Hljómsveitakeppnin Wacken Metal Battle verður haldin á Gauknum í Reykjavík laugardaginn 22. apríl kl. 19. „Í ár keppa sex sveitir í úrslitum og mun fjölskipuð alþjóðleg dómnefnd ásamt áhorfendum velja eina af þeim til þess að spila fyrir Íslands hönd á stærstu þungarokkshátíð heims, Wacken Open Air, í sumar. Þar spilar hún fyrir mörg þúsund manns og tekur þar með þátt í lokakeppni Wacken Metal Battle ásamt 29 öðrum þjóðum þar sem ansi rausnarleg verðlaun bíða efstu fimm sveitanna,“ segir í tilkynningu frá skipuleggjendum.
Þar kemur fram að sérstakir gestir kvöldsins verða hljómsveitirnar Une Misère og Múr. „Une Misère er nýlega risin úr nokkuð löngum dvala með nýjan söngvara í broddi fylkingar. Sveitin gaf út hina mögnuðu plötu Sermon 2019, eftir að hafa unnið WMB-keppnina á Íslandi 2017 og lent í 4. sæti á Wacken í lokakeppninni. Hin níðþunga tónlist sameinar hráleika harðkjarnans og þyngd dauðarokksins í blöndu sem getur vel talist þyngsta sveit landsins.
Múr sigraði í WMB-keppninni í fyrra og spiluðu því á Wacken þar sem þeir lönduðu einnig 4. sætinu. Yfirburðir Múr í keppninni heima voru í raun fáheyrðir þar sem þeir voru einu stigi frá hámarksskori frá bæði áhorfendum og dómurum keppninnar enda sveitin alveg mögnuð.“
Þátttökusveitirnar í sjálfri WMB-keppninni í ár eru (í stafrófsröð): Alchemia; Epidermal Veil; False Majesty; Krownest; Merkúr og Óværa. Allar nánari upplýsingar eru á facebook.com/MetalBattleIceland.Official og instagram.com/MetalBattleIceland.Official. Miðar fást á tix.is, en atkvæðaseðlar verða afhentir við innganginn.