Bókmenntahátíð í Reykjavík var sett við hátíðlega athöfn í Iðnó í gær. Næstu daga verður boðið upp á fjölda viðburða á hátíðinni. Meðal þess sem er í boði í dag í Norræna húsinu er viðtal Birtu Björnsdóttur við Dinu Nayeri sem fram fer kl. 11; viðtal Jóns Ólafssonar við Leu Ypi kl. 12 og viðtal Halldórs Guðmundssonar við Åsne Seierstad um verk hennar kl. 13. Klukkan 14 ræða Vigdis Hjort, Kim Leine og Kirsten Hammann um verk sín, en Jón Yngvi Jóhannsson stýrir umræðum.
Ljóðakvöld og samtöl
Um kvöldið er í Iðnó kl. 20 hægt að hlusta á samtal milli Gonçalo Tavares, Boualem Sansal og Kim Leine, en Helga Soffía Einarsdóttir stýrir umræðum. Klukkan 21 ræða Júlía Margrét Einarsdóttir, Alejandro Palomas og Vigdis Hjorth saman undir stjórn Maríu Elísabetar Bragadóttur. Dagskrá dagsins lýkur með ljóðakvöldi sem hefst kl. 22 þar sem fram koma Ewa Marcinek, Kristín Svava, Natasha S, Alejandro Palomas og Kristín Eiríksdóttir.
Staða mála í Afganistan
Dagskráin á morgun, föstudag, hefst með viðtali Auðar Jónsdóttur við Pedro Gunnlaug Garcia í Norræna húsinu kl. 11. Á sama tíma fer fram málstofa um þýðingar úr íslensku á katalónsku í Árnagarði. Klukkan 12 ræðir Helga Soffía Einarsdóttir við Alexander McCall Smith um höfundarverk hans í Norræna húsinu. Á sama stað kl. 14 ræða Åsne Seierstad og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir um stöðu mála í Afganistan. Þegar spjallinu lýkur, kl. 15, flytur Boualem Sansal fyrirlestur um stöðu mála í Alsír. Um kvöldið má í Iðnó kl. 19 hlýða á samtal Evu Bjargar Ægisdóttur, Alexanders McCalls Smiths og Hönnuh Kent um glæpasögur, en Maríanna Clara Lúthersdóttir stýrir umræðum. Klukkan 21 á sama stað ræða Jenny Colgan, Benný Sif og Pedro Gunnlaugur Garcia hver sé galdurinn á bak við leiftrandi frásagnargleði þeirra, en Björn Halldórsson stýrir umræðum.
Ráðstefna um útgáfumál
Laugardaginn 22. apríl er í Norræna húsinu haldin alþjóðleg ráðstefna um útgáfumál og réttindasölu og hvaða tækifæri eru fram undan á þeim vettvangi. Til máls taka Edward Nawotka, ritstjóri tímaritsins Publishers' Weekly, Cristina Gerosa, útgáfustjóri hjá ítölsku útgáfunni Iperborea, og Sherif Bakr, útgáfustjóri hjá Al Arabi-útgáfunni í Egyptalandi. Í pallborði verða Madlen Reimer frá S. Fischer í Þýskalandi, Martin Grae Jørgensen frá Turbine í Danmörku, Emma Raddatz frá Archipelago Books í Bandaríkjunum og Halldór Guðmundsson stjórnarformaður Forlagsins. Stjórnandi umræðna er Porter Anderson, ritstjóri tímaritsins Publishing Perspectives. Húsið verður opnað kl. 9 og ráðstefnan hefst kl. 9.30. Á sama stað kl. 12 ræðir Pulitzer-verðlaunahafinn Colson Whitehead skrif sín við Einar Fal Ingólfsson. Klukkutíma síðar ræða Jan Grue og Ewa Marcinek um inngildingu undir stjórn Yorks Underwoods. Klukkan 15 tekur Sólveig Jónsdóttir viðtal við Jenny Colgan í Norræna húsinu. Um kvöldið er haldið bókaball hátíðarinnar í Iðnó og hefst það kl. 21.
Orðstír veittur í fimmta sinn
Orðstír, heiðursviðurkenning þýðenda íslenskra bókmennta á erlendar tungur, verður veittur í fimmta skiptið á morgun, föstudag. Á lokadegi Bókmenntahátíðar í Reykjavík, sunnudag, er boðið upp á samtal við verðlaunahafana sem hefst í Veröld – húsi Vigdísar kl. 12. Stjórnandi umræðunnar er Salka Guðmundsdóttir.
Hér hefur verið stiklað á stóru í dagskrá Bókmenntahátíðar í Reykjavík þetta árið, en heildardagskrána má nálgast á vefnum bókmenntahatid.is. Aðgangur er ókeypis inn á alla viðburði og þeir öllum opnir.