Glúmur Björnsson
Glúmur Björnsson
Hvernig stendur á því að vægar sóttvarnaaðgerðir skila engu síðri árangri en harðar?

Glúmur Björnsson

Breska og sænska hagstofan hafa nýlega lagt mat á umframdauðsföll í ríkjum Evrópu frá upphafi faraldurs. Þeim ber saman um að umframdauðsföllin hafi verið einna minnst í Svíþjóð á árunum 2020-2022.

Umframdauðsföll eru dauðsföll á tilteknu árabili umfram það sem vænta mátti miðað við árin þar á undan. Mat á umframdauða er að nokkru leyti háð því hvaða tímabil menn velja til viðmiðunar og hvort menn reyna að leggja mat á undirliggjandi þróun, aldursdreifingu o.s.frv. Kosturinn við þennan mælikvarða er að hægt er að bregða honum með sama hætti á öll lönd. Hann gefur betri heildarmynd af stöðunni en t.d. talning á greindum smitum eða látnum sem greinst hafa með smit. Embætti landlæknis og sóttvarnalæknis hafa tekið undir þessi sjónarmið og raunar gengið lengra. Í yfirlýsingu þeirra 29. ágúst sl. segir: „Að okkar mati er áreiðanlegasta aðferðin til að meta fjölda dauðsfalla af völdum COVID-19 sú að skoða heildarfjölda allra dauðsfalla, eins og að ofan er gert, og meta umframdauðsföll.“

Svíar héldu sig við vísindin

Sjálfsagt kemur ýmsum á óvart að Svíar hafi komist einna best þjóða frá faraldrinum á þennan mælikvarða. Svíar gripu til vægustu aðgerðanna í Evrópu. Þeir ýttu ekki undir ótta fólks. Þeir leiðbeindu fólki og treystu því. Þeir hlutu bágt fyrir þessa stefnu í flestum fjölmiðlum. Sóttvarnayfirvöld í öðrum löndum átöldu þá. Þeirra á meðal íslenski sóttvarnalæknirinn. Viðbrögð Svía voru þó í samræmi við áætlanir heilbrigðisyfirvalda, bæði í einstökum ríkjum og alþjóðastofnunum, fyrir faraldurinn. Aðrir en Svíar fóru út af sporinu. Nýr sóttvarnalæknir Norðmanna sagði nýlega að önnur ríki en Svíþjóð hefðu tekið upp þær sóttvarnaaðferðir sem alræðisríkið Kína beitti. Það er ekki góð einkunn fyrir lýðræðisríki.

Hvernig stendur á því að vægar sóttvarnaaðgerðir skila engu síðri árangri en harðar? Skýringin liggur sjálfsagt í því að lokanir og aðrar aðgerðir eru jafnan viðbragð við fjölgun smita. Smit skila sér ekki í greiningu fyrr en eftir nokkra daga. Hér á landi lagði sóttvarnalæknir til dæmis óljóst mat á þróunina og sendi heilbrigðisráðherra minnisblað um aðgerðir eftir að greindum smitum fjölgaði. Eftir að hafa farið yfir málið og kynnt það í ríkisstjórn gaf ráðherra svo út reglugerð um lokanir. Þá var öllum hvort eð er orðið ljóst að smitum væri að fjölga og höguðu sér eftir því, hver eftir sínum efnum og aðstæðum. Smitkúrfan hætti að rísa áður en áhrifa af lokunum tók að gæta. Lokanirnar misstu þannig að mestu leyti marks sem sóttvarnaaðgerð en tjónið sem þær höfðu í för með sér í atvinnulífinu, skólum, íþróttum og félagslífi verður seint bætt.

Lokanir í nafni sóttvarna voru ofmetnar en traust til almennings vanmetið.

Virkjanir hafa ekki undan

Allar tilraunir til að stýra þjóðfélögum í smáatriðum að ofan hafa endað með ósköpum. Þessi gerði það líka. Eins og allar hinar var hún sögð í göfugum tilgangi. Mörg hundruð milljarða króna skuldasöfnun ríkissjóðs Íslands í þágu gagnslausra sóttvarna mun skerða getu ríkissjóðs til að sinna hvers kyns velferðarmálum um langa hríð.

Landsvirkjun greiddi ríkissjóði á dögunum hæstu arðgreiðslu í sögunni enda voru aðstæður félaginu mjög hagstæðar á síðasta ári. Arðgreiðslan mun þó ekki duga fyrir vöxtunum sem sóttvarnaskuldirnar safna á þessu ári.

Höfundur er efnafræðingur.

Höf.: Glúmur Björnsson