Guðmundur Ármann Pétursson
Ríkið veitir sveitarfélögum verulega fjármuni með beinum og óbeinum hætti til þess að veita fötluðu fólki lögbundna þjónustu og stuðning í daglegu lífi.
Fatlað fólk hefur í raun mjög lítið um það að segja hvaða lögbundnu þjónustu það fær sem og hvort það fær yfirhöfuð þá þjónustu sem það á rétt á lögum samkvæmt.
Þjónustumat/SIS mat er gert á fötluðum einstaklingi og nýtt sem einn megingrundvöllur þess fjármagns sem sveitarfélagi er ákvarðað og því greitt frá ríkinu til að standa undir kostnaði við að veita þessum einstaklingi lögbundna þjónustu.
Sveitarfélög ráðstafa því fé sem þau fá til að veita lögbundna þjónustu til fatlaðra einstaklinga á sínum forsendum, með sinni forgangsröðun og mögulega til annarra og/eða tengdra verkefna.
Fatlað fólk er sett í þá stöðu að þurfa að sækja lögbundinn rétt sinn til grundvallarþarfa til síns sveitarfélags með miklu flækjustigi, biðlistum og ekki biðlistum og oft með höfnun á þjónustu.
Í einhverjum tilvikum er ríkið búið að greiða sveitarfélagi jafnvel árum saman fyrir að veita einstaklingi ákveðna þjónustu sem honum er svo neitað um af sveitarfélaginu og áfram greiðir ríkið til sveitarfélagsins fyrir þá þjónustu sem viðkomandi fær ekki.
Fatlaður einstaklingur á við ofurefli að etja enda ber sveitarfélagið ábyrgð á þjónustunni til einstaklingsins, framkvæmir/veitir sjálft þjónustuna og hefur eftirlit með henni. Auk þess tekur sveitarfélagið sjálft ákvörðun um hvort einstaklingurinn fær lögbundna þjónustu og hversu mikla eða takmarkaða þjónustu viðkomandi fatlaður einstaklingur fær.
Sveitarstjórnarfólk og ýmsir aðrir voga sér að hrópa í fyrirsögnum nú enn á ný þegar skuldavandi sveitarfélaga er til umfjöllunar og fullyrða að vanfjármögnun á þjónustu við fatlað fólk sé um að kenna. Sveitarfélög voru fullfær um að koma sér sjálf í þann vanda sem við er að eiga og þar er ekki um að kenna lögbundinni þjónustu við fatlað fólk eða fjármögnun hennar.
Pólitískir fulltrúar ríkis og sveitarfélaga bera ábyrgð á því ástandi sem varað hefur síðustu ár þar sem fatlaðir fá ekki lögbundna þjónustu og á því óþolandi og niðurlægjandi karpi sem er um fjármögnun lögbundinnar þjónustu við þá.
Þeir sem gjalda fyrir þetta óþolandi og óverðskuldaða ástand eru ekki sveitarfélögin, þótt þau hafi hátt. Það er fatlað fólk sem geldur fyrir þessa stöðu.
Út úr þessu ástandi þarf að komast og þeir sem hafa verið að takast á við það verkefni síðustu ár ráða greinilega ekki við það. Það er tímabært að skoða nýjar leiðir.
Fatlað fólk þarf í raun og sann að fá vald yfir sínu lífi og það er sveitarfélaga og þjónustuveitenda að vera þjónandi.
Ríkið á að hætta að veita fjármagn og greiða beint til sveitarfélaga fyrir þjónustu við fatlað fólk.
Fatlað fólk á sjálft að fá mátt þess sem ráðstafar fjármagni.
Með því að gera fjármagnið, þ.e. fjárheimildina, heimild hvers fatlaðs einstaklings verður valdeflandi umbreyting.
Ákvörðunarvaldið verður þá þess sem þarf á þjónustunni að halda. Þannig fær fatlaður einstaklingur aukið og sjálfsagt vald yfir sínu eigin lífi.
Ríkið fer við þessa breytingu í þá stöðu að greiða aðeins fyrir veitta þjónustu. Þjónustu sem fatlaður einstaklingur hefur tekið ákvörðun um á sínum forsendum.
Fjármagnið er hjá ríkinu sem greiðir beint til þjónustuveitanda, þ.e. sveitarfélags eða annars aðila sem veitir þjónustuna.
Sleppum dýrum milliliðum, bætum nýtingu fjármagns og valdeflum fatlað fólk.
Höfundur er rekstrarfræðingur.