Sunnutorg Húsið er illa farið og þarfnast endurbóta. Þarna var rekinn vinsæll söluturn og strætóbiðstöð í meira en sex áratugi á árum áður.
Sunnutorg Húsið er illa farið og þarfnast endurbóta. Þarna var rekinn vinsæll söluturn og strætóbiðstöð í meira en sex áratugi á árum áður. — Morgunblaðið/sisi
Borgarráð samþykkti í síðustu viku að auglýsa til leigu húsið Sunnutorg við Langholtsveg en þar var um áratuga skeið rekin vinsæl sjoppa og strætisvagnabiðskýli. Liðin eru tæp sex ár síðan borgarráð samþykkti fyrst að auglýsa til leigu húsnæði á Langholtsvegi 70

Sigtryggur Sigtryggsson

sisi@mbl.is

Borgarráð samþykkti í síðustu viku að auglýsa til leigu húsið Sunnutorg við Langholtsveg en þar var um áratuga skeið rekin vinsæl sjoppa og strætisvagnabiðskýli.

Liðin eru tæp sex ár síðan borgarráð samþykkti fyrst að auglýsa til leigu húsnæði á Langholtsvegi 70. Þetta var í september 2017. Þá kom fram í greinargerð skrifstofu eigna og atvinnuþróunar að Reykjavíkurborg ætti umrætt húsnæði en þar hefði verið rekin sjoppa í nær 60 ár. Þáverandi leigutaki hefði sagt upp leigunni en á þessum tíma voru sjoppur á fallanda fæti. Húsnæðið væri hannað líkt og stórt strætisvagnaskýli enda staðið við biðstöð strætisvagna.

Sunnutorg er 59 fermetrar að stærð, byggt árið 1959, og teiknað af hinum þjóðþekkta arkitekt Sigvalda Thordarson. Þegar húsið var auglýst til leigu árið 2017 var tiltekið að væntanlegir leigutakar myndu leggja fram hugmyndir að starfsemi, útliti og umhverfi en húsið hafði mikið látið á sjá síðustu árin. Við val á starfsemi var miðað við að húsið gæddi hverfið meira lífi og fjölbreytni. Alls skiluðu fimm aðilar inn hugmyndum. Fyrir valinu varð veitingamaður sem ætlaði að innrétta á Sunnutorgi veitinga- og kaffihús. Ragnar Kjartansson myndlistarmaður ætlaði að hanna staðinn.

Þegar tillagan var lögð fram í borgarráði í síðustu viku fylgdi henni greinargerð frá fjármála- og áhættustýringarsviði Reykjavíkurborgar.

Þar segir meðal annasrs: „Húsnæðið hefur áður verið auglýst til leigu. Í fyrra skiptið hætti leigutaki við eftir að hafa byrjað að lagfæra húsnæðið og í hitt skiptið skall á Covid-19 og ekki var grundvöllur til að halda áfram með verkefnið enda voru önnur verkefni meira aðkallandi.“

Þarfnast endurbóta

Tekið er fram að húsnæðið sé mjög illa farið og þarfnist endurbóta. Húsnæðið verði auglýst og dómnefnd fari yfir hugmyndir og tilboð sem berast.

Borgarráðsfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands minnti í bókun á fundinum á tillögu sósíalista frá því í desember 2021. Þar var lagt til að íbúar Langholtshverfis, sem hefðu áhuga á því að mála skipulagða götulist og/eða graffítí á hús Sunnutorgs, fengju leyfi til þess þar til skipulag væri komið um framtíð húsnæðisins. „Miður er að sjá að tíminn hafi ekki verið nýttur til að skoða slíkt.“

Höf.: Sigtryggur Sigtryggsson