Kristín Heiða Kristinsdóttir
khk@mbl.is
Amma mín og sú sem ég heiti eftir, Guðríður í Mundakoti á Eyrarbakka, er konan sem kynnti mér fyrst töfra jurtanna. Ég var mikið hjá henni þegar ég var krakki og hún átti stóran garð og ræktaði gulrætur og kartöflur. Við frændsystkinin vorum ekki há í loftinu þegar við hjálpuðum ömmu við að sinna ýmsum garðyrkjuverkefnum, til dæmis að vökva leiðin í kirkjugarðinum á Eyrarbakka, setja niður sumarblómin og fleira. Hjá ömmu lærði ég líka nöfn margra fjölæringa, en þeir hafa alla tíð heillað mig,“ segir Guðríður Helgadóttir, eða Gurrý í garðinum eins og margir þekkja hana, en hún sendi nýlega frá sér bókina Fjölærar plöntur. Þar fjallar hún í máli og myndum um 180 tegundir fjölæringa sem henta í íslenskum aðstæðum.
„Íslenska fjólan sem prýðir forsíðu bókarinnar er í miklu uppáhaldi hjá mér, enda fyrsta plantan sem ég sótti út í villta náttúru til að gróðursetja við heimahús. Ég var bara lítil stelpa þegar amma sendi mig og frænku mína með skóflu upp fyrir þorpið til að finna íslenska fjólu til að prýða hennar garð. Þegar ég var 16 ára unglingur fór ég að vinna í gróðrarstöðinni Grænuhlíð við Bústaðaveg, hjá Gunnari Vernharðssyni, tengdaföður frænku minnar. Eftir á að hyggja held ég að þá strax hafi ég orðið föst í garðyrkjunetinu, dveljandi dagana langa þarna í blómstrandi græna umhverfinu. Ég ætlaði nefnilega aldrei að fara í Garðyrkjuskólann,“ segir Gurrý og hlær.
„Ég fór í háskólann og prófaði ýmislegt, en ég var alltaf viðloðandi Grænuhlíð. Árið 1992 fór ég í örlagaríka ferð með Vernharði Gunnarssyni sem þá hafði tekið við Grænuhlíð af föður sínum, við fórum með plöntur austur í Laugarás í Biskupstungum, þar sem hann og fjölskylda hans voru með ræktunarstöð. Á leiðinni þangað beygði hann inn í Hveragerði og tilkynnti mér að hann væri búinn að panta viðtal fyrir mig í Garðyrkjuskólanum. Ég varð alveg brjáluð og sagðist ekkert ætla í þann skóla, en fór nú samt í viðtalið og allar götur síðan hefur garðyrkja verið mitt starf, líf og yndi. Um leið og ég gekk inn í skólann fann ég sterka tilfinningu og vissi að ég vildi þetta. Mér finnst ég lánsöm að hafa lent á hillunni minni,“ segir Gurrý sem fór í verknám til Englands eftir að hún lauk námi við Garðyrkjuskólann. Eftir að heim var komið hóf hún kennslu þar og seinna lauk hún BS-gráðu í líffræði við Háskóla Íslands.
Dularfull með lögregluna á hælunum
Gurrý hefur tekið myndir af plöntum í meira en tuttugu ár og fyrir vikið er hún höfundur allra mynda sem prýða nýju bókina.
„Stundum hef ég gerst fulláköf við blómamyndatökur, til dæmis þegar ég eitt sinn sá sérdeilis fagra plöntu í garði og laumaðist til að taka mynd. Venjulega banka ég upp á og bið um leyfi til að koma inn í garð hjá fólki og smella mynd af jurt, en enginn var heima í húsi þessa garðs, svo ég tók mynd utan við garð en skaust svo inn fyrir til að taka nærmynd. Skömmu síðar renndi lögreglubíll upp að mér og ég var spurð hvort ég væri manneskjan sem væri að taka myndir af húsum í hverfinu. Ég neitaði því en játaði strax að hafa tekið blómamynd inni í garði við eitt húsið. Ég var beðin að sýna myndirnar því til staðfestingar sem ég og gerði. Þegar laganna verðir sáu að áhugi minn væri einvörðungu tengdur blómum var mér leyft að fara mína leið,“ segir Gurrý og bætir við að lögreglan hafi upplýst hana um að innbrotafaraldur hefði verið í hverfinu.
„Nágrannavarslan var því í góðu lagi, ég var tilkynnt til lögreglu, dularfulli blómaglæpamaðurinn,“ segir Gurrý og hlær.
Litir upp úr mold lyfta anda eftir dimman vetur
Þegar Gurrý er spurð hvað sé svona frábært við fjölæringa, að þeir verðskuldi að hún skrifi um þá 500 blaðsíðna bók, svarar hún að hin ótrúlega fjölbreytni þeirra sé það sem heilli sig.
