Bjarni Már Magnússon
Bjarni Már Magnússon
Alþjóðasamningar sem Ísland er aðili að eru ekki nægilega aðgengilegir. Auk þess birtast villandi upplýsingar um nokkra slíka samninga í lagasafninu.

Bjarni Már Magnússon

Það er nokkuð viðtekin skoðun að mikilvægt sé að lög, reglugerðir og alþjóðasamningar sem og svipaðar upplýsingar séu birtar með skilmerkilegum hætti. Slík birting veitir borgaranum tækifæri til að glöggva sig á þeim margvíslegu reglum sem gilda í hans daglega lífi og hvaða bindandi viðmiðum stjórnvöld eiga að fara eftir. Slík birting er beinlínis nauðsynleg til að hægt sé að veita ríkisvaldinu aðhald. Að sama skapi er aðgengi að slíkum upplýsingum mikilvægt.

Stjórnartíðindi C

Samkvæmt 4. gr. laga nr. 15/2005 skal í C-deild Stjórnartíðinda birta samninga við önnur ríki og auglýsingar varðandi gildi þeirra. Eru slíkir samningar birtir á íslensku og frummálinu nema í undantekningartilvikum. Nokkur misbrestur hefur verið á að alþjóðasamningar séu birtir í stjórnartíðindum í rúmlega 15 ár en stjórnvöld eru að vinna á þeim vanda með skipulögðum hætti.

Aðgengi að alþjóðasamningum sem Ísland er aðili að mætti vera betra. Netútgáfa C-deildar stjórnartíðinda nær aftur til ársins 1995. Til að nálgast eldri samninga, t.d. Norður-Atlantshafssamninginn (stofnsáttmála NATO) og hafréttarsamning Sameinuðu þjóðanna, í hinni formlegu réttu útgáfu, þarf að nálgast prentað eintak af Stjórnartíðindum. Sú útgáfa er aðgengileg almenningi á bókasöfnum og víðar en heppilegra væri þó að allir slíkir samningar, á íslensku og frummálinu, væru aðgengilegir með rafrænum hætti.

Ofan á þetta bætist að heildstætt yfirlit yfir þá samninga sem Ísland er aðili að nær einvörðungu fram til ársins 2005 og er að finna í word-skjali sem aðgengilegt er á vef utanríkisráðuneytisins. Ofangreint gerir upplýsingaöflun um alþjóðasamninga sem Ísland er aðili að og aðgengi að íslenskum þýðingum þeirra flóknari en þyrfti að vera.

Lagasafnið

Um áratugaskeið hafa í kafla 2.c í íslenska lagasafninu verið birtir nokkrir mikilvægir ólögfestir alþjóðasamningar sem tengjast mannréttindum. Í kafla 2.c fá umræddir samningar laganúmer sem er í flestum tilvikum númer samninganna í stjórnartíðindum C en ekki númer á löggjöf. Samningarnir birtast með nákvæmlega sama hætti í lagasafninu og þeir væru löggjöf. Yfirleitt kemur ekki fram hvenær Ísland undirritaði umrædda samninga eða hvenær þeir voru fullgiltir. Undantekningu frá þessu er að finna í auglýsingu um aðild Íslands að alþjóðasamningi um stöðu flóttamanna. Það sem er þó sérstakt við þá birtingu í lagasafninu er að samninginn sjálfan er þar hvergi að finna heldur einvörðungu upplýsingar um hvenær Ísland fullgilti samninginn, hvenær hann tók gildi gagnvart Íslandi og hvaða númer hann beri í stjórnartíðindum. M.ö.o. umrædd birting í lagasafninu þjónar varla neinum tilgangi.

Ísland hefur gert fyrirvara við ákvæði nokkurra samninga sem er að finna í lagasafninu. Upplýsingarnar um fyrirvarana koma þó hvergi þar fram. Þar að auki er engar upplýsingar að finna um þá fyrirvara sem Ísland hefur fallið frá. Með því að gera fyrirvara við tiltekið ákvæði, eða hluta ákvæðis, er slíkt ákvæði eða hluti þess ekki þáttur af samningsskuldbindingu Íslands. Við fullgildingu gerði Ísland t.a.m. fyrirvara við ákvæði samningsins um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi um bann gegn stríðsáróðri (eins og undirritaður fjallaði nýverið um á síðum Morgunblaðsins). Lesandi lagasafnsins hefur engar upplýsingar um þennan fyrirvara og má því ætla að hann sé ekki til staðar.

Óljóst er af hverju nákvæmlega þeir samningar sem er að finna í kafla 2.c í lagasafninu eru þar birtir en ekki aðrir eða fleiri slíkir samningar. Sem dæmi þá er samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks ekki birtur þar þrátt fyrir að Ísland hafi fullgilt hann og hann snerti marga.

Ruglingur

Umrædd birting í lagasafninu skiptir máli því að mikill munur er á stöðu lögfestra og ólögfestra alþjóðasamninga í íslenskum rétti, einstaklingar geta t.a.m. almennt ekki byggt rétt á alþjóðasamningi fyrir íslenskum dómstólum fyrr en þeir hafa verið lögfestir, þrátt fyrir að Ísland sé aðili að þeim. Ofangreindur birtingarháttur í lagasafninu hefur leitt til þess að fjölmargir aðilar – m.a. héraðsdómstólar, Alþingi sjálft, stjórnvöld, lögmenn og Lögmannafélag Íslands – hafa vísað til umræddra samninga sem laga.

Æskilegt væri að aðgengi að alþjóðasamningum sem Ísland hefur gerst aðili að væri betra hérlendis. Auk þess verður að gera þá kröfu að upplýsingar í lagasafninu séu ekki villandi. Er ekki hægt að kippa þessu í lag?

Höfundur er prófessor við lagadeild Háskólans á Bifröst.

Höf.: Bjarni Már Magnússon