Sumarblómi Laufi skrýðist lundur, orti skáldið. Í Grasagarðinum í Laugardal í Reykjavík.
Sumarblómi Laufi skrýðist lundur, orti skáldið. Í Grasagarðinum í Laugardal í Reykjavík. — Morgunblaðið/Sigurður Bogi
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
„Í gönguferðum er hraðinn þannig að maður nær að njóta smáatriða í umhverfinu sem aftur skapa tengingar og myndir í huganum,“ segir Einar Skúlason. Ferðaklúbburinn Vesen og vergangur er hans afkvæmi og undir þeim merkjum verður farið víða á næstunni

„Í gönguferðum er hraðinn þannig að maður nær að njóta smáatriða í umhverfinu sem aftur skapa tengingar og myndir í huganum,“ segir Einar Skúlason. Ferðaklúbburinn Vesen og vergangur er hans afkvæmi og undir þeim merkjum verður farið víða á næstunni. Alls tíu langar gönguferðir eru á dagskrá sumarsins, meðal annars um Hornstrandir og Snæfjallaströnd. Einnig verður farið um sunnanverða Vestfirðina, m.a. að Stálfjalli á Barðaströnd, á Rauðasand og yfir Lambeyrarháls.

Matarmenning er eitt af því sem skapar skemmtilegar tengingar milli ferðamanna og ákveðinna staða á landinu og er atriði sem æ fleiri hafa glöggvað sig á. „Þetta er alveg ómissandi og eitt af því sem ég reyni að taka alltaf á ferðum mínum,“ segir Einar. „Í sumar verður því alveg frábært að komast í pítsu í Café Riis á Hólmavík og vöfflur í Steinshúsi á Langadalsströnd í Djúpi, og lummurnar og heita súkkulaðið í Sænautaseli á Jökuldalsheiði klikka aldrei.“

„Mér finnst gaman að ferðast um landið og er þekkt fyrir að fara í skyndiferðir; grípa tækifærin þegar þau bjóðast,“ segir Rakel Ármannsdóttir markaðsstjóri Íslandshótela. „Reykholt í Borgarfirði er einn af mínum uppáhaldsstöðum og ég uppgötvaði nýlega hvaða perla Vestfirðirnir eru. Apríl og maí eru mjög góður tími til ferðalaga; vor í lofti og oft laust á hótelunum sem bjóða góð tilboð. Hér í Reykjavík finnst mér alltaf gaman að gista á hótelum og fara í drykk og dinner með góðum vinum.“

Rakel æfir blak og leitar á ferðum sínum um landið gjarnan uppi góða strandblaksvelli. „Á Þingeyri er fínn völlur. Einnig í Kjarnaskógi við Akureyri, þangað fer ég oft þegar ég er á heimaslóðum mínum fyrir norðan.“

„Sumarið byrjar vissulega skemmtilega,“ segir Ragnhildur Sveinbjarnardóttir á Selfossi: ferðamálafræðingur og framkvæmdastjóri Markaðsstofu Suðurlands. „Núna á sumardaginn fyrsta erum við boðin í brúðkaup hjá vinafólki og það verður gaman að fagna með þeim á þessum degi. Ég hlakka til.“

Ragnhildur segir að einhver besta núvitund sem hún þekki sé vinna í garðinum heima; að gróðursetja, sá og reyta arfa. „Fín slökun og starfið skilar fallegu umhverfi og smá uppskeru. Ýmislegt stúss heima fyrir getur verið mjög notalegt. Við maðurinn minn leggjum okkur líka fram um að skapa skemmtilegar og góðar stundir með börnunum okkar. Dagskrá sumarsins tekur mið af því, eins og gjarnan er hjá ungu barnafólki. Fjölskyldan hefur öll gaman af veiði og við reynum að komast nokkrum sinnum í það, til dæmis í Laugarvatni eða ýmsum veiðivötnum á hálendinu. Þá förum við stundum líka á heimaslóðir mínar, Stóru-Mörk undir Eyjafjöllum, þar sem er fallegur skógarlundur við fellihýsi okkar,“ segir Ragnhildur, sem ætlar með sínu fólki að ferðast talsvert um landið í sumar.

