Baksvið
Baldur Arnarson
baldura@mbl.is
Hjónin Örn Almarsson og Brynja Einarsdóttir hafa ásamt frumkvöðli á Bretlandi, John Lucas, stofnað lyfjaþróunarfyrirtækið Axelyf ehf. Það mun hafa aðsetur í Lækjargötu í Hafnarfirði og einbeitir fyrirtækið sér að þróun lyfja úr astaxanthíni sem framleitt er af Algalífi á Ásbrú.
Örn tekur á móti blaðamanni á kaffihúsi á Norðurbakka í Hafnarfirði, steinsnar frá aðsetri félagsins.
„Pabbi Brynju, Einar, býr hér í næstu blokk. Einar var sundkennari og ég lærði sund hjá honum. Ástæðan fyrir því að ég fékk að vera kærasti dóttur hans er að ég er FH-ingur. Hefði ég verið Haukari hefði það ekki gengið. Hann hefði allavega gert ýmislegt til að losna við mig,“ segir Örn og hlær dátt.
Arnar Sigurðsson var ráðinn fyrsti starfsmaðurinn hjá Axelyf í janúar en hann kom heim úr doktorsnámi í lífefnafræði frá Tækniháskólanum í Berlín fyrir síðustu jól. Á næstunni verða fleiri starfsmenn ráðnir til félagsins.
Fengu áhættufjármagn
„Við hjónin, en Brynja er stofnandi og setti fyrstu fjármunina í félagið, og John Lucas erum aðaleigendur félagsins. Við erum með starfsmann á Íslandi og erum að fara að ráða fleira starfsfólk, því við fengum áhættufjármagn til að útfæra hugmyndina. Og jafnvel að halda svo áfram að þróa fyrirtækið byggt á því fjármagni. Við Brynja erum búsett í Boston en erum með ræturnar okkar hérna í Hafnarfirði,“ segir Örn og upplýsir að Brunnur Ventures í Reykjavík hafi verið fyrst til að veita fyrirtækinu áhættufjármagn.
„Vinnan okkar á þessu stigi er unnin í alþjóðlegu samhengi – í Argentínu, Danmörku og Hollandi – en meir og meir á Íslandi í framtíðinni. Við erum þar að notast við rannsóknarstofur samkvæmt samningum (e. contract research organizations). Þetta er gott í byrjun þegar kanna þarf hvernig skal best minnka áhættu án þess að byggja innviði sjálf.
Heitir eftir dóttursyninum
– Hvaðan kemur nafnið Axelyf?
„Nafnið kemur til af því að dóttursonur okkar heitir Axel, fyrsta barnabarnið. Brynja hefur verið mér mikil stoð og stytta í gegnum tíðina og við vildum gera þetta svolítið persónulegt. Við komum með þetta nafn saman í gamni. Góð samskeyting fannst okkur. Brynja hannaði líka vörumerkið en hún er listakona með meiru. Kemur með fleti á málin sem við John hugsuðum ekki út í en við erum báðir úr lyfjageiranum. Við störfuðum á tímabili saman í Boston en hann hefur jafnframt starfað í Evrópu og mest á Englandi þar sem hann er nú búsettur. Nú er hann kominn í þetta á fullu,“ segir Örn sem sjálfur á að baki glæstan vísindaferil.
Að loknu námi við Háskóla Íslands og Kaliforníuháskóla, í Santa Barbara, starfaði Örn meðal annars við rannsóknir hjá Tækniháskólanum í Massachusetts, MIT, og hjá lyfjarisanum Moderna allt til ársins 2020 er það setti á markað bóluefni gegn kórónuveirunni. Var Örn meðal vísindamanna sem komu að þróun bóluefnisins en þar var notast við nýja aðferð með því að beita mRNA, eða svonefndu genabóluefni, líkt og komið hefur fram. Upplýsir Örn að bóluefnið hafi haft miklu meiri virkni en almenn bóluefni gegn flensu, eða 95% virkni borið saman við 40-45% virkni hefðbundinna bóluefna gegn flensu.
Ábending prófessors
Spurður hvernig samstarfið við Algalíf kom til segir Örn að fyrrverandi kennari hans í efnafræði við Háskóla Íslands, prófessor Guðmundur Haraldsson, hafi kynnt honum starfsemina á Ásbrú fyrir fjórum árum. En það hafi einmitt verið Guðmundur sem leiddi hann út í lífefnafræði og rannsóknir á Omega-3-fitusýrum.
„Ég kannaðist sem Hafnfirðingur við Orra [Björnsson, forstjóra Algalífs] frá fyrri tíð en Algalíf var að gera flotta hluti með astaxanthín og hefur stækkað mikið við sig. Þá áttaði ég mig á því að það er viss hliðstæða milli astaxanthíns og Omega-3-fitusýra enda er þar á ferð einhvers konar lyfjavirkni sem enginn hefur njörvað niður og fengið vinkil á til að útfæra sem lyf. Astaxanthín er notað sem fæðubótarefni en við leitum að lyfjavirkni til að þróa lyf út frá astaxanthíni. Algalíf hefur reynst okkur afar mikilvægur hlekkur. Við erum afar ánægð með samstarfið,“ segir Örn.
Til upprifjunar er astaxanthín unnið úr örþörungnum Haematococcus pluvialis sem Algalíf ræktar í mörg hundruð kílómetra löngum rörakerfum í verksmiðjunni á Ásbrú. Astaxanthín er fituleysanlegt andoxunarefni sem þykir hafa ýmis heilsubætandi áhrif.
Óleystar gátur
– Hvernig lyf sérðu fyrir þér að geta þróað með astaxanthíni?
„Þá fyrst og fremst bólgueyðandi lyf. Þar skipta smáatriðin máli og í hvaða sjúkdómum hægt er að ná þeirri virkni fram. Og tekið virkilega á alvöru vandamálum sem er ekki búið að leysa. Þá erum við til dæmis að tala um bólgur og örvef sem fylgja lifrarsjúkdómum.“
– Verða lyfin sérsniðin að sjúklingum eða almenn?
„Þau verða meira almenn og hönnuð út frá sjúkdómsábendingum sem við lærum um í lyfvirknitilraunum. Arnar Sigurðsson, frábær og efnilegur Skagfirðingur, nýdoktor frá Tækniháskólanum í Berlín, er okkar fyrsti starfsmaður. Við ætlum að vera í gagna- og gervigreind og nýta okkur fyllilega hæfileika hans í lífefnafræði.“
– Hverjar eru væntingar ykkar?
„Það er erfitt að segja. Lyfjaþróun er erfið vinna. Flókin, áhættusöm, tímafrek og kostnaðarsöm,“ segir Örn og útskýrir að það komi sér vel að astaxanthín sé náttúrulegt efni með þekkt öryggi í almennri notkun. Sé því ekki í sama áhættuflokki og nýsmíðuð efni með óþekktar eiturverkanir. Þá sé markaðurinn fyrir slík lyf í örum vexti. Ekki síst vegna hækkandi hlutfalls eldra fólks og aukinnar tíðni offitusjúkdóma.
„Hvort tveggja kallar á margþættar lausnir. Þegar við finnum út hvar astaxanthín virkar best getum við sagt meira til um markaðinn fyrir slík lyf. Ég er sannfærður um að þörfin sé og verði til staðar,“ segir Örn Almarsson að lokum.