Viðtal
Atli Steinn Guðmundsson
atlisteinn@mbl.is
„Ég átti nú bara eiginlega eðlilega æsku held ég,“ segir Arnheiður Björg Smáradóttir hugsi, grunnskólakennari í Fredrikstad í Noregi og mikil áhugamanneskja um norska black metal-tónlist, nokkuð sem hún deilir með sambýlismanni sínum, Thomasi Bolverk, primus motor svartmálmssveitarinnar Bolverk og móðurmálskennara í framhaldsskóla í heimabæ þeirra.
Hluti af hinni eðlilegu æsku Arnheiðar leið í blómguðu dalanna skauti á bóndabæ afa hennar og ömmu skammt frá Kirkjubæjarklaustri. Þar dvaldi hún öll sumur og skólafrí á sínum yngri árum og slær því hikstalaust fram að hún komi frá Reykjavík og Kirkjubæjarklaustri til jafns. Við sama tækifæri tekur hún fram að flestir þekki hana nú bara sem Heiðu og verður þeirri stefnu fylgt hér eftir.
Heiða er miðjubarnið í þriggja systra hópi og ólst upp í Efra-Breiðholti og í sveitinni fyrir austan svo sem getið er. „Ég eignaðist mitt fyrra barn þegar ég var átján og hélt áfram að búa í Breiðholtinu þar til ég flutti til Hveragerðis árið 2006,“ segir hún frá og kveður búferlaflutningana hafa átt sér einfalda skýringu. „Mig langaði að prófa eitthvað annað, ég var orðin leið á Breiðholtinu,“ segir kennarinn og hlær dillandi hlátri.
Ekki einblínt á jarðfræðina
Heiða hafði, er þarna var komið sögu, lokið BS-gráðu í jarðfræði frá Háskóla Íslands og bætt við eins árs kennsluréttindanámi og varð Fjölbrautaskóli Suðurlands á Selfossi nú vettvangur kennslu hennar auk þess sem hún kenndi við Barnaskólann á Eyrarbakka og Stokkseyri, þá merkilegu stofnun sem er elsti samfellt starfandi grunnskóli á landinu og Árelíus Níelsson ritaði um bók á aldarafmæli skólans árið 1952, þar sem hann segir Árnessýslu vöggu íslenskra skóla.
„Ég kenndi jarðfræði í þrjú ár í FSu en það er ekki mikið verið að einblína á jarðfræði hérna,“ segir Heiða af norska skólakerfinu þar sem lítið fer fyrir þessu inngangsfagi margra íslenskra framhaldsskóla. Hún flutti svo til Noregs árið 2010, þá orðin sú tveggja barna móðir sem hún er í dag, með börn fædd 1996 og 2001 en sjálf kom Heiða í þennan heim árið 1978. Helsti hvati flutninganna var bankahrunið sem nú er tekið að dofna við sjóndeildarhringinn, ekki síst í skugga heimsfaraldursins áratug síðar.
„Já, það var nú eiginlega ástæðan,“ segir Heiða af búferlaflutningunum, „mér leið eins og ég væri að vinna svo mikið til að láta enda ná saman og mér fannst einhvern veginn eins og ég hefði ekki tíma fyrir fjölskyldulíf, mig langaði að prófa eitthvað nýtt,“ segir hún og varð Sarpsborg í Austur-Noregi fyrsta heimilið.
Byrjaði á leikskóla
„Allt í einu hafði ég tíma fyrir allt. „Mamma, hefurðu tíma til að fara á skauta með okkur?“ spurðu börnin mig undrandi. Hérna fer maður í vinnuna og kemur svo heim og er þá búinn,“ segir Heiða sem réðst þó ekki beint til kennslustarfa í nýju landi. „Mig vantaði náttúrulega norskuna, eins og flestir Íslendingar var ég með dönskuna og einhverja svona skandinavísku þannig að ég byrjaði í leikskóla og var það sem kallað er støttepedagog,“ heldur hún áfram en þar er um eins konar aðstoðarkennarastöðu að ræða.
Er henni varð málið tamara tók hún að fá kennarastöður við afleysingar í skólum í Sarpsborg og Fredrikstad en árið 2014 bauðst Heiðu staða leikskólastjóra sem hún þáði og gegndi þeirri stöðu í sex ár. Það var svo árið 2020 sem hún tók við stöðu grunnskólakennara í Moss en þau Thomas eru búsett í Fredrikstad – í svörtu húsi til samræmis við tónlistarástríðu þeirra.
