Sveinn Óskar Sigurðsson
Eftir að Sviss felldi EES-samninginn og undir ferli þess máls er síðar varð að lögum nr. 2/1993 um Evrópska efnahagssvæðið hér á landi lögðu þrír þingmenn á Alþingi fram frávísunartillögu, þingskjal 586, á 116. löggjafarþingi hinn 9. janúar 1993. Það voru þau Jón Helgason, alþingismaður Suðurlands og fv. landbúnaðar-, dóms- og kirkjumálaráðherra, fyrir Framsóknarflokkinn, Ragnar Arnalds, alþingismaður Norðurlands vestra, fyrir Alþýðubandalagið og síðar Samfylkinguna og Kristín Einarsdóttir alþingismaður Reykvíkinga fyrir Samtök um kvennalista. Í tillögunni segir: „Eftir að samningurinn, sem gerður hefur verið um Evrópska efnahagssvæðið, var felldur í þjóðaratkvæðagreiðslu í Sviss er ljóst að endanlegur texti að slíkum samningi liggur ekki fyrir. Þegar af þeirri ástæðu telur Alþingi ekki rétt að afgreiða þetta frumvarp og samþykkir að vísa því til ríkisstjórnarinnar.“
Sviss gerði tvíhliða samning við ESB. Sviss hefur nú um árabil (um eða yfir átta ár) leitast við að endurnýja tvíhliða samning sinn en það strandar á því að ESB krefst þess að komi til ágreinings í dómsmáli varðandi efni slíks samnings skuli dómar Evrópudómstólsins vera dómum svissneskra dómstóla rétthærri.
Undir framangreinda frávísunartillögu tók Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, sem einnig sat í utanríkismálanefnd ásamt Birni Bjarnasyni þegar EES-samningurinn var í meðförum þingsins. Í greinargerð Ingibjargar, sem hún lagði fram innan utanríkismálanefndar, segir hún m.a.: „Lögfræðingarnir í nefnd utanríkisráðherra voru þeir Þór Vilhjálmsson hæstaréttardómari, Gunnar G. Schram lagaprófessor, Stefán Már Stefánsson lagaprófessor og Ólafur W. Stefánsson, skrifstofustjóri í dómsmálaráðuneytinu.“ Þar staðfestir Ingibjörg jafnframt að a.m.k. tveir þeirra voru íslenskum stjórnvöldum til ráðuneytis meðan á samningagerðinni stóð og við frágang staðfestingarfrumvarpsins sem síðar varð að lögum nr. 2/1993 um hið Evrópska efnahagssvæði. Hvers vegna getur fv. utanríkisráðherra Íslands og fv. formaður Samfylkingarinnar þessa sem að framan greinir?
Svo segir í áliti Ingibjargar: „Í öðru lagi gekkst þáverandi formaður utanríkismálanefndar, Eyjólfur Konráð Jónsson [þá þingmaður Reykvíkinga fyrir Sjálfstæðisflokkinn], fyrir því að fá Guðmund Alfreðsson, doktor í þjóðarrétti, á fund nefndarinnar í sumar sem leið og í kjölfar þess skilaði hann utanríkismálanefnd skriflegri álitsgerð 16. ágúst sl.“ Hvers vegna minntist meiri hluti nefndar utanríkismálanefndar Alþingis ekkert á þennan fræðimann í áliti sínu? Hvers vegna var ekki minnst á ábendingar hans sem og Björns Guðmundssonar prófessors í stjórnlagarétti í áliti því sem lagt var fram áður en lög nr. 2/1993 um Evrópska efnahagssvæðið voru samþykkt frá Alþingi? Það er virðingarvert af sjálfstæðismanninum Eyjólfi Konráð Jónssyni [Eykon] að kalla eftir áliti valinkunnra manna sem Björn Bjarnason virti að vettugi og virðist gera enn.
Ingibjörg segir einnig: „Guðmundur Alfreðsson lýsti því aftur á móti strax í júní [1992] sem sinni skoðun að samningurinn stæðist ekki gagnvart stjórnarskránni.“ Svo getur hún þess að slíkt hafi ekki vafist fyrir þingmönnum annars staðar á Norðurlöndunum sem höfðu breytt sínum stjórnarskrám í samræmi við áformað framsal.
Nú bregður svo við að einn þeirra nefndarmanna, sem skipuðu nefnd utanríkisráðherra þegar EES-samningurinn var í meðförum Alþingis og Björn Bjarnason vísar til í svargrein sinni í Morgunblaðinu 18. apríl sl., virðist telja innleiðingu bókunar 35 í landslög ganga of langt.
Í skýrslu Björns Bjarnasonar, Bergþóru Halldórsdóttur og Kristrúnar Heimisdóttur segir: „Binda verður enda á stjórnlagaþrætur vegna EES-aðildarinnar, annaðhvort með því að viðurkenna að hún hafi unnið sér stjórnlagasess eins og aðrar óskráðar stjórnlagareglur eða með því að skrá ákvæði um aðildina í stjórnarskrána.“ Á þetta bendir Björn í grein sinni 18. apríl sl. sem hér er nú svarað með fullri vinsemd. Vill Björn fremur setja framsalið í almenn landslög en í stjórnarskrána?
Staðfestir Björn því í raun sjálfur í grein sinni 18. apríl sl., í hrópandi þversögn við sjálfan sig, að ég hafi í raun og sann farið rétt með í grein minni 17. apríl sl. Í framangreindri tilvitnun má lesa skýra afstöðu skýrsluaðila í málinu. Þeir vilja greinilega framselja vald til ESB með lögum og „binda“ þannig enda á „stjórnlagaþrætur vegna EES-aðildarinnar.". Mun það takast? Viljum við að það takist? Skýrsla framangreindra höfunda er augljós undanfari þess frumvarps sem nú liggur fyrir Alþingi þar sem bókun 35 er gerð að íslenskum lagabókstaf til að tryggja að lög og reglur ESB hafi hingað greiðari aðgang en áður, sé yfir íslenskan lagabókstaf hafin og Íslendingar þannig þvingaðir undir það sem Svisslendingar hafa hafnað. Með grein sinni 15. apríl sl. tekur Björn af allan vafa hvað þetta varðar.
Björn virðist með þessu útspili fremur eiga heima í Viðreisn eða í Samfylkingunni en í Sjálfstæðisflokknum. Afstaða hans varðandi frekara framsal til ESB fellur a.m.k. illa að stefnuskrá Miðflokksins.
Höfundur er BA í hagfræði og heimspeki, MBA og M.Sc. í fjármálum fyrirtækja.