Hægt verður að bragða á íslenskum ekta kavíar úr styrjuhrognum eftir um það bil tvo mánuði. Þá kemur fyrsti kavíarinn frá Hinu Norðlenzka Styrjufjelagi á Ólafsfirði á markað. Styrjukavíar er afar verðmæt afurð á neytenda- og veitingahúsamarkaði.
Hrogn og svil voru strokin úr styrjunum, sem eru í eldi á Ólafsfirði, undir lok síðasta mánaðar. Er þetta fyrsta uppskera úr íslensku styrjunum, sem hafa verið í eldi hér á landi í mörg ár. Hluti hrognanna var tekinn frá til að stækka stofninn. Seiðin hafa verið klakin og er byrjað að fóðra þau. Hluti hrognanna er unninn í kavíar samkvæmt einkaleyfi frá þýsku fyrirtæki. Kavíarinn á að verða tilbúinn til smökkunar og sölu í byrjun júní. » 6