Ásta Sigríður Hrólfsdóttir fæddist 7. júní 1949. Hún lést 3. apríl 2023.
Útför fór fram 19. apríl 2023.
Ástu Siggu tengdamömmu hitti ég fljótlega eftir að við Edda Björk byrjuðum að stinga saman nefjum haustið 1997. Ég man hversu vel hún og Agnar tóku mér og hvernig það var augljóst frá fyrsta degi að ég væri velkominn inn í fjölskylduna. Af Ástu geislaði hlýleiki og í minningunni var hún alltaf með bros á vör. Hún var trygg sínu fólki, góð vinkona, sjálfstæð, vandvirk, fyndin, nákvæm og fyrirhyggjusöm.
Í Hlíðarkoti á Þingvöllum var að finna griðastað þeirra hjóna. Það var augljóst að þar naut Ásta sín best, á pallinum í sólbaði, að sinna ræktuninni sinni, í heita pottinum eða sitjandi í sófanum umkringd sínu uppáhaldsfólki. Þannig var Ásta yfirleitt orðin sólbrún og sælleg strax í byrjun miðjan maí ár hvert eftir ljúfar stundir í sveitinni.
Mér er minnisstætt sumarið sem Ásta varð sextug. Þá fékk hún til sín dæturnar og fjölskyldur þeirra til Þingvalla að undirbúa afmælisveisluna sem haldin var í Hlíðarkoti. Í minningunni voru þetta einstakir góðviðrisdagar (enda var alltaf gott veður í Hlíðarkoti að Ástu sögn). Við unnum saman af krafti við undirbúninginn undir dyggri verkstjórn Ástu og úr urðu samverustundir sem mér þótti vænt um. Það sýndi sig vel hversu góður og metnaðarfullur gestgjafi hún var en ekki síst hversu gaman henni þótti að taka á móti fólki.
Ásta ferðaðist mikið á meðan ég þekkti hana. Hún og Agnar voru dugleg að fara til útlanda og við Edda Björk vorum þeim stundum samferða. Ásta var sérstaklega góður ferðafélagi: Á ferðalögum var hún alltaf jákvæð, hress, sveigjanleg og til í hvað sem er. Allt miklir kostir þegar ferðast er með mér. Þannig fórum við saman í eftirminnilegar ferðir til Boston, Minneapolis og Orlando. Og í sjötugsafmælisferð Ástu til Spánar átti ég óvænta en notalega stund með þeim hjónum í Sitges. Þar sátum við þrjú við sjóinn og sólsetrið, borðuðum góðan mat og ræddum lífið og tilveruna.
Eitt af því sem einkenndi Ástu var þrautseigja, eiginleiki sem hún náði að kenna dætrum sínum vel. Hún gafst ekki upp þótt á móti blési þegar hún greindist með krabbamein í hálsi, þegar hún lá heima eftir mjaðmaskipti eða eftir að hún hafði greinst með MND. Með þrautseigjuna og kraftinn að vopni tókst hún á við þessar áskoranir eins og ekkert væri. Ásta mætti sínum sjúkdómi með æðruleysi og þrautseigju eins og henni var einni lagið. Þótt hún vissi í hvað stefndi eftir að hún var komin inn á spítalann hélt hún áfram að grínast, brosa og dansa. Því mun ég aldrei gleyma.
Loks er að segja frá því að Ástu þótti ósköp vænt um barnabörnin sín og þeim um hana. Hún knúsaði þau og dekraði við þau með gjöfum og góðgæti við hvert tækifæri sem gafst. Þannig giltu til dæmis sérreglur í Hlíðarkoti um hvað mátti gera, borða og fara sem börnin nýtt sér óspart. Hjá Elínu Ósk, Ástu Sif og Einari Bjarka skilur amma Ásta eftir sig sætar minningar um góðar stundir og sólríka daga.
Elsku Ásta. Takk fyrir ljúfu samverustundirnar, hlýjuna, hjálpina, jákvæðnina, hvatninguna, og þolinmæðina. Hvíldu í friði. Góða nótt.
Sigfús Ragnar Oddsson.
