Helgi Bjarnason
helgi@mbl.is
Starfshópur sem umhverfisráðherra skipaði til að fara yfir vindorkumál og gera tillögur að lagafrumvarpi um beislun vindorkunnar hefur skilað áfangaskýrslu til ráðherra. Hópurinn ákvað í samráði við ráðherra að skipta verkefninu upp þannig að í þessari skýrslu eru ekki beinar tillögur heldur málið reifað almennt og farið yfir helstu álitaefni. Ætlunin er að dýpka umræðuna með því að kynna efni skýrslunnar og efna til samtals um það – og vinna í kjölfarið tillögur að lagafrumvarpi.
Langt á eftir nágrönnum
Guðlaugur Þór Þórðarson umhverfisráðherra sagði í inngangsorðum þegar starfshópurinn kynnti áfangaskýrslu sína að Íslendingar væru 30 til 50 árum á eftir þeim þjóðum sem við berum okkar helst saman við, í því að beisla vindorkuna. Jafnframt lýsti hann þeirri skoðun sinni að það skipti máli að vera með eins gott regluverk og mögulegt er og betra sé að ljúka við að setja það áður en farið væri að byggja upp mannvirki. Kvaðst ráðherra ánægður með skýrsluna, hún væri upplýsandi.
Hilmar Gunnlaugsson lögmaður var formaður starfshópsins og með honum störfuðu Björt Ólafsdóttir, fyrrverandi umhverfisráðherra, og Kolbeinn Óttarsson Proppé, fyrrverandi alþingismaður.
Skýrslunni er ætlað að stuðla að samtali meðal þjóðarinnar um vindorku. Ráðherra og starfshópurinn hyggjast halda opna fundi víða um land á næstunni til að kynna efni hennar sem og orkuskipti með áherslu á hlutverk vindorku.
Skattar hækka orkuverð
Fjallað er nokkuð um gjaldtöku af orkumannvirkjum í skýrslunni, ekki síst tekjur sveitarfélaga, enda hafa sveitarstjórnir gert kröfur um aukna hlutdeild í tekjum af orkumannvirkjum. Nú eru fasteignaskattar aðeins greiddir af stöðvarhúsum. Fram kemur að ef undanþága af greiðslu fasteignaskatta af veitumannvirkjum við orkuöflun og flutning raforku yrði afnumin, myndi skattstofninn sextánfaldast, fara úr 60 milljörðum í 973 milljarða króna. Það myndi leiða til samsvarandi hækkunar á fasteignasköttum til sveitarfélaga. Almennt raforkuverð myndi á sama tíma hækka um 0,24 til 0,71 krónur á hverja kílóvattstund, ef skattahækkunin gengi beint út í verðlagið. Einnig er í álitinu rætt um hugsanlega nýja skatta á vindorkuver, til dæmis vegna umhverfisáhrifa virkjana.