Þeir sem hafa saknað magalyfsins Rennie hérlendis á þessu ári geta tekið gleði sína á ný því lyfið ætti nú að vera fáanlegt á ný eftir að hafa verið ófáanlegt um hríð. Morgunblaðið fékk ábendingu frá lesendum um að lyfið hefði ekki fengist í nokkra mánuði og reyndist skýringin vera hráefnisskortur

Þeir sem hafa saknað magalyfsins Rennie hérlendis á þessu ári geta tekið gleði sína á ný því lyfið ætti nú að vera fáanlegt á ný eftir að hafa verið ófáanlegt um hríð.

Morgunblaðið fékk ábendingu frá lesendum um að lyfið hefði ekki fengist í nokkra mánuði og reyndist skýringin vera hráefnisskortur.

Lilja Dögg Stefánsdóttir, framkvæmdastjóri lyfjasviðs hjá Icepharma sem flytur lyfið inn, tjáði blaðinu að Rennie hefði verið ófáanlegt frá birgja vegna hráefnisskorts og næði skorturinn því einnig til annarra Evrópulanda. Ekki hefði verið unnt að brúa skortinn á markaði með lyfjum frá öðrum framleiðendum eða mörkuðum þar sem um algjöran hráefnisskort var að ræða.

5.000 pakkar í sölu

Rennie er gjarnan notað við bakflæði og brjóstsviða og eftirspurnin virðist vera töluverð en sending sem barst í janúar mun hafa selst hratt. Þá komu 2.000 pakkar með 24 stykkjum í pakkningu.

Að sögn Lilju fóru í sölu 5.000 pakkar í vikunni með 48 stykkjum í og í næsta mánuði er von á 98 stykkja pakkningum, gangi framleiðsla eftir. kris@mbl.is