Ásta Sigríður, tengdamóðir mín, háði hugrakka baráttu við hinn illvíga taugahrörnunarsjúkdóm MND allt fram á síðasta dag. Sjálfur kynntist ég Ástu fyrst sumarið 1988 þegar ég, 17 ára pilturinn, starfaði sem sendill á Ferðaskrifstofu ríkisins þar sem hún hafði nýhafið störf.
Nokkrum árum síðar, þegar við Erna fórum að rugla saman reytum, kynntist ég þessari traustu og hjartahlýju konu fyrir alvöru. Á Flókagötunni höfðu þau Agnar búið sér og dætrum sínum, þeim Ernu, Fríðu og Eddu Björk, fallegt og ástríkt heimili sem bar smekkvísi og gestrisni þeirra hjóna gott vitni.
Ásta var jarðbundin og ráðagóð þegar til hennar var leitað og nutum við Erna oft góðs af því. Hún var blátt áfram og hreinskilin í fasi og það var alltaf gaman að vera í kringum hana. Ásta var húmoristi og síðustu mánuðina tókst hún gjarnan á við erfiðar aðstæður með húmorinn að vopni.
Ásta hafði einlægan áhuga á menningu og fólki. Voru þau Agnar tíðir tónleika- og leikhúsgestir og naut Ásta sín vel í góðra vina hópi, ekki síst í hlutverki gestgjafans. Hún var einstaklega ræktarsöm við fjölskylduna og lagði sig fram við að sækja öll íþróttamót, tónleika og aðra viðburði hjá barnabörnunum og nýtti hvert tækifæri til þess að ná fjölskyldunni saman.
Hlíðarkot í Þingvallasveit var sannkallaður sælureitur þeirra hjóna. Ég minnist indælla samverustunda með fjölskyldunni yfir páska og eftirminnilegar eru afmælisveislur þeirra hjóna með stórum hópi vina og fjölskyldu, undir berum himni á fallegum sumarkvöldum.
Ásta ljómaði í ömmuhlutverkinu og þegar börnin okkar voru lítil nutu þau sín best í fanginu á ömmu sinni. Hún kenndi þeim allt um fuglalífið í Þingvallasveit og sýndi þeim alúð og áhuga í hverju því sem þau tóku sér fyrir hendur.
Á Kaupmannahafnarárum okkar Ernu áttum við margar góðar samverustundir með Ástu og Agnari enda voru þau hjón á heimavelli þar í borg. Í september síðastliðnum fórum við saman í helgarferð til Kaupmannahafnar og rifjuðum upp góðar minningar. Ásta var staðráðin í að láta ekki sjúkdóminn stöðva sig í þeirri ferð heldur naut sín vel í Kóngsins Köben.
Ég er þakklátur fyrir að hafa átt samleið með Ástu og notið hlýju, jákvæðni og trygglyndis hennar í minn garð og fjölskyldu minnar og kveð elskulega tengdamóður mína með söknuði.
Minningin lifir.
Már Másson.
Í dag kveðjum við okkar ástkæru Ástu Siggu eins og hún var ávallt kölluð. Hún lést fyrir aldur fram eftir stutta en snarpa baráttu við illvígan sjúkdóm.
Ásta Sigga var þriðja í röðinni af fjórum systrum sem ólust upp á Barónsstíg 19 í húsi foreldra sinna, þeirra Ástu Guðmundsdóttur húsmóður og Hrólfs Benediktssonar, prentsmiðjustjóra og eiganda Offsetprents, er bjuggu þar í um 40 ár. Í húsinu bjó einnig Bjarnveig föðuramma þeirra systra ásamt fleira frændfólki. Hrólfur var sannkallað höfuð fjölskyldunnar. Mjög kært hefur alla tíð verið með þeim systrum og ekki síst milli konu minnar, Birnu, en milli hennar og Ástu Siggu var rétt rúmt ár í aldri.
Ásta Sigga lauk kennaraprófi frá Kennaraskólanum. Hún starfaði í nokkur sumur sem flugfreyja hjá Flugfélagi Íslands og þar voru örlög hennar ráðin er hún hitti Agnar sem starfaði þar á þeim tíma. Agnar heillaðist af þessari brosmildu og fallegu konu. Þau voru hamingjusamlega gift í meira en 50 ár. Um árabil ráku þau Gráfeld sem seldi fatnað úr loðskinni og síðar ýmislegt til heimilishalds. Í mörg ár starfaði hún hjá Icelandair og annaðist stóran hóp viðskiptavina og ég veit fyrir víst að þeir voru afar ánægðir með hennar þjónustu.
