Gengi bréfa í líftæknifyrirtækinu Alvotech hefur nú lækkað um rúmt 31% á einni viku. Samhliða því hefur markaðsvirði Alvotech lækkað um rúma 160 milljarða króna á einni viku. Gengi bréfa er nú sambærilegt því sem það var við skráningu á markað í júní sl.
Um miðjan dag í gær bárust fréttir af því að mikil óvissa ríkti um það hvort að félagið fengi markaðsleyfi fyrir hliðstæðulyf sitt við gigtarlyfið Humira í Bandaríkjunum fyrir 1. júlí nk. Matvæla- og lyfjaeftirlit Bandaríkjanna (FDA) tilkynnti félaginu sl. fimmtudag að ekki yrði gefið út markaðsleyfi að svo stöddu. Gengi bréfa í Alvotech tók í kjölfarið dýfu og lækkaði um tæp 20% á föstudag. Rétt er að taka fram að umsókn Alvotech um markaðsleyfi er enn virk og til meðferðar hjá FDA.