Landspítali Línuhraðall tekinn í notkun fyrir tæpum tíu árum.
Landspítali Línuhraðall tekinn í notkun fyrir tæpum tíu árum. — Morgunblaðið/Styrmir Kári
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Verulegar áskoranir eru í rekstri Landspítalans. Alvarlegur skortur á starfsfólki, skortur á legurýmum og langir biðlistar eftir heilbrigðisþjónustu. „Enn er staðan sú að í fæstum tilfellum tekst að halda bið eftir skurðaðgerð innan þriggja…

Sviðsljós

Ómar Friðriksson

omfr@mbl.is

Verulegar áskoranir eru í rekstri Landspítalans. Alvarlegur skortur á starfsfólki, skortur á legurýmum og langir biðlistar eftir heilbrigðisþjónustu. „Enn er staðan sú að í fæstum tilfellum tekst að halda bið eftir skurðaðgerð innan þriggja mánaða og oft er biðin á annað ár,“ segir í nýrri umsögn spítalans við fjárlmálaáætlun ríkisstjórnarinnar fyrir árin 2024-2028, sem Runólfur Pálsson, forstjóri Landspítalans, hefur sent fjárlaganefnd.

Þar fer hann m.a. ítarlega yfir stöðuna á spítalanum um þessar mundir. Bendir hann á að biðlistar lengdust enn frekar í COVID-19-faraldrinum fyrst og fremst eftir skurðaðgerðum en loka þurfti skurðstofum á meðan mesta álagið reið yfir. Þann 10 apríl sl. var staðan sú að 2.091 einstaklingur var á biðlista eftir bæklunarskurðlækningum. 81% þeirra hefur þurft að bíða lengur en þrjá mánuði og meðalbiðtími er 12,4 mánuðir. 387 eru á biðlista eftir aðgerð á háls-, nef- og eyrnadeild í Fossvogi og er meðalbiðtíminn 9,1 mánuður. 3.187 eru á biðlista eftir augnaðgerðum og hafa 75% þeirra þurft að bíða lengur en í þrjá mánuði, meðalbiðtíminn er 8,3 mánuðir. 545 eru á biðlista vegna kviðarholsskurðlækninga, þar sem meðalbiðtíminn er 7,3 mánuðir (sjá meðfylgjandi töflu).

Reynslan hefur sýnt að átaksverkefni þar sem sjúkrahúsið hefur fengið fjárveitingar til að stytta biðlista hafa skilað markverðum árangri en í umsögninni er á hinn bóginn bent á að þessu séu settar skorður ef skortur er á starfsfólki. „Þannig hefur ekki tekist að nýta þá fjármuni sem settir voru í biðlistaátak vegna liðskiptaaðgerða og má fyrst og fremst rekja það til undirmönnunar á skurðstofum þar sem sérstaklega vantar skurðhjúkrunarfræðinga til starfa,“ segir í umsögninni.

Á Landspítalanum kemur manneklan verst niður á hjúkrun og birtir Runólfur þær upplýsingar að núna vanti um 160 hjúkrunarfræðinga og 50 sjúkraliða til starfa. Einnig vanti starfsfólk úr fleiri fagstéttum. Stytting vinnutímans, sem tók gildi 2021, hefur aukið verulega mönnunarvanda spítalans. Bent er á að jákvæð áhrif af betri vinnutíma hafi fallið í skuggan af afleiddum mönnunarvanda. „Stundum tekst ekki að tryggja lágmarksmönnun og þreytu er því farið að gæta hjá starfsfólki sem stendur vaktina.“

2% hækkun á ári vegna fjölgunar og hærri meðalaldurs

Runólfur vekur einnig máls á áhrifum hækkandi meðalaldurs þjóðarinnar á heilbrigðisþjónustuna. Áætlað er að vöxtur í aldurhópnum 67 ára og eldri verði 20% frá 2023 til 2028 og muni fjölga um 4% að jafnaði á hverju ári. Landspítalinn hefur metið hvaða áhrif þetta ásamt fjölgun þjóðarinnar hefur á þörf fyrir þjónustu sjúkrahússins á komandi árum og er niðurstaða þess mats sú að fjárveitingar til spítalans næstu fimm árin þurfi að hækka að jafnaði um 2% á ári að raungildi til að halda óbreyttu þjónustustigi, að teknu tilliti til bæði fólksfjölgunar og hækkandi meðalaldurs fólks.

Bent er á að um árabil hefur verið skortur á legurýmum á spítalanum fyrir bráðveika. Fjöldi sjúklinga þurfi að bíða í langan tíma á bráðamóttöku eftir að komast á legudeild. Mannekla og húsnæðisskortur geri að verkum að ekki er unnt að opna fleiri legurými. Á hverjum tíma liggi yfirleitt 60-70 manns á spítalanum sem lokið hafa meðferð en bíða eftir öðrum úrræðum.

Endurnýjun tækja

35% rýrnun framlaga

Framlög ríkisins til fjárfestinga í tækjum og búnaði á Landspítalanum hafa rýrnað á seinustu árum um 35% að verðgildi frá árinu 2019 eða um rúmlega 660 milljónir kr. á ársgrunni. Þetta kemur fram í umsögn Landspítalans um fjármálaáætlunina. Nú liggur yrir að endurnýja þarf dýr tæki og er bent í því sambandi á línuhraðla. Þeir eru notaðir til að veita sjúklingum með krabbamein geislameðferð. Í ár verður eldri línuhraðall geislameðferðardeildar tíu ára. Endurnýjun línuhraðals er talin kosta 560-620 milljónir kr.

Höf.: Ómar Friðriksson