Ásta Sigga var vel gerð, klár og dugleg. Hún hafði hlýja nærveru og bros sem líkja má við sólargeisla. Þau Agnar voru afar gestrisin og það voru margir vina þeirra sem nutu samvista við þau og ekki síst gistivináttu í sumarbústað þeirra við Þingvallavatn. Börn okkar Birnu eiga ótal góðar minningar af langdvölum hjá þeim í bústaðnum í gegnum æskuárin.
Sumarið 2021 vorum við Birna hjá þeim í sumarbústaðnum þegar Ásta Sigga sagði okkur að hana grunaði að hún væri komin með MND-sjúkdóminn. Aðspurð sagðist hún tikka einfaldlega í of mörg box hvað einkenni varðaði. Um haustið var greiningin síðan staðfest. Henni var alveg ljóst með hvaða þunga þessi ömurlegi sjúkdómur myndi leggjast á hana og hún tókst á við örlög sín af æðruleysi. Einu og hálfu ári síðar er runnin upp kveðjustundin.
Hugur okkar er hjá Agnari, dætrunum þremur, Ernu, Fríðu og Eddu Björk, sem og tengdabörnum og barnabörnum. Sorg þeirra og missir er mikill.
Við kveðjum elskaða systur og mágkonu með miklum trega. Blessuð sé minning Ástu Siggu.
Birna og Einar Sveinsson.
Baráttunni er lokið, baráttu Ástu systur minnar, sem aðeins gat farið á einn veg, er nú lokið. Við vorum fjórar systurnar á Barónsstíg 19, dætur Hrólfs Benediktssonar prentsmiðjustjóra, ættaðs frá Ísafirði, og Ástu Guðmundsdóttur húsmóður frá Heiðardal í Vestmannaeyjum. Á Barónsstígnum áttum við systurnar fallega barnæsku. Ásta Sigga var næstyngst. Hún var falleg, fíngerð og dugleg stelpa, sem trítlaði á eftir okkur stóru systrum sínum um allar koppagrundir. Það var alltaf dýrmætt að vera fjórar systur og nú er stórt og sárt skarð höggvið í hópinn þegar Ásta systir er farin, alltof snemma.
Litla systir okkar hún Ásta var líklega sú sterkasta og vafalaust sú seigasta. Það kom berlega í ljós þegar MND-sjúkdómurinn gerði vart við sig og áður hafði hún sigrast á krabbameini. Hún tókst á við það sem að höndum bar með reisn. Sagt er að lífið fari sjaldnast eins og við ætlum okkur. Það er ósanngjarnt að svona hafi farið fyrir þessari duglegu konu sem ræktaði líkama sinn svo vel, stundaði samviskusamlega en þó öfgalaust bæði leikfimi og útivist alla ævi, þurfti svo að glíma við þennan hörmulega sjúkdóm sem felldi hana að lokum.
Ásta lauk kennaranámi eftir að hafa dvalið í Bandaríkjunum í eitt ár. Hún kenndi við Álftamýrarskóla áður en hún fór til starfa sem flugfreyja bæði hjá Flugfélagi Íslands og Loftleiðum um tíma. Hún skildi við flugstarfið og hóf störf við að reka fjölskylduverslunina Gráfeld. Ásta fór síðan aftur til starfa hjá Icelandair eftir að dæturnar uxu úr grasi. Þá í bókunardeildinni þar sem hún naut sín vel enda talnaglögg og útsjónarsöm. Hún var glúrin við að finna lausnir fyrir þá viðskiptavini sem þurftu aðstoð við flóknar flugleiðir og góða gistingu um allan heim. Mér barst oft til eyrna hve fólk var ánægt með hennar störf og leitaði fólk til hennar aftur og aftur. Það segir sína sögu um samviskusemina - allt stóðst.
Ásta og Agnar bjuggu sér heimili við Flókagötu 41 og seinna byggðu þau sér sumarbústað við Þingvallavatn, þar sem þau eyddu ótal stundum. Ástu systur minni tókst ávallt að gera nærumhverfi sitt hlýtt og fallegt og átti það við um bæði heimilið og sveitina. Sveitin var griðastaður þeirra hjóna þar sem batteríin voru hlaðin. Þau voru vinmörg og vinir og ættingjar heimsóttu þau oft í sveitina enda einstaklega gestrisin hjón. Vinahópurinn var samrýndur og reyndist þeim vel síðasta erfiða spölinn.
