Körfuboltinn
Gunnar Egill Daníelsson
gunnaregill@mbl.is
Skotbakvörðurinn Hilmar Smári Henningsson lék frábærlega fyrir nýliða Hauka, uppeldisfélag sitt, í úrvalsdeild karla í körfuknattleik á tímabilinu. Sem nýliðar höfnuðu Haukar í þriðja sæti en féllu úr leik í 8-liða úrslitum um Íslandsmeistaratitilinn eftir æsispennandi rimmu við Þór frá Þorlákshöfn.
„Upplifunin af seríunni var frábær. Þetta voru tvö mjög jöfn lið að berjast allan tímann. Bæði lið lentu í einhverju veseni í seríunni enda fór hún í fimm leiki.
En þetta valt að lokum á einni körfu, einu víti eða einu frákasti til eða frá, sem hefði getað komið öðru hvoru liðinu áfram. Þetta var mjög svekkjandi okkar megin en fer í reynslubankann,“ sagði Hilmar í samtali við Morgunblaðið.
Ánægður og ekki
Spurður hvort hann væri ánægður með gengi Hauka á tímabilinu þrátt fyrir endann á því sagði Hilmar:
„Já og nei. Við enduðum í þriðja sæti, sem er náttúrlega góður árangur fyrir lið sem er að koma upp úr 1. deild í fyrra, eftir uppbyggingu sem Haukar fóru í gegnum. Við vildum 100 prósent fara lengra en það var markmið sem maður setti sér á meðan tímabilið stóð yfir, var ekkert endilega eitthvað sem við horfðum til fyrir það.
Við vissum alltaf að við ætluðum að vera í einhverri toppbaráttu en það er mun auðveldara að segja það en standa við það. Við náðum því í lokin í deildinni en það var mjög svekkjandi að geta ekki fylgt því eftir og komist allavega í fjögurra liða úrslit.“
Hilmar, sem er 22 ára gamall, sagði upplifun Hauka ekki þá að þeir hefðu verið nýliðar í vetur.
„Haukar eru náttúrlega félag sem allir þekkja sem stórt félag í sögu körfuboltans. Það er ekki raunhæft að hafa félag eins og Hauka í 1. deild. Það gerðist margt óheppilegt sem leiddi til þess að þeir fóru þangað en mér fannst við vinna gríðarlega vel úr því.
Mér finnst Haukar sem félag í körfunni vera byrjað að fá virðinguna sem það á skilið. Mjög mikil og löng vinna hefur staðið yfir hjá félaginu og margir komið að henni.
Það var ótrúlega gaman að taka þátt í henni í vetur og sjá hvað allir sem komu að körfunni hjá Haukum voru spenntir. Allir sjálfboðaliðar og starfsmenn voru alltaf með manni í öllu, í hverju einasta skrefi, og héldu manni gangandi.“
Tiltölulega sáttur
Hilmar var með 19 stig, fimm fráköst og tæplega fimm stoðsendingar að meðaltali í 27 leikjum í deildinni og úrslitakeppninni. Var hann sáttur við eigin frammistöðu á tímabilinu?
„Já, í rauninni. Mér fannst ég svolítið ná upp því hlutverki sem Máté [Dalmay þjálfari] og Sævar [Ingi Haraldsson aðstoðarþjálfari] vildu að ég sinnti. Við vorum náttúrlega með mjög sterka leikmenn inni á vellinum og mér fannst við ná að vinna úr styrkleikum hver annars.
Ætli maður sé ekki bara tiltölulega sáttur við tímabilið þótt maður geti aldrei verið fullkomlega sáttur við það, sérstaklega ef maður kemst ekki lengra en í átta liða úrslit,“ sagði Hilmar.
Horfir til þess að fara út
Þrátt fyrir ungan aldur býr hann yfir mikilli reynslu þar sem Hilmar hefur ásamt Haukum leikið með Þór frá Akureyri, Stjörnunni og varaliði hins spænska Valencia.
Góð spilamennska hans á tímabilinu er vís til þess að vekja áhuga annarra liða, erlendra eða hérlendra. Sem stendur veit Hilmar þó ekki hvað framtíðin ber í skauti sér.
„Ég hef ekkert verið að sinna neinni athygli sem mér hefur verið veitt, nema þeirri frá Haukum. Ég hef alltaf stefnt að því að fara út í atvinnumennsku en þetta er erfiður markaður. Ef maður fær eitthvert gott boð sem manni líst vel á og er á góðum stað þá mun ég 100 prósent horfa til þess að fara út og spila. En það er eiginlega allt of snemmt að svara því núna.
Varðandi Ísland; ef ég verð áfram á Íslandi þá er ég mjög líklegur til þess að vera áfram með Haukamerkið á brjóstkassanum.“
Vonar að hlutverk sitt stækki
Hann hefur verið í leikmannahópi íslenska landsliðsins í undanförnum verkefnum, án þess þó að koma við sögu. Á Hilmar að baki fjóra landsleiki, sem komu allir árið 2019, og vonast hann því vitanlega til þess að fá stærra hlutverk í liðinu þegar fram líða stundir.
„Já, þetta er bara stígandi sem maður þarf að taka þátt í og vera þolinmóður gagnvart. Ég hef verið í kringum þetta landslið í nokkur ár núna og vona náttúrlega að hlutverk mitt stækki og stækki með tímanum, en það er nokkuð sem maður hefur ekki alltaf stjórn á.
Ísland er bara með frábært lið eins og er og með marga leikmenn í minni stöðu. En það er alltaf markmiðið að bæta sig og verða góður leikmaður fyrir íslenska landsliðið. Vonandi verð ég sá leikmaður sem þeir vilja nota og geta notað í góðum leikjum því það er fátt skemmtilegra en að spila með þessum hópi og spila fyrir landið sitt,“ sagði Hilmar að lokum.