Rússar eru sagðir hafa sett á fót umfangsmikla áætlun um skemmdarverk á orkuinnviðum og ljósleiðurum í Norðursjó komi til átaka milli Rússlands og vesturveldanna. Þá stundi þeir nú víðtækar njósnir um þessa innviði með aðstoð bæði herskipa og…

Stefán Gunnar Sveinsson

sgs@mbl.is

Rússar eru sagðir hafa sett á fót umfangsmikla áætlun um skemmdarverk á orkuinnviðum og ljósleiðurum í Norðursjó komi til átaka milli Rússlands og vesturveldanna. Þá stundi þeir nú víðtækar njósnir um þessa innviði með aðstoð bæði herskipa og ómerktra borgaralegra skipa, sem sögð eru sinna vísindarannsóknum.

Ásakanirnar voru settar fram í heimildaþáttaröðinni Skuggastríðið, sem norrænu ríkissjónvarpsstöðvarnar, NRK í Noregi, DR í Danmörku, SVT í Svíþjóð og YLE í Finnlandi, stóðu sameiginlega að, en fyrsti þátturinn var sýndur á norrænu stöðvunum fjórum í gærkvöldi.

Að sögn DR er njósnaverkefnið þekkt undir skammstöfuninni GUGI, sem sé háleynilegur hluti rússneska flotans sem sinni „djúpsjávarrannsóknum.“ Mun GUGI eiga sér höfuðstöðvar á Kólaskaga, þar sem norðurfloti Rússa er einnig með helstu bækistöðvar sínar.

Verðir á rannsóknarskipinu

Í heimildarmyndinni er meðal annars fjallað um „rannsóknarskipið“ Vladimirskí aðmírál, en það sigldi í nágrenni við vindmyllugarða undan ströndum Bretlands og Danmerkur í lok síðasta árs. Þegar teymi frá danska ríkissjónvarpinu reyndi að nálgast skipið mætti þeim grímuklæddur og vopnaður vörður með hríðskotariffil á þilfarinu.

Ferðalag skipsins náði einnig til vindmyllugarða í Eystrasalti en í heimildarmyndinni var vakin athygli á því að það hefði verið til sjós í um mánuð án þess að kveikja á staðsetningarbúnaði sínum. Notuðu sjónvarpsstöðvarnar því skeytasendingar skipsins til bækistöðva Rússa í landi til þess að kortleggja ferðir þess.

Þá eru Rússar einnig sakaðir um að hafa notað togara, flutningaskip og lystisnekkjur til þess að njósna um innviðina. Þannig er vitnað til þess að norska lögreglan hafi farið um borð í tvo rússneska togara og fundið þar gamlar talstöðvar frá tímum Sovétríkjanna, og stjórnandi þeirra var í læstri káetu.

SVT sagði að 27 grunsamleg skip hefðu siglt um sænska lögsögu eða leitað til hafnar í Svíþjóð á undanförnum fimm árum. Í Noregi hafa minnst 50 rússnesk skip haft „möguleikann á að afla sér gagna með leynd,“ á undanförnum áratug.

Ulf Kristersson, forsætisráðherra Svíþjóðar, sagði í gær að upplýsingarnar sem kæmu fram í rannsókninni væru mjög alvarlegar, og að þær sýndu hversu mikil öryggisógn væri nú í næsta nágrenni Svíþjóðar.

Rannsaki frekar Nord Stream

Dmitrí Peskov, talsmaður Pútíns Rússlandsforseta, neitaði ásökunum norrænu stöðvanna í gær. Sagði hann fjölmiðlana hafa gert mistök og að ásakanir þeirra væru úr lausu lofti gripnar.

Sagði Peskov að Rússar vildu að viðkomandi fjölmiðlar rannsökuðu frekar skemmdarverkin á Nord Stream-leiðslunum, og kallaði eftir „gagnsærri og hlutlausri alþjóðlegri rannsókn“ á þeim.

Höf.: Stefán Gunnar Sveinsson