Baldur Arnarson
baldura@mbl.is
Þórarinn Þórhallsson, einn eigenda heildsölunnar Raritet, segir enga ákvörðun hafa verið tekna um hvort samstarf við knattspyrnumanninn Gylfa Þór Sigurðsson verður endurvakið. Þá varðandi fyrra hlutverk Gylfa Þórs sem eitt af andlitum orkudrykksins State Engery sem Raritet flytur inn til landsins.
Rætt var við Þórarin í Morgunblaðinu í byrjun júlí 2021 en tilefnið var innflutningur á orkudrykknum State Energy. „Markaðssetningin hefur vakið athygli en Gylfi Þór Sigurðsson, landsliðsmaður í knattspyrnu, er andlit vörumerkisins á Íslandi en State Energy samdi við hann um kynningu til rúmlega fjögurra ára,“ sagði orðrétt í fréttinni. Með fylgdi myndin hér fyrir ofan af Þórarni við hliðina á veggspjaldi með Gylfa Þór við drykkjarkæli í verslun Hagkaupa. Átján dögum síðar birtist frétt á mbl.is með þessum upphafsorðum: „Allt markaðsefni drykkjarframleiðandans State Energy hefur verið fjarlægt úr verslunum Hagkaupa. Gylfi Þór Sigurðsson knattspyrnumaður er andlit drykkjarins,“ sagði þar en tilefnið var rannsókn á meintum brotum Gylfa Þórs.
Lögreglan í Manchester hefur nú sem kunnugt er fellt málið niður og er Gylfi Þór laus allra mála.
Því vaknaði sú spurning hvort Gylfi Þór eigi endurkvæmt sem andlit vörumerkja en hann var í auglýsingum fyrir fleiri vörur.
Þórarinn segir að í fyrsta lagi hafi heildsalan og danska fyrirtækið sem framleiðir drykkinn ekki rætt málið. Í öðru lagi hafi Gylfi Þór sjálfur, að því er virðist, ekki greint frá næstu skrefum. Því sé ekki hægt að segja meira í bili en ekkert sé hægt að útiloka í þessum efnum.