Ásta og Agnar eignuðust þrjár yndislegar dætur. Þær fengu allt það besta frá móður sinni, glaðlyndið, umhyggjuna, þolinmæðina og ótal margt annað. Alla tíð var hún afar stolt af öllum hópnum sínum, dætrunum og ekki síður öllum barnabörnunum. Missir þeirra sem standa henni næst er sárastur, enda var Ásta systir mín með sérlega góða og hlýja nærveru, hún var barngóð og fólkið hennar var henni allt.
Nú er komið að kveðjustund og það er sárt og erfitt að kveðja í hinsta sinn, jafnvel þótt Ásta hafi verið tilbúin að fara. Ég bið góðan Guð að vernda fjölskyldu Ástu Siggu minnar og veita þeim styrk í þeirra miklu sorg.
Erna Hrólfsdóttir.
Ásta Sigríður, mágkona mín, lést eftir hetjulega baráttu við banvænan sjúkdóm. Minningar um yndislega og orkumikla konu, móður og eiginkonu Agnars, bróður míns, hrannast upp. Hún var þriðja í röðinni af fjórum fallegum dætrum Hrólfs og Ástu á Barónsstígnum, sem allar hófu starfsferil sinn sem flugfreyjur og þóttu með glæsilegustu kvenkostum í bænum á sínum tíma. Agnar var lánsamur að kynnast Ástu á unga aldri og voru þau gefin saman árið 1970, fáeinum mánuðum eftir að við Björk Sigrún giftum okkur. Við urðum því samferða á fyrstu hjúskaparárum okkar og deildum með okkur reynslunni af að stofna heimili og ala upp börn. Fjölskylduböndin styrktust enn frekar þegar við, ásamt Siggu Dóru systur okkar og hennar fjölskyldu, byggðum okkur hvert sinn sumarbústað í landi foreldra okkar austan Mosfellsheiðar. Börnin okkar njóta þess enn í dag að hafa slitið barnsskónum fram undir fermingu í sveitinni nánast öll sumur að páskum meðtöldum, og brátt tekur ný kynslóð við. Agnar og Ásta áttu mjög vel saman, bæði listfeng, drífandi, hugmyndarík og óhrædd við að feta nýjar slóðir. Smekklega innréttuð heimili þeirra í Reykjavík og fyrir austan bera vitni um listræna hæfileika þeirra. Þau voru brautryðjendur á tveimur sviðum þegar þau stofnuðu Gráfeld. Fyrirtækið framleiddi fallega hannaðar og vinsælar yfirhafnir úr snöggklipptum gæruskinnum, sem allir vildu eignast, þangað til gerviefnin yfirtóku markaðinn. Gráfeldur söðlaði þá um og hóf innflutning á hinum hagkvæmu, sænsku LUNDIA-hillum, sem urðu brátt eftirsótt fyrstu húsgögn á heimilum heillar kynslóðar ungs sambýlisfólks, þar til IKEA ruddi sér til rúms. Ásta reyndist hafa afburða stjórnunar- og skipulagshæfileika og voru þau Agnar samstillt tvíeyki í eigin atvinnurekstri. Á seinni hluta starfsævinnar sérhæfði Ásta sig í skipulagningu viðskiptaferða embættis- og kaupsýslumanna, þar sem þolinmæði, sveigjanleiki og útsjónarsemi skipta höfuðmáli. Við hjá Markaðsskrifstofu iðnaðarráðuneytis og Landsvirkjunar nutum góðs af framúrskarandi þjónustu Ástu á tíðum ferðum til útlanda á 15 ára líftíma MIL. Tilkomumest í minningunni um Ástu eru þó hennar góðu mannlegu eiginleikar, hjartahlýja, glaðlyndi, gestrisni, tryggðin og stuðningurinn við Agnar bróður, sem nú hefur misst góðan félaga og lífsförunaut.
Við Erna kveðjum Ástu að leiðarlokum með söknuði og vottum Agnari, dætrunum og fjölskyldum þeirra innilega samúð.