„Hægt er að finna fjölæringa sem blómstra eldsnemma á vorin, til dæmis skógarbláma og sumar prímúlur, en þegar litir þeirra koma upp úr moldinni snemma í apríl þá gleðja þeir sannarlega og lyfta andanum eftir dimman vetur. Allt sumarið eru svo einhverjir fjölæringar í blóma og langt fram á haust, sumir þeirra blómstra meira að segja í október. Á hverju ári eru milli þúsund og fimmtán hundruð yrki af fjölærum plöntum í boði á gróðrarstöðum hér á Íslandi og við garðyrkjunördarnir förum á milli stöðva til að sjá hvað okkur finnst spennandi af því sem er í boði, því það er alltaf eitthvað nýtt,“ segir Gurrý og bætir við að hún hafi ákveðið að fjalla einvörðungu um tegundir fjölæringa en ekki yrki í nýju bókinni.
„Flestar plönturnar í bókinni eru algengar, en þó eru einstaka sjaldgæf dýrindi, til dæmis frönsk ilmfjóla, sem ég held mikið upp á. Í kringum hana er falleg saga, Gunnar Ásmundsson bakari sem bjó í Hafnarfirði og var yndisleg manneskja, hann var mikill garðyrkjuáhugamaður og kom með svona plöntu í Grænuhlíð á níunda áratugnum og færði starfsfólkinu þar. Allar götur síðan hefur henni verið haldið við með græðlingum, því hún myndar ekki fræ svo það er ekki að hægt að sá fyrir henni. Gunnar hafði fengið sína fjólu mörgum árum áður í Hellisgerði í Hafnarfirði, en hún er sjaldgæf planta, svolítið viðkvæm en ilmurinn af blómum hennar er engu líkur. Sögur sem þessar eru hluti af garðyrkjumenningu okkar og það skiptir máli að halda þeim lifandi. Önnur uppáhalds fjölær jurt hjá mér er klettadiskur, sem er líka sjaldgæf en ég fékk fræ af henni og ræktaði nokkrar þannig í Grænuhlíð. Ein slík planta er í Grasagarðinum í Laugardalnum, hún blómstrar fallega og er líka blaðfalleg.“
Fólk ætti að forðast að falla í freistni
Gurrý segist á hverju ári uppgötva nýja og skemmtilega fjölæringa.
„Ég hef fengið að skrifa niður óskalista af fjölæringafræjum fyrir Vernharð til að rækta, en hann fer svo með niðurskurðarhníf á þann lista, því hann verður alltaf svo langur hjá mér. Ég missi mig í svona plöntulistum, enda eru tegundir óteljandi og enn fleiri yrki. Til dæmis eru til mörg yrki af dvergadrottningu með ólíkum lit blóma, en hún er sérlega blómviljug og falleg planta,“ segir Gurrý og tekur fram að fjölærar plöntur bæti alltaf við sig, vaxi út frá miðju og stækki og stækki.
„Sumar geta verið áraraðir á sama stað á meðan aðrar breiða mjög úr sér. Til að stýra því hversu mikið pláss slíkar pöntur taka í garðinum, þá er gott að stinga þær upp, skipta í nokkra parta og setja aðeins einn hluta niður í holuna þar sem þær voru áður. Hægt að fara með rest í sumarbústaðinn eða gefa vinum.“
Gurrý mælir með fyrir fólk sem ætlar að næla sér í fjölæring, að forðast að falla í þá freistni að kaupa eingöngu það sem er í blóma þegar inn í garðyrkjustöð er komið.
„Ég skil það samt vel, því það er svo gaman að taka slík blóm með sér heim. Best er að heimsækja gróðrarstöðvar oft yfir sumarið og bæta við. Annað ráð er að setjast niður með garðyrkjufræðingi sem þekkir fjölæringategundir og fá ráðleggingar, ef fólk er til dæmis með breitt beð og vill að þar sé alltaf eitthvað í blóma. Þá velur ráðgjafinn plöntur sem taka hver við af annarri í blómanum. Auðvitað getur fólk líka lagst í bækur eða á netið, alls konar leiðir eru til að afla sér upplýsinga,“ segir Gurrý sem stendur stundum vaktina á sumrin hjá Vernharði í gróðrarstöðinni Storð í Laugarási, en þar getur fólk keypt sumarblóm, fjölæringa og tré.
Gurrý hvetur alla til að kíkja í Garðyrkjuskólann á Reykjum við Hveragerði í dag, sumardaginn fyrsta, því samkvæmt venju verður þar opið hús kl. 10 til 17.
„Boðið verður upp á fjölbreytta dagskrá sem skipulögð er af nemendum, auk kaffisölu og markaðstorgs með grænmeti. Margvísleg afþreying verður í boði fyrir börnin, svo sem andlitsmálun, hægt að fara á hestbak, ratleikur og fleira. Gróðurhúsin verða opin og kl. 13.30 hefst hátíðardagskrá þar sem mennta- og barnamálaráðherra afhendir Garðyrkjuverðlaunin 2023 og umhverfisverðlaun Hveragerðisbæjar verða einnig afhent.“