í gærkvöld undirtökunum í einvíginu við Keflavík um Íslandsmeistaratitil kvenna í körfuknattleik með því að vinna fyrsta úrslitaleik liðanna í Keflavík, 69:66. Keflavík var yfir, 13:12, eftir fyrsta leikhluta og seig síðan fram úr í þeim…

Víðir Sigurðsson

vs@mbl.is

Valur náði í gærkvöld undirtökunum í einvíginu við Keflavík um Íslandsmeistaratitil kvenna í körfuknattleik með því að vinna fyrsta úrslitaleik liðanna í Keflavík, 69:66.

Keflavík var yfir, 13:12, eftir fyrsta leikhluta og seig síðan fram úr í þeim næsta en staðan í hálfleik var 36:29, Suðurnesjakonum í hag.

Þær náðu síðan þrettán stiga forskoti í þriðja leikhluta, 47:34, en Valur minnkaði muninn í 49:47 áður en honum lauk. Þá stóð 54:51.

Valskonur komust yfir, 60:59, þegar fimm mínútur voru eftir, og lokamínúturnar voru æsispennandi þar sem liðin voru yfir til ­skiptis. Keflavík mistókst að jafna 18 sekúndum fyrir leikslok og Valur innbyrti sigurinn.

Daniela Wallen skoraði 17 stig fyrir Keflavík, Birna Valgerður Benónýsdóttir 15 og Karina Konstantinova 14.

Simone Costa skoraði 20 stig fyrir Val, Ásta Júlía Grímsdóttir 16 og Hildur Björg Kjartansdóttir 15.

Annar leikur liðanna fer fram á laugardagskvöldið klukkan 19.15 og sá þriðji í Keflavík næsta þriðjudagskvöld, 25. apríl. Ef til fjórða leiks kemur fer hann fram á Hlíðarenda föstudaginn 28. apríl en ef oddaleik þarf til að finna Íslandsmeistarana 2023 þá fer hann fram í Keflavík mánudagskvöldið 1. maí.

Höf.: Víðir Sigurðsson