Andrés Svanbjörnsson.
Þegar Agnar kynnti okkur í fjölmennum, rótgrónum vinahópnum fyrir Ástu, þá leyndi sér ekki ástin og stoltið. Agnar hafði greinilega dottið í lukkupottinn. Hann vissi það sjálfur og við vinir hans fundum að þarna var alvara á ferð. Ásta heillaði okkur öll á svipstundu, þessari fallegu, kláru og skemmtilegu stelpu í Kennaraskólanum var tekið fagnandi. Síðan hefur hún verið vinkona okkar allra og aldrei borið skugga á þá vináttu. Við höfum fylgst að þegar börnin okkar hafa fæðst, farið saman í óteljandi ferðalög, bæði innanlands og utan, sumir hafa skilið og fundið nýjan maka og þegar ein flutti til útlanda þá fundum við þörfina fyrir að skipuleggja okkur, kvenleggurinn í hópnum. Þá varð til félagsskapurinn „First wives“ sem einbeitti sér að því að hittast skipulega, heimsækja þessa í útlegðinni og skoða heiminn.
Við áttum saman stærðarinnar tjald sem hægt var að nota á ferðalögunum og líka á hátíðum á heimaslóðum. Stundum vorum við svo „óheppin“ að vera búin að setja upp tjaldið þegar brast á með blíðvirði og tjaldið varð óþarft. Þegar börnunum í hópnum fjölgaði og hópurinn var orðinn býsna fjölmennur urðu til minni hópar, t.d. hópurinn sem átti sumarbústað við Þingvallavatn og hittist reglulega. Árleg „tradisjón“ var svo „julefrukost“ á danska vísu sem þau sem höfðu unnið og menntað sig í Danaveldi stóðu fyrir. Reyndar kallaði ein úr hópnum viðburðinn „árlega tragedíu“ sem okkur finnst mjög fyndið og höfum gætt þess að gleyma ekki.
Minningarnar hrannast upp og okkur hlýnar um hjartaræturnar þegar við hugsum um hana Ástu okkar. Þau Agnar eignuðust þrjár dásamlegar dætur, þær Ernu, Fríðu og Eddu Björk sem allar eiga maka og börn og hafa svo sannarlega verið foreldrum sínum stoð og stytta í erfiðum veikindum Ástu. Þau héldu vel hvert utan um annað í fjölskyldunni og mannkostir Ástu nutu sín í hvívetna. Hún var sterk og öflug og greind og við vinkonurnar nutum þess í samvistum okkar við hana.
Ásta vissi hvað beið hennar og við líka, en dauðinn kemur manni samt alltaf á óvart. Nú syrgjum við kæra vinkonu og hugsum til fjölskyldunnar og sérstaklega Agnars, en öll hafa þau misst mikið.
Blessuð sé minning Ástu okkar.
Anna A., Anna P., Birna, Erla, Guðrún, Jóhanna, Kristín G., Kristín T. og Steinunn.
„Minningar, sem tala máli hins liðna, eru dýrmætur fjársjóður þeirra, sem góðar eiga.“
Við vinkonurnar erum svo lánsamar að eiga slíkar minningar um yndislega vinkonu, sem nú er horfin okkur. Ríflega hálfrar aldar vinátta, traust vinátta, sem aldrei brá lit eða brast, síung og varð æ nánari með árunum. Ásta Sigga var einstaklega vel gerð manneskja, sem fegraði mannlífið. Lífsgleði, hjartahlýja, hugprýði og fágun birtast fyrir hugskotssjónum þegar við minnumst hennar. Allt til síðustu samverustundar örfáum dögum fyrir andlátið var það hún, sem hélt okkur við efnið, þegar hugur okkar hinna og einbeiting hvarflaði út um víðan völl. Ætíð ábyrg og traust. Þessi síðasta stund okkar saman var einmitt í Laugarásnum, þar sem fegurð dalsins blasti við okkur og skemmtilegar myndir skutu upp kollinum af okkur stöllum, léttfættum og kátum í tennisleik, sem við stunduðum reglulega um árabil á einu af íþróttasvæðum dalsins. Ein af mörgum birtingarmyndum saumaklúbbsins, sem ekki er einhamur.
