Miðstöð „Þarna verður alþjóðleg miðstöð og deigla fyrir íslensk fræði í heiminum,“ segir Guðrún Nordal.
Miðstöð „Þarna verður alþjóðleg miðstöð og deigla fyrir íslensk fræði í heiminum,“ segir Guðrún Nordal. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
„Markmiðið með húsinu var að flytja á einn stað rannsóknir og kennslu í íslenskum fræðum sem nú eru mjög dreifðar og byggja myndarlega og trausta umgjörð um handritin og efla miðlun, m.a. með fastri sýningu,“ segir Guðrún Nordal,…

Viðtal

Ragnheiður Birgisdóttir

ragnheidurb@mbl.is

„Markmiðið með húsinu var að flytja á einn stað rannsóknir og kennslu í íslenskum fræðum sem nú eru mjög dreifðar og byggja myndarlega og trausta umgjörð um handritin og efla miðlun, m.a. með fastri sýningu,“ segir Guðrún Nordal, forstöðumaður Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, um nýtt hús íslenskunnar, Eddu, sem formlega var opnað í gær og er opið almenningi í dag, sumardaginn fyrsta.

„Í húsinu sameinum við starfsemi Árnastofnunar, sem hefur verið á mörgum stöðum í bænum allt frá því að hún varð til árið 2006 – þá stóðu vonir til þess að húsið risi árið 2011 – og Háskóla Íslands á vettvangi íslenskrar tungu, íslensku sem annars máls og íslenskra bókmennta og menningar í víðum skilningi. Húsið verður sannkölluð aflstöð þar sem við virkjum kraftana sem búa í rannsóknum, kennslu, nýsköpun og miðlun á vettvangi íslenskra bókmennta og tungumáls í þágu samfélagsins. Við leggjum mikið upp úr því að húsið verði aðgengilegt og að það opni faðminn gagnvart gestum og gangandi, og þar sem rannsakendur, sem koma víða að úr heiminum, eigi athvarf og geti sinnt rannsóknum sínum. Við viljum að fólk leggi leið sína í húsið og sé alltaf velkomið.“

Hverju mun húsið breyta fyrir starfsemi Árnastofnunar og Háskóla Íslands og fyrir almenning?

„Það mun breyta öllu! Húsið mun gjörbylta starfseminni hjá okkur. Í raun erum við að búa til nýja stofnun og í samstarfinu við kennara og nemendur við Háskólann opnast alveg ný tækifæri. Við getum einnig stóreflt miðlun á þeim gögnum sem við geymum, eins og handritunum, örnefnasafni, þjóðfræðisafni og orðfræðisafni, og veitt fræðimönnum og gestum miklu betri aðgang að þeim. Við ætlum okkur líka að styrkja og efla rannsóknarsamstarf, innan húss en ekki síður við aðila utan okkar veggja, hér heima og erlendis. Þarna verður alþjóðleg miðstöð og deigla fyrir íslensk fræði í heiminum.“

Í eigu okkar allra

Það hefur verið langur aðdragandi að þessari opnun. Hvernig var tilfinningin að sjá húsið loksins rísa, fá síðan að stíga inn fyrir dyr og hefja starfsemi þar?

„Tilfinningin er stórkostleg. Þegar ég varð forstöðumaður var hönnun hússins í fullum gangi, en það var árið eftir hrun og því óvíst hvenær við myndum sjá húsið fullbúið. Ég var alltaf bjartsýn að húsið myndi rísa í fyllingu tímans því að erindið var svo brýnt, en það hefur orðið enn meira knýjandi og áríðandi eftir því sem árin hafa liðið. Það er ekki sjálfsagt að svona glæsilegt og vandað hús sé byggt yfir rannsóknarstarf í landinu og við erum þakklát og meðvituð um þær væntingar sem því fylgja. Húsið snýst einfaldlega um framtíðina í mínum huga og er ótrúlega rausnarleg gjöf til næstu kynslóða; hvatning um að hlúa að íslenskunni, rannsaka hana, búa til nýjar máltæknilausnir og hjálpargögn, gefa út gamla texta sem verða aflvaki nýrra hluta og svo mætti áfram telja. Mér finnst mikilvægt að árétta að húsið er í eigu okkar allra, ekki aðeins þessara stofnana. Það er helgað tungumálinu og bókmenntunum.“

Það hefur skapast mikil umræða um þetta verkefni og einhverjar gagnrýnisraddir komið fram á síðustu árum. Er eitthvað í ferlinu sem hefði mátt betur fara að þínu mati?

„Húsið er sérsniðið fyrir þá starfsemi sem fer þar fram. Við hefðum gjarnan viljað að ferlið hefði tekið miklu styttri tíma og að við hefðum komist fyrr í gang á nýjum stað því að við megum engan tíma missa, hvort sem litið er til stöðu íslenskunnar, eða miðlunar- eða rannsóknarstarfsins. Við höfum t.d. fundið mjög fyrir því að geta ekki sýnt handritin á sama tíma og ferðamannastraumur hefur aukist. Það hefur tekið mjög á að bíða og við höfum gagnrýnt það. Verkefnin á vettvangi tungumálsins eru einnig svo brýn, ekki aðeins í rannsóknum á íslenskri tungu og máltækni, heldur ekki síst í því mikilvæga verkefni að gera íslenskuna sýnilegri fyrir þá sem flytja hingað til lands. Íslenska sem annað mál er ein stærsta námsgrein í Háskólanum og við þurfum öll að leggjast á árar. Við þurfum að gefa í. En nú er allt þetta að baki og okkar að sýna hvað í okkur býr.“

Hávamál á hjúpnum

Ertu ánægð með hönnun hússins? Hvaða kosti hefur hún fyrir starfsemi þeirra stofnana sem þar verða til húsa?

