Dagmál
Stefán E. Stefánsson
ses@mbl.is
Trúnaður ríkir um hvert kaupverðið er á þeim 25 Airbus farþegaþotum sem Icelandair hefur tryggt sér frá evrópska flugvélaframleiðandanum. Líkt og greint var frá í upphafi páskahátíðarinnar hefur Icelandair ákveðið að kaupa 13 vélar af gerðinni Airbus A321LR og A321XLR og kauprétti að 12 sams konar vélum að auki.
Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair Group, er gestur nýjasta þáttar Dagmála og hann segir viðskiptin stór í öllu samhengi. Samkvæmt opinberum upplýsingum kosta nýjar vélar af þessari tegund á bilinu 120-130 milljónir dollara, jafnvirði 16,5-17,8 milljarða króna. Væru vélarnar keyptar á fullu verði næmu viðskiptin því einhvers staðar á bilinu 412-445 milljörðum króna.
Það er hins vegar alkunna í viðskiptum af þessu tagi að afslættir sem flugfélög fá frá Airbus, rétt eins og Boeing, nema tugum prósenta. Bogi Nils gefur, sem áður segir ekki upp verðið en játar því aðspurður að miklir afslættir séu í spilinu.
„Það er rétt, ef menn fara og gúggla þá er ekki óalgengt að sjá afslátt upp á 50% og maður vísaði svolítið í það þegar við vorum að panta MAX-vélarnar og við tókum við þeim. En nákvæmlega hvernig afslátturinn liggur og hvert verðið er, ég get því miður ekki tjáð mig um það. En þetta eru mjög stórir samningar og háar fjárhæðir sem um ræðir,“ segir hann.
Sé miðað við helmingsafslátt má gera ráð fyrir að samningur Icelandair við Airbus hljóði upp á 206 til 225 milljarða króna.
Bendir Bogi Nils á að gefið hafi verið út að þeir samningar sem Icelandair gerði við Boeing á sínum tíma, þegar fyrirtækið tryggði sér á annan tug MAX-véla, hafi numið 700-800 milljónum dollara, jafnvirði 96-110 milljarða króna, og því er ljóst að samningurinn sem nú er í höfn er umtalsvert stærri í sniðum en hinn fyrri við Boeing.
Vilja tryggja sveigjanleika
Á síðustu árum hefur borið meira á því en áður að Icelandair hafi fjárfest í vélum, selt þær áfram til flugvélaleigusala og endurleigt þær til langs tíma. Það jókst í heimsfaraldri kórónuveirunnar þegar fjárhagur félagisns var bágur. Bogi Nils segir að félagið leggi áherslu á ákveðna blöndu í þessum efnum. Hluti vélanna verði seldur áfram og leigður en aðrar komi inn á efnahagsreikning félagsins.
„Við viljum hafa ákveðna blöndu í þessu. Það tryggir ákveðinn sveigjanleika og við höfum góða reynslu af því að eiga hluta af vélunum og þurfa ekki að semja við leigusala en síðan er líka gott í bland að vera með leigusala með sér í þessu.“
Ekki er óþekkt að flugfélög panti talsvert fleiri vélar frá framleiðendum en þau í raun hafa í hyggju að nýta í flota sínum til framtíðar. Eru þá kaupréttir að vélum seldir áfram til þriðja aðila. Var það t.d. reyndin á tímum FL Group þegar svokallaðar Dreamliner-vélar (787) frá Boeing voru keyptar á árunum fyrir hrun.
Bogi segir í samtali við Dagmál að slíkt sé ekki uppi á teningnum að þessu sinni. Kaupin og kaupréttirnir séu allir hugsaðir til þess að nýta í flotauppbyggingu fyrirtækisins sjálfs.
Stærðin skiptir máli
Nokkuð hefur borið á umræðu um að MAX-vélarnar sem nú eru í þjónustu Icelandair séu smáar í sniðum, einkum í samanburði við 767-breiðþotur félagsins og 757-vélarnar sem lengi hafa verið hryggjarstykkið í flotasamsetningu félagsins. Bogi Nils viðurkennir að stærð Airbus-vélanna í samanburði við aðrar hafi haft áhrif á ákvörðunina um að ganga til samninga við fyrirtækið.
„Við hugsum þetta út frá öllu, út frá upplifun farþega, þróunarmöguleikum leiðakerfisins og svo er mjög flókið og fjárhagslegt líkan sem liggur þarna að baki þar sem við erum að horfa á; hvað vélarnar kosta, eldsneytiseyðsla, þjálfun. Við horfum á alla þætti þegar svona ákvörðun er tekin. Og það er alveg rétt að Airbusinn er aðeins breiðari og það spilar líka inn í þessi mál að MAX-vélin er mjög vinsæl hjá flugfélögum og hún hefur reynst mjög vel eftir að kyrrsetningunni var aflétt. Við þekkjum flugfélög sem við tölum mjög reglulega við og þeir eru mjög ánægðir með þessa vél, rétt eins og við, en við erum með dálítið sérstakt leiðakerfi. Við erum ekki að fljúga eins og mörg flugfélög tiltölulega stutta leggi fram og til baka yfir daginn. Við erum að fljúga til Evrópu stutta leggi og langa leggi til Ameríku, upp í 8 tíma, þannig að það er aðeins flóknara fyrir okkur að finna hárréttu vélina en t.d. Ryanair.“
Flugvélar