Nú þegar við kveðjum vinkonu okkar leitar hugurinn aftur til áranna þegar vinátta okkar hófst. Hana má rekja til barnaskólaáranna hjá sumum okkar, síðan bættist við hópinn í gaggó, og á framhaldsskólaárunum varð hópurinn fullmótaður og stofnaður saumaklúbbur að venju þess tíma. Í fyrstu gekk hann mest út á að skemmta sér vel, hittast og fara í ferðalög.
Áfram liðu árin og sumar fóru utan til náms. Nú breyttust viðfangsefni klúbbsins, heldur minna varð um skemmtanahald og ferðalög, fjölskyldur stofnaðar og börn komu til sögunnar. Þegar um hægðist varð klúbburinn gönguklúbbur og gengið var um næsta nágrenni. Næst varð hann tennisklúbbur og spiluðum við vikulega tennis í fjölmörg ár og tókum m.a. þátt í síðkjólatenniskeppni. Síðar varð klúbburinn jógaklúbbur undir stjórn djáknans í Áskirkju, þá lesklúbbur og að síðustu fórum við saman á bridgenámskeið og bridgeklúbburinn varð til. Allt samkvæmt lífsklukkunni.
Í bridge spila fjórir saman og það gerum við líka, en þær sem sitja yfir verma hornin á spilaborðinu, fylgjast með og aðstoða ef vill. Ásta var mikil spilakona enda gerði hún allt vel.
Okkur er minnisstætt þegar við vorum að vetrarlagi heima hjá Önnu í garðhúsi og verið var að grilla en hvar var meðlætið? Þá gerði Ásta sér lítið fyrir og skellti í þessa frábæru béarnaise-sósu. Hvernig hún gerði það var undur. Ævinlega ráðagóð.
Ásta var alltaf í góðu formi, æfði ballett sem unglingur og vert er að minnast þess að hún og Vala brugðu sér að skoða gosið í Geldingadölum í maí 2021.
Þegar hún veiktist sýndi hún mikinn styrk, beit svo sannarlega á jaxlinn og hélt sínu striki eins og frekast var unnt, sýndi ótrúlega seiglu og spilaði með okkur nánast til síðasta dags.
Síðasta spil Ástu 30. mars sl. voru fimm lauf, sem hún stóðst með glæsibrag, þannig kvaddi hún okkur.
Það voru sannarlega forréttindi að fá að njóta vináttu hennar.
Aðalbjörg Jakobsdóttir (Abba), Anna Karlsdóttir, Guðný Eiríksdóttir, Hanna Þórarinsdóttir, Laufey Hannesdóttir, Valgerður Björnsdóttir.
Það er þannig að þegar vinur fellur frá horfir maður til baka og minnist þess, sem við höfum upplifað saman með Ástu Sigríði Hrólfsdóttur. Þar er af mörgu að taka. Í mörg ár hittumst við í vinahópnum á nýársdag, fórum í stutta vetrargöngu og sátum svo veislu með súkkulaði og snapsi. Í þessum ferðum var Ásta alltaf með myndavél og tók mynd sem hún setti í albúm. Þannig má skoða árlega hrörnun hópsins á sama bekknum úti í Skerjafirði. Einnig var farið í göngur í nágrenni Reykjavíkur á öllum árstímum. Sömuleiðis var farið í margra daga ferðir á bílum og sofið í tjöldum eða sumarbústöðum. Þessar ferðir náðu til ýmissa gönguleiða um allt land og farnar voru ýmsar hálendisferðir. Við svona mikla og nána samveru kynntist vinahópurinn vel. Við öll gerðum okkur ljóst, hve mikill styrkleiki Ástu var á öllum sviðum. Hún var dugleg og hörð af sér í öllu sem hún tók sér fyrir hendur og hrókur alls fagnaðar. Í þessum ferðum voru börnin oftast með og myndaðist við það góður og verðmætur kunningsskapur allra fjölskyldnanna. Síðar færðist ferðagleðin til útlanda. Þar voru langir hjólatúrar, fjallgöngur og ýmsar borgarferðir. Í þessum ferðum nutum við reynslu Ástu og Önnu Alfreðsdóttur í ferðabransanum.
