Vampírumynd „Þrátt fyrir fyrrnefnda galla er Renfield skemmtileg mynd sem er þess virði að sjá í bíói, jafnvel þó það sé bara til þess að sjá Cage leika Drakúla,“ segir í rýni um vampírumynd Chris McKey, Renfield.
Vampírumynd „Þrátt fyrir fyrrnefnda galla er Renfield skemmtileg mynd sem er þess virði að sjá í bíói, jafnvel þó það sé bara til þess að sjá Cage leika Drakúla,“ segir í rýni um vampírumynd Chris McKey, Renfield.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sambíóin og Laugarásbíó Renfield ★★½·· Leikstjórn: Chris McKay. Handrit: Ryan Ridley. Aðalleikarar: Nicholas Hoult, Nicolas Cage, Awkwafina og Ben Schwartz. Bandaríkin, 2023. 93 mín.

Kvikmyndir

Jóna Gréta

Hilmarsdóttir

Nicolas Cage í kunnuglegu hlutverki sem Drakúla greifi, í nýju kvikmyndinni Renfield eftir leikstjórann Chris McKay, er einmitt það sem kvikmyndageirinn þurfti á að halda. Cage býður upp á stórkostlegan B-myndaleik í anda Bela Lugosi. Hann er einfaldlega dásamlegur í þessari annars misheppnuðu vampírumynd þrátt fyrir takmarkaðan skjátíma. Það eru mistök hjá McKay og teyminu að hafa ekki gert Drakúla að aðalpersónunni. Renfield segir í staðinn frá skósveininum Reinfield (Nicholas Hoult) sem á í eitruðu samband við yfirmann sinn, Drakúla.

Hlutverk Renfields er að útvega húsbónda sínum, sem dvelur á yfirgefnum spítala, fæðu svo að hann nái fullum krafti. Eftir að hafa setið fundi með stuðningshópi ákveður hann að hætta í starfinu sem hann hefur gegnt um aldaraðir og byrja nýtt líf í nútímanum í New Orleans í Bandaríkjunum. Þar kynnist hann þrautseigri lögreglukonu sem hjálpar honum að safna kjarki til að standa í lappirnar gagnvart ofbeldismanni sínum, Drakúla, og færir honum von um betra líf.

Upphafsatriði myndarinnar hefst á nærmynd af nafnmerki sem segir, „Halló, ég heiti Renfield“, þar sem hann situr í hring á sjálfshjálparfundi. Húmorinn, sérstaklega í upphafsatriðinu, er mjög svipaður og í myndinni What We Do in the Shadows (2014) eftir Jemaine Clement og Taika Waititi. McKay blandar saman aulabröndurum og rosalega grafísku ofbeldi sem er nánast eins og úr teiknimynd; afskornir útlimir, höfuð sprengd í loft upp og blóðið fossar. Öfgafullu bardagaatriðin verða mjög „kamp“ (e. camp – stíll sem er viljandi ósmekklegur), sem er viðeigandi fyrir kvikmyndagreinina. Eins og t.d. þegar Renfield rífur báða handleggina af einni persónunni og notar þá sem vopn og síðan spjót.

Búningahönnunin og förðunin er mjög áhrifamikil. Áhorfendur kynnast Drakúla á mismunandi stigum líkamlega. Snemma í myndinni kemst hann í snertingu við sólarljós sem breytir honum í brennandi lík, en með hjálp Renfields nær hann kröftum á ný. Búningar og leikmynd eru líka notuð á skemmtilegan máta í atriðinu þegar Renfield reynir að aðlagast nútímanum með því að kaupa sér íbúð og ný föt í öllum regnbogans litum, langt frá gotneskri fagurfræðinni sem hefur skilgreint hann síðustu öld.

Kvikmyndin Reinfield er hins vegar ekki eins fyndin og What We Do in the Shadows því í stað þess að fara alla leið í ósmekklegheitunum, reynir handritshöfundurinn, Ryan Ridley, að flétta inn óþarfa aukaköflum. Þessi mikla atburðarás passar ekki inn í 93 mínútna mynd. Handritsskrifin nýta ekki nægilega styrkleika leikarahópsins. Í raun mætti segja að allir hafi mætt til vinnu og gert sitt besta nema handritshöfundurinn Ridley. Ofbeldissamband Renfields og Drakúla er nógu áhugavert viðfangsefni eitt og sér. Það eitt að Drakúla sé hluti af nútímasamfélagi, nægir í sjálfu sér. Hins vegar ákveður Ridley að bæta við annarri aðalpersónu, Rebeccu (Awkwafina), einstæðri lögreglukonu sem Renfield verður ástfanginn af. Rebecca leitar svara og hefnda vegna dauða föður síns, goðsagnakennds lögregluþjóns. Kate (Camille Chen), systir Rebeccu, önnur óþarfa aukapersóna, vinnur fyrir FBI og er þreytt á þessari sífelldu baráttu systur sinnar við Lobo-glæpafjölskylduna, sem Rebeccu grunar að hafi drepið föður þeirra. Fljótlega kemur fljótt í ljós að lögreglan og kerfið, sem systurnar vinna fyrir, er spillt og þjónar stjórn Lobo-glæpafjölskyldunnar. Systurnar, spillta lögreglan og Lobo-glæpafjölskyldan er algjör óþarfi fyrir söguna. Satt að segja langaði rýni bara í fleiri glott frá Cage með gulu vígtennur sínar.

Það er auðvelt að ímynda sér miklu betri útgáfu af myndinni ef Ridley og McKay hefðu lagt áherslu á persónusköpunina, en ekki flækt atburðarásina sem er mötuð ofan í áhorfendur. Þrátt fyrir fyrrnefnda galla er Renfield skemmtileg mynd sem er þess virði að sjá í bíói, jafnvel þó það sé bara til þess að sjá Cage leika Drakúla.