Bækur
Ragnheiður Birgisdóttir
Ósætti um erfðamál knýr Bergljótu til þess að hafa samskipti við fjölskyldu sína sem hún hafði annars slitið sambandi við og horfast í augu við tilfinningar sem hún hefur reynt að bæla. Um þetta fjallar verk hinnar norsku Vigdisar Hjorth Arfur og umhverfi (Arv og miljø) sem kom út á frummálinu árið 2016 en var gefið út fyrir stuttu hér á landi í þýðingu Ísaks Harðarsonar.
Miklu fjölskylduuppgjöri er hrundið af stað þegar í ljós kemur að foreldrar aðalpersónunnar og sögumannsins Bergljótar hyggjast gefa tveimur systrum hennar sumarbústaði fjölskyldunnar sem fyrirframgreiddan arf en Bergljótu og bróður hennar einungis upphæð sem nemur afkáralega lágu fasteignamati bústaðanna.
Við þetta fer Bergljót að kafa í samband sitt við fjölskylduna og rifja upp ástæðurnar sem liggja að baki því að hún hefur lítið sem ekkert samband haft við foreldra sína og systkini síðustu áratugi. Smám saman kemur í ljós að Bergljót þráir ekkert heitar en að hennar upplifun af fjölskyldulífinu sé tekin alvarlega, að hennar útgáfa af fjölskyldusögunni sé tekin trúanleg. Og við það hriktir í stoðunum því máttarstólpi heimilisins, faðirinn, liggur undir grun. Með því að gangast við frásögn Bergljótar sem sannleik þá myndi kjarni þeirrar veraldar sem móðirin og systur hennar búa í verða að engu.
Hjorth byggir verkið að einhverju leyti á eigin ævi og tekur þar með þátt í þeirri miklu sannsögubylgju sem hefur verið áberandi í vestrænu og þá kannski sérstaklega norrænu bókmenntaumhverfi undanfarin ár.
Ekki eru allir á einu máli um ágæti þess að skapa list „á kostnað“ sinna nánustu og sumir hafa sakað listamenn um að nýta fjölskyldusögu sína til þess að öðlast frægð og frama. Þannig hafa nokkrir úr fjölskyldu Hjorth litið á málin. Systir hennar, Helga Hjorth, skrifaði í kjölfarið bókina Fri vilje þar sem aðalpersónan verður fyrir áfalli vegna sjálfsævisögulegrar skáldsögu systkinis. Þá fór móðir þeirra í mál við leikhús sem setti upp verk byggt á bókinni.
En það sem Hjorth gerir afskaplega vel í verkinu er að þótt lesandinn finni til með Bergljótu og skilji af hverju hún er sár og reið og vonsvikin þá gefur hún samt lesandanum rými til þess að finna líka til með öðrum fjölskyldumeðlimum. Þótt lesandinn taki sögu Bergljótar trúanlega þá eru hinar persónurnar ekki málaðar upp sem illmenni. Hjorth skrifar þannig að maður trúir Bergljótu heilshugar, enda dytti manni ekki í hug að hún færi að stofna til fjölskylduharmleiks að óþörfu, en maður skilur samt líka togstreituna sem býr innra með aðstandendum hennar, þar sem afneitun og ást takast á.
Höfundurinn tekst á við eina af stórum siðferðisspurningum samtímans; hvort trúa skuli þolendum þegar ekki er hægt að sanna að glæpur hafi verið framinn. Hún veltir fyrir sér sannleikanum sem fyrirbæri og því hver hafi leyfi til að ákveða hvað er satt. Hún tekur einnig fyrir málefni sem hefur verið töluvert í umræðunni undanfarin ár; hugmyndina um að áföll erfist og möguleg áhrif þeirra kynslóð fram af kynslóð.
Bergljót segir sjálf frá í fyrstu persónu. Hún er ekki yfirvegaður sögumaður sem segir frá í tímaröð heldur fær lesandinn að fylgja henni í þeim tilfinningarússíbana sem skapast í hafsjó þeirra minninga sem hún reynir að henda reiður á. Hjorth tekst vel að miðla þeirri hringiðu hugsana sem hefur verið hrundið af stað við það að Bergljót þarf að horfast í augu við áföllin í lífi sínu. Endurtekningar eru mjög áberandi og höfundurinn nýtir mikið það stílbragð að draga fram tilbrigði við sama stefið. Þýðandanum Ísaki Harðarsyni tekst að fanga það vel.
Hjorth heldur samt fast um tauma frásagnarinnar og dreifir vísbendingum með reglulegu millibili sem gerir það að verkum að sagan verður spennandi og á köflum heldur hún lesandanum hreinlega í heljargreipum. Upplýsingarnar skella á lesandanum eins og öldur, alltaf kemur eitthvað nýtt upp úr kafinu og heildarmyndin skýrist smám saman. Hjorth hefur sett saman áhrifamikla og grípandi frásögn og nær að miðla sögunni á yfirvegaðan hátt en leyfir þó tilfinningahitanum að blasa við.
Vigdis Hjorth er gestur Bókmenntahátíðar í Reykjavík sem haldin er 19.-23. apríl.