Helstu ljónin í veginum á meðan Heiða var að læra norskuna voru að tileinka sér þau fagorð sem hún þurfti að kunna skil á við störf sín. „Að öðru leyti var þetta ekkert mál en ég verð þó að segja að ég var rosalega heppin með þennan leikskóla sem ég var á fyrstu tvö árin, hann var í Halden, og þar var ekki bara samstarfsfólkið mjög duglegt að kenna mér norsku heldur börnin líka,“ rifjar hún upp.
Leikskólastjórastaðan var á litlum leikskóla í Ósló og lætur Heiða vel af dvölinni þar. „Mér fannst bara spennandi að vera leikskólastjóri í einhvern tíma en bjóst nú aldrei við að vera þar í sex ár. Ég ákvað svo að hætta og reyna að koma mér inn í grunnskólann, mig langaði miklu meira að vera í unglingadeildinni,“ játar hún.
Óttast ekki að týna norskunni
Nú kennir Heiða áttunda til tíunda bekk og er sérkennari í stærðfræði og raungreinum auk þess að kenna norsku. „Þau treysta mér greinilega fyrir því,“ segir hún glettnislega en hún kennir norska málfræði, hvort tveggja bókmál og nýnorsku. „Ég reyni,“ svarar hún af stakri hógværð, innt eftir því hvernig henni sækist nýnorskan, sem skáldið og textafræðingurinn Ivar Aasen smíðaði um 1850 í því augnamiði að skapa Norðmönnum ritmál byggt á talmáli landsbyggðarinnar og fornnorrænu. Hreinræktaðir norskir málfræðinördar rífast um nýnorsku á meðan fallbeygingar og val forsetninga með örnefnum eru vinsælli þrætuepli á Íslandi.
Heiða segir vöxt og viðgang þjóðtungunnar ekki eiga eins mikið upp á pallborðið í almennri umræðu í Noregi og á Íslandi. „Fólk er ekkert hrætt um að týna norskunni,“ segir hún og bendir, til dæmis þar um, á að áhersla á að þýða erlend orð sé ekki sú sama og á landi elds og ísa. Mikið rétt, stuttbuxur heita shorts í hugum flestra yngri Norðmanna og þegar komið var að því að finna norsku yfir gám þótti upplagt að skipta bara c-inu í container út fyrir k og málið var leyst.
Er hér er komið sögu er blaðamaður tekinn að gerast allforvitinn um samband Heiðu og Thomasar Bolverks sem á sér feril í hinni fornfrægu norsku svartmálmssveit Ragnarok og kennir norsku við framhaldsskóla í Fredrikstad þrátt fyrir að geisla ekki frá sér hinu dæmigerða útliti móðurmálskennara framhaldsskólastigsins. Eftirnafnið sver sig þó meira í ætt við norræn málvísindi enda Bölverkur eitt af fjölmörgum heitum Óðins. Heiða játar þó að heitmaður hennar beri nafnið Thomas Hansen í þjóðskrá landsins, Óðinsheitið sé listamannsnafn.
„Við kynntumst 2014, það var nú eiginlega gegnum tónlistina, við vissum svona hvort af öðru. Við hittumst þegar ég var á tónleikum með Ragnarok og var þá með fólki sem þekkti hann persónulega,“ segir Breiðhyltingurinn brottflutti frá, „en það leið nú dálítill tími þangað til hann fann mig á Facebook og bauð mér á „date“,“ heldur hún áfram og hér er komið að ákveðnum vendipunkti í viðtalinu.
„Ég átti að segja hér að það er honum að þakka að við erum saman í dag, það var hann sem hafði samband og bauð mér út,“ segir Heiða og hlær hjartanlega en játar um leið að reyndar hafi Bölverkur alveg rétt fyrir sér um þessa sagnfræði. Stefnumót í Ósló með kvöldverði og tónleikum hafi gengið óaðfinnanlega, „og við höfum bara verið óaðskiljanleg síðan“, segir hún.
