Styrja Hvítstyrja er forsögulegur fiskur og með elstu fisktegundum heims.
Styrja Hvítstyrja er forsögulegur fiskur og með elstu fisktegundum heims. — Ljósmynd/Eugene Sergeev
Helgi Bjarnason helgi@mbl.is Hægt verður að bragða á íslenskum ekta kavíar úr styrjuhrognum eftir um það bil tvo mánuði. Þá kemur fyrsti kavíarinn frá Hinu Norðlenzka Styrjufjelagi á Ólafsfirði á markað. Styrjukavíar er afar verðmæt afurð á neytenda- og veitingahúsamarkaði.

Helgi Bjarnason

helgi@mbl.is

Hægt verður að bragða á íslenskum ekta kavíar úr styrjuhrognum eftir um það bil tvo mánuði. Þá kemur fyrsti kavíarinn frá Hinu Norðlenzka Styrjufjelagi á Ólafsfirði á markað. Styrjukavíar er afar verðmæt afurð á neytenda- og veitingahúsamarkaði.

Hrogn og svil voru strokin úr styrjunum sem eru í eldi á Ólafsfirði undir lok síðasta mánaðar. Er þetta fyrsta uppskera úr íslensku styrjunum sem hafa verið í eldi hér á landi í mörg ár. Eyþór Eyjólfsson, stjórnarformaður styrjufélagsins, er ánægður með hvernig gekk að ná hrognunum úr styrjunum og með afrakstur vinnunnar. „Maður er dauðþreyttur eftir þessa vinnutörn en ánægður. Ef maður hefur ánægju af fiskeldi er þetta hluti af lífi manns,“ segir hann.

Hluti hrognanna var tekinn frá til að stækka stofninn. Seiðin hafa verið klakin úr hrognunum og er byrjað að fóðra þau. Hluti hrognanna er unninn í kavíar samkvæmt einkaleyfi frá þýsku fyrirtæki. Kavíarinn á að verða tilbúinn til smökkunar og sölu í byrjun júní.

Eftirsótt og verðmæt afurð

Eyþór segir að ekki verði vandamál að selja afurðirnar. Kavíar er eftirsótt og verðmæt afurð. Margir hafi haft samband, bæði innlend veitingahús og kaupendur í Bandaríkjunum og Bretlandi. Segir Eyþór að ekki aðeins sé verið að sækjast eftir afurðunum heldur hafi áhugasamir fjárfestar einnig óskað eftir að kaupa hlut í fyrirtækinu. Það sýni að verkefnið hafi spurst vel út og frést hafi að það gangi eftir áætlun. Tekur Eyþór fram að ekki standi til að taka inn fleiri fjárfesta. Hið Íslenzka Styrjufjelag er í eigu einstaklinga og félaga á Ólafsfirði og fjárfesta víðar að.

Uppbygging styrjueldis er fjárfrekt verkefni, ekki síst vegna þess tíma sem það tekur að byggja upp eldisstofn. Styrjurnar á Ólafsfirði voru fluttar til landsins frá Kaliforníu sem seiði fyrir níu árum og voru aldar fyrstu sjö árin í eldisstöð Stolt Sea Farm á Reykjanesi. Hið Íslenzka Styrjufjelag keypti lífmassann á árinu 2021 og flutti til Ólafsfjarðar.

Eldið er enn á tilraunastigi og verið er að gera allt í fyrsta skipti hér á landi. Segir Eyþór að starfsmenn fyrirtækisins hafi öðlast mikla þekkingu og skilning á lífsháttum fisksins og muni haga verklagi í framtíðinni eftir því. Til standi að fara yfir allar áætlanir til framtíðar.

Enn er unnið að því að byggja upp eldisaðstöðuna í gamla saltfiskhúsinu á Ólafsfirði. Eyþór segir að nú þegar sé búið að koma upp mjög góðu rými fyrir seiðaeldi og klak og áfram verði unnið við að ljúka framkvæmdum við húsið í heild.

Höf.: Helgi Bjarnason