Ólafur Pálsson
oap@mbl.is
Ekki verður hægt að losa flutningaskipið Wilson Skaw af strandstað á Húnaflóa fyrr en það hefur verið affermt en skipið situr á 50 metra kafla á botninum. Það eru tæplega tvö þúsund tonn af salti um borð og 195 tonn af olíu. „Við metum stöðuna þannig að ekki sé hægt að hreyfa skipið fyrr en þessi farmur er farinn frá borði,“ segir Ásgeir Erlendsson, upplýsingafulltrúi Landhelgisgæslunnar. Hann segir það lán í óláni að veðuraðstæður séu eins góðar og raun ber vitni. Vonast er til að ábyrgðaraðili skipsins nýti sér þá daga sem nú gefast til að finna leiðir til að afferma en Landhelgisgæslan verður enn til staðar til að grípa inn í ef nauðsyn ber til. Ekki hefur greinst olíuleki úr skipinu en í varúðarskyni hefur mengunarvarnargirðingu verið komið fyrir í kringum það. Garðar Jóhannsson hjá Nesskipum, þjónustuaðila skipsins hér á landi, segir fulltrúa björgunarfyrirtækisins SMIT Salvage hafa komið til landsins í gær og skipuleggi nú aðgerðir. Garðar segir aðgerðaráætlun SMIT innihalda útreikninga og mat á því hvort og hvernig best verði staðið að affermingu skipsins og þá hvernig það verður losað af strandstað. Áætlunin verður lögð fyrir viðbragðsaðila og eftirlitsstofnanir þegar hún liggur fyrir en búast má við því að svo verði strax í dag.