Grani, hestamannafélag nemenda Landbúnaðarháskóla Íslands, heldur árlegan skeifudag sinn á Mið-Fossum og Hvanneyri og jafnframt uppskeruhátíð búfræðinemenda sem stundað hafa hestamennskuáfanga við skólann. Nemendur sýna afrakstur vetrar en þau temja trippi ásamt því að þjálfa tamið hross. Keppt er um Morgunblaðsskeifuna 67. árið í röð en einnig Gunnarsbikarinn, Eiðfaxabikar, Ásetuverðlaun Félags tamingarmanna og Framfaraverðlaun Reynis.
Nemendur hestafræðibrautar taka einnig þátt í keppninni og að lokinni henni og sýningu verður kaffisala og dregið í stóðhestahappdrætti Grana.
Athöfnin hefst í hestamiðstöð skólans á Mið-Fossum klukkan 13 í dag, sumardaginn fyrsta.