Í gær lýsti innviðaráðherra því að reynt hefði verið að koma í veg fyrir sérstakan skatt á flugferðir til og frá Íslandi, en skatturinn er til þess að þóknast pólitísku veðurfræðinni og bitnar hart á Íslendingum, eins og Jón Magnússon hefur bent á.
Þrátt fyrir tilraunir íslenskra ráðamanna munu engar varanlegar undanþágur verða veittar frá þessum skatti. Innviðaráðherra var í raun að lýsa því sem þekkt er í samskiptum við ESB, skrifar Jón. „Þeim samskiptum má lýsa með tveim orðum: Yfirgangur og óbilgirni.“
Og hann bætir við: „Hvenær gengumst við undir það að ES hefði eitthvað með loftslagsmál að gera fyrir okkar hönd? Þau atriði eru ekki hluti af EES-samningnum. Hvenær gengumst við undir að ESB hefði einhliða skattlagningarvald á Íslandi? Í 40. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands er sérstaklega tekið fram, að engan skatt megi leggja á þjóðina nema með lögum frá Alþingi. Ekki verður því séð, að þessi skattur verði lagður á íslenskt fólk eða fyrirtæki nema með samþykkt Alþingis, þar sem enn höfum við ekki framselt löggjafarvaldið, þó tilburðir séu uppi til að vængstýfa það með því að veita ES-löggjöf forgang umfram íslensk lög.
Er ekki kominn tími til að þjóðin taki EES-samninginn til endurskoðunar á grundvelli hagsmuna þjóðarinnar, en hætti að láta eins og hjáleiga í samskiptum við ES-höfuðbólið.“