Baldur Hafstað sendi mér góðan póst: „Kristján Eiríksson frá Fagranesi á Reykjaströnd í Skagafirði kenndi mér eftirfarandi vísu eftir gamanvísnaskáldið Ísleif Gíslason (1873–1960) kaupmann á Sauðárkróki. Tilefni vísunnar var það að Ísleifur var ásamt félögum sínum á leið frá Reykjavík norður í land og lenti í vonskuveðri á Holtavörðuheiði. Þessi vísa virðist ekki hafa birst á prenti áður.
Nú er að gera norðanspýju,
nú er dimmt um land og haf.
3 x 3 eru 9,
það fer að halla norður af.
Þetta er greinilega tilbrigði við hina landsfrægu vísu sama skálds:
Detta úr lofti dropar stórir,
dignar um í sveitinni.
2 x 2 eru fjórir,
taktu í horn á geitinni.
Bók með kveðskap Ísleifs frá árinu 1982 ber einmitt titilinn Detta úr lofti dropar stórir. Þeir Hannes Pétursson skáld og Kristmundur Bjarnason á Sjávarborg völdu efnið og bjuggu til prentunar.“
Helgi R. Einarsson orti eftir að hafa hlustað á „Silfrið“:
Kænska
Það er mjög ljótt að ljúga,
því lyginni sumir trúa,
svo segja ber satt
(svolítið hratt)
og síðan út úr því snúa.
Sælan
Sælan vill að „soldið“
sé helst endurgoldið
og gerist það
á góðum stað
hugur gleðst og holdið.
Davíð Hjálmar Haraldsson yrkir:
Ef ég nota gervigreind
get ég hannað klæði,
skilið núll og nanó-eind,
nýlífsöld og set og steind
en aldrei get ég ort af viti kvæði.
Þessi limra gaf tilefni til athugasemda sem lauk með þessari ferhendu Gunnars J. Straumlands:
Fjallið skóp og fjörð og lyng,
fögur þjó og herðablað,
en þegar hann bjó til Þingeying
þótti verkið fullkomnað.
Nú horfir allt öðruvísi við og lóan bara sultuslök“:
Lóan er komin í ljómandi skapi
því lítill er snjórinn sem kveða þarf burt.
Henni er sama þótt sofi og tapi,
um syndirnar mínar hún hefur ei spurt.
Þórunn Hafstein svarar: „Man eftir því og varð þá að orði, – Öfugmælavísa“:
Lóan er farin og fretar á snjóinn,
frussar á leiðindin, það gerir hún.
Hún telur það víst að fari senn spóinn,
sólskinið bjarta og þröstur í tún.
Og „Lóan í fýlu vegna kulda“:
Er birtist lóan, brjóstum hlýnar,
boðar sumarveður.
En – tekur ‘ún saman föggur fínar,
fýld á svip – og kveður?
Guðrún Bjarnadóttir bætti við:
Lóan er komin og kvað sagði spóinn,
kannski ég dröslist þá norður á sker.
Henni tekst einni að hafa burt snjóinn,
en hörmung og leti þarf margfuglager.
Helgi Jensson segir: „Nú þegar vetur er á undanhaldi“:
Ljúfur er og laus við stress,
líðan sjaldan betri.
Keikur mjög er karl og hress
kominn undan vetri
Halldór Blöndal