Til heiðurs Venom
Thomas er að hennar sögn mjög heimakær, fæddur og uppalinn í Fredrikstad og flutti ekki lengra en þrjá kílómetra frá foreldrum sínum og þar búa þau Heiða nú, hvort um sig foreldrar tveggja barna og Bölverkur orðinn afi þar að auki en aðeins eitt barna þeirra er nú eftir heima.
„Ég held að hann hafi lesið fleiri Íslendingasögur en ég,“ játar Heiða en Thomas hefur að hennar sögn nóg fyrir stafni. Auk hljómsveitarinnar sem ber nafn hans leikur hann enn fremur með sveitinni Under the Oak og annarri sem ber nafnið Welcome to Hell og sérhæfir sig í tökulögum hinnar fornfrægu sveitar Venom. Mest er að gera hjá trash metal-sveitinni Under the Oak sem víða er bókuð á tónleika og þriðja platan þaðan væntanleg.
„Það eru alveg endalaus lög og gítar-riff sem verða til hérna á sófanum heima,“ segir Heiða af manni sínum sem hefur mörg járn í eldinum enda í ekki færri hljómsveitum en þremur.
Aðspurð segist hún hafa átt auðvelt með að aðlagast norsku þjóðfélagi á sínum tíma. „Mér fannst rólegheitabragurinn á Norðmönnum þó mikill fyrst, eftir allt masið og stressið á Íslandi,“ segir hún og rifjar upp svo hversdagslegan viðburð sem heimsókn á pósthúsið þar sem nýr veruleiki opinberaðist henni.
Tengsl við vinnufélagana
„Þar stóð ég í röð og að lokum var ein kona á undan mér. Hún tók sér allan tíma í heiminum því þær voru bara að spjalla um daginn og veginn, hún og sú sem var að afgreiða. Þetta fannst mér býsna sérstakt en um leið og ég var dottin í þennan gír sjálf fannst mér það alveg æðislegt,“ segir Heiða og lýkur lofsorði á norska samfélagið sem hafi tekið innflytjandanum frá Íslandi opnum örmum á sínum tíma. „Það er eiginlega eins og maður hafi alltaf átt heima hérna.“
Heiða ræktar enda sín vinatengsl og kveðst til dæmis halda sambandi við sína gömlu vinnufélaga af leikskólanum í Halden sem varð hennar fyrsti starfsvettvangur árið 2010. „Mér hafa alltaf fundist Norðmenn huggulegir og opnir en ég veit að það eru ekki allir sem deila þeirri sýn með mér,“ játar hún.
Heiða er dóttir þeirra Smára Ragnarssonar heitins og Margrétar Ólafsdóttur sem vann skrifstofustörf hjá Ríkisendurskoðun og Heilsugæslunni. Smári fékkst við ýmislegt, ók til dæmis kóki fyrir Vífilfell þegar Heiða var að alast upp og var sendill hjá Heilsugæslunni síðustu ár sín á vinnumarkaði. Smári og Margrét skildu þegar Heiða var tveggja ára gömul og ólst hún upp hjá móður sinni og stjúpföður, Inga Kristni Magnússyni, endurskoðanda hjá Ríkisendurskoðun.
Ekið um Evrópu
Tónlistin er það sem flestar tómstundir þeirra Bölverks snúast um þótt Heiða sé ekki hljóðfæraleikari sjálf utan hvað hún lék á píanó sem unglingur, hljóðfæri sem ekki hefur risið hátt á vettvangi norskra svartmálmssveita. „Okkur finnst gaman að fara á tónleika og ekki síst að ferðast og fara á tónleika í leiðinni. Við höfum til dæmis keyrt til Þýskalands og farið á tónleika þar,“ segir Heiða. Það ferðalag taki þau ekki meira en níu til tíu klukkustundir enda Fredrikstad skammt frá sænsku landamærunum og frá Suður-Svíþjóð er aðeins skottúr yfir til Danaveldis og þaðan áfram til Þýskalands.
„Nú, svo er eldri dóttir hans Thomasar búin að eignast þrjú börn. Það eru barnabörnin, við reynum að halda sambandi við þau og þau koma oft hingað, svo við gerum alls konar,“ segir grunnskólakennarinn úr Breiðholtinu og kann vel við sig í norska bænum Fredrikstad, í litlu svörtu húsi þar sem þau þungarokkararnir Thomas Bolverk – Hansen í kennslustofunni – lifa sín dægur við þungan óm svartmálmsins.