Heiða Kristín Helgadóttir fæddist 20. apríl 1983 í Washington DC þar sem faðir hennar stundaði nám í fjölmiðlafræði við American University og móðir hennar sá um eldri systkinin Bryndísi og Pétur.
„Við fluttumst fljótlega aftur til Íslands eftir fæðingu mína enda móðir mín þá orðin ólétt að Snorra bróður mínum sem er 13 mánuðum yngri en ég. Fjölskyldan fluttist í Barmahlíð en síðar í Víðihlíð 13 þar sem ég man fyrst eftir mér. Ég ólst þannig upp í Suðurhlíðunum, eða milli lífs og dauða.“
Heiða gekk í Ísaksskóla, síðan Hlíðaskóla og fór í MH og útskrifaðist af félagsfræðibraut árið 2003. Eftir útskrift tók hún að sér heimilisfræði og forfallakennslu í Ísaksskóla ásamt því að stunda nám við stjórnmálafræði í HÍ, þaðan sem hún útskrifaðist 2009. „Ég fór að búa 19 ára í bílskúr hjá þáverandi tengdamóður minni í Skerjafirði og hef alla tíð síðan búið í Vesturbænum, á hinum ýmsu stöðum. Þannig er ég mikill Reykvíkingur, en fyrst og fremst stoltur Bandaríkjamaður enda með tvöfalt ríkisfang.
Ég var nokkuð einræn sem barn og hafði ekki mikla þolinmæði fyrir öðrum börnum, enda fannst mér heimur hinna fullorðnu mun áhugaverðari. Ég átti ekkert sérstaklega auðvelt með nám þar sem ég er lesblind, eða alla vega ekki nám eins og það var uppbyggt þá.
Ég var alla tíð í sérkennslu í grunnskóla með fámennum hópi drengja sem ég átti ekki endilega mikla samleið með. Það kenndi mér hins vegar að aðstæður fólks og áhrif þeirra á líðan og hegðun spilar almennt mjög stórt hlutverk í örlögunum sem fyrir okkur liggja. Ég vissi alltaf innst inni að þótt ég gæti ekki lesið 400 orð á mínútu þá hefði ég aðra hæfileika sem væri einfaldlega ekki verið að mæla í skólakerfinu og hafði þannig blessunarlega einhvern frumkraft sem ýtti mér áfram og gerir enn.
Mér hefur alla tíð legið nokkuð á að verða fullorðin og það kom því kannski ekki á óvart að ég eignaðist börn snemma. Bensi minn fæddist í júní 2005 þegar ég var rétt nýorðin 22 ára og Snorri í ágúst 2008 og ég þá orðin tveggja barna móðir 25 ára. Svo gekk á ýmsu. Þegar Jón Gnarr bað mig að taka að mér að vera kosningastjóri Besta flokksins snemma árs 2010 var ég 27 ára yfirskuldsett einstæð móðir á ónýtum bíl sem tók reglulega upp á því að drepa á sér á ólíklegustu stöðum.“
Heiða tók að sér í framhaldinu ýmis trúnaðarstörf fyrir Besta flokkinn. „Það kenndi mér helling, en það sem situr eftir öllum þessum árum seinna er stolt yfir því að hafa komið að þessari tilraun sem gekk upp. Í Besta flokknum hitti ég fólkið mitt og þaðan hafa ótal þræðir spunnist.
