Brýnasta verkefnið nú er að koma á vopnahléi sem heldur

Það voru ill tíðindi sem biðu íbúa Kartúm, höfuðborgar Súdans, á laugardaginn, þegar átök brutust út á milli stjórnarhers landsins og RSF-vígasveitanna, sem rekja uppruna sinn til herferðar stjórnvalda gegn minnihlutahópum í Darfúr-héraði í upphafi aldarinnar. Omar al-Bashir, einræðisherra Súdans, ákvað árið 2013 að mynda úr þeim vígahópum sem staðið höfðu í mestu blóðsúthellingunum í Darfúr RSF-sveitirnar, og voru þær hugsaðar sem nokkurs konar einkaher hans, sem myndi verja hann gegn valdaránstilraunum hersins.

Sú áætlun Bashirs gekk hins vegar ekki eftir, þar sem herinn og RSF-sveitirnar tóku höndum saman eftir langvinn mótmæli almennings 2019 og steyptu honum af stóli. Mynduðu herirnir tveir þá herforingjastjórn þar sem Abdel Fattah al-Burhan, leiðtogi stjórnarhersins, og yfirmaður RSF-sveitanna, Mohamed Hamdan Daglo, sem oftast er kallaður Hemetti, fóru með flest völd, á sama tíma og þeir hétu því að stjórnartaumarnir yrðu settir í hendur borgaralegra afla við fyrsta tækifæri.

Sú vegferð rann að mestu út í sandinn í október 2021 þegar herinn ákvað að svipta bráðabirgðastjórn borgaralegra afla sem búið var að mynda aftur völdum, en þó tókst í desember síðastliðnum að fá herforingjastjórnina til að skuldbinda sig til að endurnýja friðarferlið og boða til kosninga að tveimur árum liðnum. Engu að síður hefur spennan kraumað undir niðri á milli þeirra Burhans og Hemettis, allt þar til sauð upp úr um helgina.

Einn helsti spennuvaldurinn var sú krafa að RSF-sveitirnar yrðu settar undir yfirstjórn stjórnarhersins og í raun felldar inn í hann, auk þess sem innstu koppum í búri þar leist illa á hugmyndir um að þeir yrðu látnir sæta ábyrgð á tuttugu ára gömlum voðaverkum sínum í Darfúr-héraði. Í grunninn óttuðust báðir aðilar einnig, að hinn myndi verða of sterkur á meðan friðarferlið hikstaði áfram.

Þann ótta má að einhverju leyti greina í yfirlýsingum beggja, þar sem hvor sakar hinn um að hafa ætlað sér að svíkja friðarferlið og ræna öllum völdum, og heita því að verði þeir ofan á verði aftur hafist handa við að færa Súdan á lýðræðisbrautina. Fyrri reynsla bendir til þess að taka þurfi öllum slíkum yfirlýsingum með fyrirvara, sama hvort Burhan eða Hemetti á í hlut.

Þá má einnig greina nokkra persónulega heift í yfirlýsingum hershöfðingjanna, þar sem þeir heita því að hinn muni annaðhvort enda í fangelsi eða deyja fyrir svik sín. Boðar slík heift ekki gott fyrir almenning í Súdan, sem lendir nú á milli í valdabaráttu hershöfðingjanna. Sést það einna best í því að mikill meirihluti þeirra sem hafa fallið í átökunum er óbreyttir borgarar frekar en hermenn undir vopnum.

Staðan er því snúin, ekki síst fyrir klofið alþjóðasamfélag sem á erfitt með að bregðast við. Brýnasta úrlausnarefnið á þessari stundu er að koma á vopnahléi sem heldur, helst til lengri tíma, þannig að almenningur geti forðað sér frá helstu átakasvæðunum. Því miður er nú helst útlit fyrir að valdabarátta hershöfðingjanna tveggja muni verða að langvinnu borgarastríði, sem gæti jafnvel smitað út frá sér til næstu nágrannaríkja. Það er til mikils að vinna ef það tekst að afstýra slíkri niðurstöðu.