„Já, ég er mjög ánægð og það erum við öll. Húsið er bjart og í hönnuninni er lagt upp úr því að tengja fólk vel saman innanhúss. Inni í húsinu eru útisvæði sem búa til fallegt flæði og hleypa birtunni alls staðar inn. Efri tvær hæðirnar hýsa rannsóknar-, nýsköpunar- og kennslustarfið, en síðan teygir bókasalurinn sig frá jarðhæðinni upp í gegnum allt húsið og hægt að horfa ofan í hann af efri hæðum. Þannig tengist allt húsið saman. Þar verður aðstaða fyrir gesti til að nýta gögn stofnunarinnar og rannsóknarbókasafn sem er, eins og vera ber, það besta í heiminum á okkar fræðasviði og auk þess sérstakur handritalessalur. Jarðhæðin er almenningur þar sem við verðum með sýningu, fræðslurými, kaffistofu og fyrirlestrasal, og getum haft viðburði af fjölbreyttu tagi. Geymslurnar eru hannaðar samkvæmt nýjustu öryggisstöðlum. Við getum ekki beðið eftir því að bjóða fólk velkomið í húsið!“

Koparlitaður hjúpur með áletrunum hylur húsið. Hvernig er það útlit hugsað og hvaðan er textinn fenginn?

„Mér finnst hjúpurinn fyrst og fremst fallegur. Húsið tindrar þegar það er lýst upp í myrkrinu og þá framkallast þessir mögnuðu textar. Við sem flytjum í húsið fengum að koma með tillögu að þeim, og fyrir valinu urðu tveir lykiltextar úr eldri bókmenntum okkar. Annars vegar alls vér erum einnar tungu og er tilvitnun í elsta fræðilega textann um íslenska tungu, Fyrstu málfræðiritgerðina sem rituð var á 12. öld. Þar er íslenskan sett í samhengi við aðrar tungur heimsins. Íslenskan í hinu alþjóðlega samhengi. Hins vegar tilvitnun úr 141. erindi Hávamála sem er varðveitt í Konungsbók eddukvæða, orð mér af orði orðs leitaði, og minnir á þekkingarleitina, nýsköpunina. Við þekkjum hvorki nafnið á höfundi ritgerðarinnar eða kvæðisins sem varðveittist í munnlegri geymd, sem minnir okkar á þá ríku auðlegð sem við eigum sameiginlega í arfinum.“

Langar að segja stærri sögu

Hvað munu gestir geta skoðað á opnu húsi í dag?

„Við ákváðum að hafa opið hús áður en við flyttum svo að hægt væri að leyfa gestum að streyma frjálslega um húsið. Húsið er því tómt og nota verður ímyndunaraflið til að sjá fyrir sér hvernig umhorfs verður þegar byggingin er orðin full af fólki, bókum og öðrum gögnum. Eina svæðið sem verður lokað eru geymslurnar í kjallaranum; ekki er hægt að hleypa fólki að sjálfri handritahvelfingunni af öryggisástæðum.“

Stefnt er að því að opna fastasýningu í húsinu, ekki satt?

„Við erum nú að vinna að undirbúningi sýningarinnar sem verður opnuð í maí 2024. Fyrir nokkrum mánuðum voru valdir í opnu útboði skoskir hönnuðir til að vinna með okkur, og nú er sú vinna í fullum gangi. Það er mjög spennandi að móta þessa sýningu. Handritin verða vitaskuld í lykilhlutverki, en okkur langar að segja stærri sögu og miðla tungumálinu sem tengir bókmenntirnar saman frá elstu tíð til nútíma – og horfa þannig um leið til framtíðar.“

Húsið hlýtur nafn

Edda

Efnt var til samkeppni um nafn á nýbygginguna og segir Guðrún þátttökuna hafa verið „í einu orði sagt magnaða“.

„Um 3.500 tillögur bárust, og þar af meira en 1.500 einstakar hugmyndir. Við eru afar þakklát fyrir þessi sterku viðbrögð og þá hlýju, gleði og eftirvæntingu sem fylgdi samkeppninni. Hugmyndaauðgin var gríðarleg og rökstuðningur fyrir hugmyndunum af öllu tagi, og endurspeglaði þá miklu væntumþykju sem fólk ber til tungumálsins og íslenskra bókmennta,“ segir hún.

„Það var erfitt að velja, því að tillögurnar voru margar og snjallar. Dómnefndinni fannst Edda sameina svo margt sem húsið snýst um. Nafnið er fallegt, lipurt og séríslenskt, en einnig þekkt á alþjóðavettvangi. Merkingin er leyndardómsfull og á sér langa sögu, og ein þeirra er formóðir eða amma. Okkur finnst líka skemmtilegt að Edda sé vinsælt eiginnafn í samtímanum sem jafnframt vísar skýrt til menningararfsins; eddukvæða og Snorra-Eddu og þar með upphafs íslenskra fræða.“

Höf.: Ragnheiður Birgisdóttir