Árni Þormóðsson
Inga Sæland og þingflokkur hennar endurflytur tvær þingsályktunartillögur á Alþingi, aðra í fimmta sinn og þá seinni í annað sinn. Þær heita: Tillaga til þingsályktunar um aukið lýðræði og gagnsæi í lífeyrissjóðum og Tillaga til þingsályktunar um eignarrétt og erfð lífeyris.
Þess er freistað, með röngum ályktunum og fullyrðingum í greinargerðum fylgjandi tillögum þingflokksins, að blekkja Alþingi til að samþykkja vanhugsaðar tillögur um málefni lífeyrissjóða. Yrðu tillögurnar samþykktar yrði það verulegur skaði þeim sem tillögumenn þykjast styðja.
Vanhugsaðar tillögur
Verkalýðsfélögin, sem stofnuðu lífeyrissjóðina 1970 og kjósa fulltrúa í stjórnir lífeyrissjóðanna síðan og gæta hagsmuna sjóðfélaga, hafa ekki samþykkt eða lýst sig fylgjandi þeim breytingum sem þingflokkurinn leggur til að gerðar verði á lífeyrissjóðunum með lögum frá Alþingi.
Inga Sæland og Flokkur fólksins, sem einhverjir hafa kosið sem málsvara láglaunafólks, leggur það til að tekið verði upp í lífeyrissjóðunum verkalýðsfélagakosningafyrirkomulag eins og á hlutafélagafundum, þar sem fjárhagslegur styrkur ræður ásamt því að leggja til breytingar sem þýða verulega skerðingu á samtryggingu lífeyrissjóðanna. Auk þess er lagt til að leyft verði að veita öðrum umboð til að fara með atkvæði sitt á fundum. Þar með er boðið upp á söfnun atkvæða í annarlegum og andfélagslegum tilgangi.
Tillögur í seinni þingsályktunartillögunni:
Frumvarpið tryggi m.a. að:
„a. Fólk geti valið á milli þess að greiða skyldubundinn lífeyrissparnað í sjóð sem veitir hlutfallslega réttindaávinnslu eða að greiða inn á sérgreindan reikning þar sem hægt er að velja hvernig lífeyrir er ávaxtaður,
b. við andlát gangi lífeyrisréttindi að erfðum til maka og barna að fullu; erfingjar geti valið hvort lífeyrir verði greiddur út eða hvort réttindin flytjist til erfingja.“
Almennt greiðir launafólk í lífeyrissjóði sem veita hlutfallslega réttindaávinnslu miðað við greidd iðgjöld og hefur verið svo frá upphafi.
Varðandi þann hluta tillögu Flokks fólksins, sem snýr að greiðslu iðgjalda inn á sérgreindan reikning, sem hægt væri að velja um hvernig iðgjöld viðkomandi væru ávöxtuð, er það ljóst að mjög væri aukið á áhættu sjóðfélaga um ávöxtun iðgjalda sinna frá því sem nú er yrði slíkt að veruleika. Fjármálafyrirtæki myndu keppast við að auglýsa ýmiss konar ávöxtunarmöguleika sem oft stæðust ekki skoðun. Rekstrarkostnaður lífeyrissjóðanna myndi stóraukast. Þessi hluti tillögu Flokks fólksins er því sniðinn fyrir fjársýslubraskara en ekki hagsmuni sjóðfélaganna.
Eðlisbreyting á lífeyrissjóðunum
Samþykki Alþingi breytingar á lögum um lífeyrissjóði samkvæmt b-lið tillögunnar þarf jafnframt því að skerða réttindi sjóðfélaganna. Hvað ætti að skerða? Ellilífeyrinn eða örorkulífeyrinn? Barnalífeyrir væri úti við erfð. Við það yrði eðlisbreyting á starfsemi lífeyrissjóðanna sem þá væru orðnir félagslega veikari og nánast eingöngu vörslustofnanir sparifjár til greiðslu ellilífeyris. Mjög mikilvægum öryggisþætti í kjörum launafólks, samtryggingunni, væri fórnað.
Gegn hagsmunum launafólks
Tillaga Ingu Sæland og Flokks fólksins beinist því gegn hagsmunum launafólks sem verður fyrir áföllum og þarf að njóta þeirrar tryggingar sem felst í örorku-, maka- og barnalífeyri lífeyrissjóðanna. Það er launafólkið sem þau og flokkurinn þykjast bera fyrir brjósti. Tillögurnar virðast settar fram ár eftir ár af þráhyggjunni einni án umhugsunar um afleiðingar og framkvæmd. Gegn ákveðnum umsögnum ASÍ sem sýnir fram á ólögmæta íhlutun í kjarasamninga fólgna í tillögunum og umsögn Landssamtaka lífeyrissjóða sem sýnir fram á ómöguleika á framkvæmd tillagnanna. Ekkert samráð er haft við stéttarfélögin nema ef til vill félagsformenn, sem hafa unnið með Ingu Sæland að því að ala á tortryggni með neikvæðri umræðu um lífeyrissjóðina í fjölmiðlum. Þar hafa þau verið að gera sjóðina að óvinum eigenda sinna sem eru sjóðfélagarnir.
Þeir sem hafa stutt Flokk fólksins vegna þess að hann berðist fyrir hagsmunum láglaunafólks þurfa í ljósi framangreindra tillagna flokksins að endurskoða þá afstöðu sína.
Höfundur er eldri borgari.