Úr rótum Besta flokksins og ákveðnum umhleypingum á pólitíska sviðinu varð Björt framtíð til sem ég átti þátt í stofna ásamt fleirum. Ég var annar af formönnum flokksins frá stofnun og átti þátt í því að bjóða fram framboð bæði í alþingiskosningum 2013 og sveitarstjórnarkosningum 2014 víða um land með ágætis árangri.“
Árið 2016 sagði Heiða skilið við stjórnmálin og vatt kvæði sínu í kross og gerðist stjórnandi stjórnmálaskýringaþátta á Stöð 2 sem hétu Umræðan. „Ég stoppaði stutt við í fjölmiðlum og síðar sama ár stofnaði ég ásamt vinum mínum Oliver Luckett og Frosta Gnarr fyrirtækið EFNI. Út frá þeim sprota urðu til nokkur nýsköpunarfyrirtæki sem öll áttu það sammerkt að nýta sér breytt landslag á neytendamarkaði.“
Af þessum fyrirtækjum fór Heiða lengst af fyrir Niceland Seafood sem framkvæmdastjóri. „Við seldum íslenskan fisk á neytendamarkað í Bandaríkjunum undir okkar eigin vörumerki og studdum við það með markaðsefni og rekjanleikahugbúnaði sem við þróuðum frá grunni. Í dag er sá hugbúnaður notaður af þjónustufyrirtækinu Digiphy, hvar ég sit í stjórn, til þess að færa neytendum notendavænar ítarupplýsingar um ótal vörur á neytendamarkaði í Bandaríkjunum.
Eftir sjö ár, heimsfaraldur og fæðingu draumaprinsins Róberts Högna, sem skírður er í höfuðið á tveimur af mínum bestu mönnum, Róberti Guðfinnssyni læriföður og Högna Egilssyni listamanni, breyttust aðstæður. Úr varð að ég tók að mér pólitíska ráðgjöf fyrir mína kæru vinkonu Þorgerði Katrínu í byrjun árs og hef svo nýlega tekið að mér nýtt og spennandi hlutverk sem framkvæmdastjóri Sjávarklasans. Ég er mjög spennt að taka við því góða búi. Í sjávarútvegi leynast svo margir góðir þræðir og ef það er eitthvað sem ég hef gaman af þá er það að draga fram það óvænta og á köflum sjálfsagða og gera það spennandi.
Mitt helsta áhugamál er fólk og hvernig fólk lifir af og allar sögurnar sem það segir sér og öðrum. Svo hef ég einlægan áhuga á öllu sem Bruce Springsteen hefur sagt og gert og mun gera, sérstaklega í næstu viku þar sem ég ætla að fagna fertugsafmælinu á tónleikum með Stjóranum í Barcelona. Norður-Írland er einnig ofarlega á blaði. Og vitaskuld Bandaríkin hvar ég hyggst eyða efri árunum og ala upp Róbert Högna á einhverjum tímapunkti, enda áhugaverðasta land í heimi. Og mér finnst gott að vera á Vestfjörðum, þá helst á Skriðu í Syðridal, þar sem ég hitti hann Gumma minn sem er leynivopnið mitt, besti vinur og sálufélagi í blíðu og stríðu.“
Fjölskylda
Eiginmaður Heiðu er Guðmundur Kristján Jónsson, f. 26.6. 1988, framkvæmdastjóri hjá Genís hf. og stjórnarmaður hjá Reitum fasteignafélagi. Þau eru búsett á Mýrargötu, 101 Reykjavík. Foreldrar Guðmundar eru hjónin Jón Ingi Guðmundsson, f. 2.1. 1957, og Sigríður Helga Þorsteinsdóttir, f. 1.6. 1957, búsett í Reykjavík.
Synir Heiðu af fyrra sambandi eru Benedikt Espólín, f. 29.6. 2005, nemi í Verzlunarskóla Íslands, og Snorri Espólín, f. 19.8. 2008, nemi í Hagaskóla. Sonur Heiðu og Guðmundar er Róbert Högni, f. 3.6. 2021, nemi á Mánagarði.
Systkini Heiðu eru Bryndís Helgadóttir, f. 16.4. 1977, kennari, búsett í Danmörku, Pétur Helgason, f. 26.9. 1978, stoðtækjafræðingur, búsettur í Kópavogi, og Snorri Helgason, f. 1.6. 1984, tónlistarmaður, búsettur í Reykjavík.
Foreldrar Heiðu eru hjónin Helgi Pétursson, f. 28.5. 1949, formaður Landssambands eldri borgara og tónlistarmaður, og Birna Pálsdóttir, f. 30.5. 1953, fyrrverandi flugfreyja og skrifstofumaður. Þau eru búsett í Reykjavík.