50 ára Ragnheiður ólst upp í Kópavogi og svo í Garðabæ frá ellefu ára aldri. „Ég var síðan, eins og maður segir, dregin yfir lækinn til Hafnarfjarðar þegar ég kynntist manninum mínum, árið 1999. Hér er mjög fínt að vera. Pabbi minn er uppalinn í Hafnarfirði og mér fannst mjög skemmtilegt að fara í hans heimahaga.“
Ragnheiður kláraði viðskiptafræði með áherslu á alþjóðamarkaðsfræði. Fyrir námið og samhliða náminu vann Ragnheiður sem flugfreyja hjá Air Atlanta. Eftir námið vann hún meðal annars hjá skattinum og Virtus bókhaldsstofu. Frá árinu 2007 vann hún hjá Virtus og sem flugfreyja hjá Icelandair en frá 2014 tók flugfreyjustarfið alfarið við.
Áhugamál Ragnheiðar eru margs konar. „Ég er sífellt að uppgötva skemmtilega og áhugaverða hluti og til dæmis búin að prófa margt nýtt út frá hreyfingu. Ég er búin að vera í Boot Camp í kringum 14 ár og finnst það ómissandi hluti af tilverunni. Það ýtir manni skemmtilega út fyrir þægindahringinn. Ég reyni jafnframt að vera dugleg að víkka sjóndeildarhringinn með lestri áhugaverðra bóka og svo hef ég verið lúmskur mótorhjólaáhugamaður í mörg ár.“
Ragnheiður ætlar að taka það rólega í dag. „Ég ætla að hafa fjölskyldumatarboð í kvöld en þetta verður lágstemmdur afmælisdagur.“ Aðspurð segist hún ekki ætla að framkvæma einhverjar Boot Camp-áskoranir í tilefni dagsins. „En ég var alveg látin finna fyrir því á síðustu Boot Camp-æfingunni fyrir afmælið og þurfti að taka 50 endurtekningar af ákveðinni æfingu.“
Fjölskylda Eiginmaður Ragnheiðar er Freyr Hákonarson, f. 1973, verkefnastjóri hjá Árvakri. Synir þeirra eru Gunnar, f. 2005, og Hrafn, f. 2010. Börn Freys og stjúpbörn Ragnheiðar eru Sandra Sif, f. 1991, og Sindri Snær, f. 1994. Foreldrar Ragnheiðar eru hjónin Erna Kjærnested, f. 1950, vann á Póstinum og Strætó, Gunnar Benediktsson, f. 1941, tannlæknir. Þau eru búsett í Sjálandi í Garðabæ.