Í tilefni af sumardeginum fyrsta verður opið í Menningarhúsi í Sigurhæðum á morgun milli kl. 13 og 18. „Heildarupplifun ársins 2023 í Sigurhæðum verður opnuð formlega í lok maí, en þessar vikur er unnið að undirbúningi og er gestum boðið í heimsókn í vinnuferlið. Það verður hægt að kíkja inn á vinnustofur á 2. hæð þar sem listamennirnir Josh Klein, Þuríður Helga Kristjánsdóttir og Ingibjörg Berglind Guðmundsdóttir vinna dags daglega,“ segir í tilkynningu. Nýjasta verkið í Pastel-ritröð Menningarhúss í Sigurhæðum er komið út. Það nefnist Hringfari og er eftir Rakel Hinriksdóttur. Boðið verður upp á listamannaspjall á morgun kl. 13 í borðstofu Sigurhæða. Aðgangur er ókeypis.