„Mér finnst dásamlegt að ferðast um Ísland. Nú er verið að koma upp glæsilegri aðstöðu inni í Kerlingafjöllum sem mig langar til að skoða. Svo förum við væntanlega líka eitthvað norður í land; okkur hefur langað í Herðubreiðarlindir. Vestfirðirnir koma líka vel til greina, en allt verður þetta að ráðast af aðstæðum, veðri og fleiru slíku á líðandi stundu.“

„Á góðum klár förum við á þægilegu tölti inn í sumarið,“ segir Rúnar Geir Sigurpálsson, hestamaður í Mosfellsbæ. „Sumarið er tími skemmtilegra útreiðartúra og ég set stefnuna á Þingvöll. Sé farið á brokki er sex tíma reið héðan frá Varmárbökkum að Skógarhólum við Þingvelli. Þar er fín aðstaða fyrir bæði hross og knapa og frá staðnum eru margar fínar reiðleiðir. Ein er til dæmis fram að Hraunkoti og niður að vatninu, um perlur þjóðgarðsins. Þá er líka hægt að fara frá Skógarhólum um Uxahryggi og Kaldadal og koma niður í Borgarfjarðardali. Annars er fastur liður hjá okkur hestamönnum í Herði í Mosfellsbæ að fara í tiltekt á svæðinu okkar að morgni sumardagsins fyrsta og svo er grillað í hádeginu. Þetta verður eitthvað.“

„Sumarið er sannarlega tíminn til að njóta þess að hreyfa sig úti í náttúrunni með fjölskyldu og vinum. Rannsóknir hafa sýnt að hreyfing og útivera losa um gleðihormónin í heilanum þannig að við verðum hreinlega kát og glöð af því að meðtaka ferskan blæinn og sólskinið,“ segir Ólöf Kristín Sívertsen, sem á dögunum var kjörin forseti Ferðafélags Íslands.

„Já, ég er með ýmislegt skemmtilegt á prjónunum. Ferðafélag barnanna verður með Hornstrandaferð í júlí og þangað ætlum við með tvíburunum okkar sem eru að verða 15 ára. Ég vænti þess líka að gæðastundir í sumarhúsi fjölskyldunnar verði margar. Húsið, sem er austur í Landsveit, er rúmgott og hannað með það í huga að geta tekið á móti gestum, sem stundum eru margir. Og þegar fólk kemur í hús er oft sett gæðakjöt á grillið, farið í heita pottinn og fleira skemmtilegt. Þá ætlum við maðurinn minn að gifta okkur þarna síðsumars.“

„Vorskíði á fjöllum eru forréttir sumarsins. Þá situr Snæfellsjökull við sjónarrönd og kallar og ekki annað hægt en að æða af stað. Svo fáum við miðnætursólina í fangið og dagarnir verða endalausir,“ segir Kristín Helga Gunnarsdóttir rithöfundur.

„Mér finnst flókið að sofa í júní. Það er alltaf eins og ég sé að missa af einhverju. Í júní er líka ljóshleðsla hjá okkur myrkraverunum í norðrinu. Við eigum hjónarúm á hjólum; húsbílinn Lúlla sem stjórnast af veðri og vindum og við eltum hann í sumarlandinu. Þar er staðalbúnaður: gönguskór, reiðhjól og gamall kajak. Þá eru okkur allir vegir færir. Við reynum að halda okkur á fáfarnari slóðum, á leynistöðum. En mér finnst ekki hafa komið sumar ef ég fer ekki að Fjallabaki. Ég er flökkudýr á Íslandi en það ruglar í mér kompásinn að fara til útlanda á sumrin.“

„Rigningin er fín og stundum rokið líka,“ segir Kristín Helga. „En það býr næring og heilun í miðnætursól á hálendinu – á langri göngu í þögn og logni. Að faðma mosa og knúsa tré er líka nauðsynleg athöfn til að tengja við sumarlandið. Látum það eftir okkur. Uppskriftin að góðu sumri er að vera úti eins mikið og mögulegt er. Og allt er þetta svo best með sínu uppáhaldsfólki.“