Að leiðarlokum lifir í huga okkar minning um sterka og öfluga konu sem setti jákvæðan tón í öll okkar ferðalög. Fyrir það erum við óendanlega þakklátir. Nú hefur hún lagt í sína síðustu ferð. Við vottum Agga og dætrunum innilega samúð okkar.
Finnur, Ágúst,
Jón G., Viðar.
Ásta og Agnar voru samferðamenn okkar og meðal bestu vina öll okkar fullorðinsár. Missir Agnars er mikill. Þau voru samrýnd hjón Ásta og Agnar. Við vorum tengd fjölskylduböndum. Gestrisni þeirra var með afbrigðum sem við nutum ótal oft. Við áttum gleðistundir saman, sérstaklega í sumarkofum okkar í Skálabrekkuvík sem nánast standa á sömu þúfu. Þegar börn okkar voru að alast upp keyrðum við Agnar til vinnu frá Þingvöllum en mæður sinntu börnunum. Krakkarnir léku sér í móunum og sandinum í fjörunni. Þegar blásið var í þokulúðurinn þustu allir inn í mat í Hlíðarkotið Ástu og Agnars eða í Fjörukotið okkar. Addi og Björk voru með sína stráka í Hálsakoti, á næstu þúfu.
Það var því víðar en í Hlíðarendakoti Þorsteins Erlingssonar sem „oft var í koti kátt og krakkar léku saman“.
Ásta var yndisleg, glaðlynd, sterk en ljúf kona. Hún stóð þétt með bónda sínum og dætrum. Hennar er sárt saknað. Megi minningarnar um Ástu, sem allar eru góðar, veita þeim huggun nú á erfiðum tíma.
Sigríður Halldóra og Ásgeir Thoroddsen.
Það er með döprum hug og söknuði sem ég kveð mína kæru skólasystur Ástu Sigríði Hrólfsdóttur, Ástu Siggu. Við kynntumst fyrst þegar við byrjuðum í Kennaraskóla Íslands haustið 1967 og settumst í B-bekkinn. Við urðum strax miklar vinkonur þótt við deildum kannski ekki öllum sömu áhugamálunum og samveran væri ekki svo mikil utan skólans. Ég varði nánast öllum mínum frítíma í leiklistinni en þar lá ekki áhugi Ástu. En við sátum nánast alltaf saman öll þessi fjögur ár sem kennaranámið var þá og oft urðum við samferða til og frá skóla því ég átti heima á Grettisgötunni og Ásta Sigga á Barónsstígnum og þá var mikið spjallað. Og svo á vorin þegar kom að prófunum var gott að eiga Ástu að. Leiklistin hafði á stundum verið ansi tímafrek á kostnað námsins. Þá eyddum við heilu dögunum saman við próflestur ásamt Nönnu vinkonu minni, oftast heima hjá Nönnu, drukkum kók með lakkrísröri og borðuðum prins póló. Þetta voru skemmtilegar stundir þótt verkefnið væri oft krefjandi. En svo eignaðist Ásta Sigga kærasta, hann Agnar sinn, og fljótlega kom Erna í heiminn og í nógu var að snúast á því heimili.
Þótt leiðir okkar hafi ekki beinlínis legið saman vissum við alltaf hvor af annarri og við skólafélagarnir í B-bekknum höfum verið dugleg að halda sambandi í gegnum tíðina og þar hefur Ásta Sigga alltaf verið með. En stór skörð hafa nú verið höggvin í okkar hóp. Fjórir hafa kvatt langt fyrir aldur fram; Guðbjartur Hannesson, Gutti, Ragnar Gíslason, Raggi, Björn Karlsson, Bjössi, og nú síðast Ásta Sigríður Hrólfsdóttir, Ásta Sigga. Undanfarið höfum við í B-bekknum hist reglulega einu sinni í mánuði og þeir mætt sem geta.
Það er einmitt á stundum sem þessari, þegar maður kveður gamla vinkonu, sem maður finnur hversu mikilvægt það er að rækta vináttuna og halda sambandi við þá sem hafa verið manni kærir. Nanna vinkona Christiansen biður fyrir kveðju til Agnars og fjölskyldunnar en hún átti þess ekki kost að vera við útförina.
Elsku Aggi, ég votta þér og fjölskyldu þinni innilega samúð mína. Hvíl í friði elsku Ásta Sigga mín.
Sigríður Margrét
Guðmundsdóttir.