Bókaðu ferðalagið í dag og fljúgðu beint til Prag með Icelandair. Prag er höfuðborg Tékklands en borgin hefur lengi verið ein vinsælasta ferðamannaborg Evrópu. Icelandair flýgur þrisvar sinnum í viku til Prag á ferðatímabilinu 1. júní 2023 til 5. janúar 2024. Flogið er á fimmtudögum, föstudögum og sunnudögum. Það er því tilvalið að skella sér í borgarferð til einnar fallegustu borgar sem Evrópa hefur upp á að bjóða.
Teygir sig hátt til himna
Borgin er oft kölluð „100 turna borgin“ en stundum er talað um að hún teygi sig til himna vegna fjölda turna í henni. Þegar litið er yfir borgarlandslagið ber borg hinna 100 turna þess bersýnilega merki að búa yfir mikilli sögu en það er líkt og tíminn hafi staðið í stað í Prag. Þar ber að líta kirkjur og forna kastala hvert sem litið er, enda um ævaforna borg að ræða sem stóð nánast af sér eyðileggingu af völdum seinni heimsstyrjaldar. Steinsteyptar göngugötur, brýr og forkunnarfögur mannvirki minna helst á miðaldir og draga fram aldagamla sögu borgarinnar í bland við sögu samtímans sem er enn að skrifast.
Lifandi borg
Borgin iðar af mannlífi og býður upp á afþreyingu fyrir alla hópa ferðamanna. Hvort sem um er að ræða rómantíska helgarferð fyrir pör, útsýnis- og söguferð fyrir fróðleiksfúsa ferðalanga eða fjölskyldufrí með börnin. Það geta allir fundið eitthvað við sitt hæfi í Prag.
Þessi ótrúlega borg svíkur engan og er næturlífið bæði fjölþætt og skemmtilegt. Tékkneski bjórinn er vinsæll í Prag og er verðlag hans með því lægsta sem þekkist um víða veröld. Öldurhús og veitingastaði er að finna á hverju götuhorni í Prag. Rík hefð er fyrir því að borgarbúar jafnt sem ferðamenn mætist á krám borgarinnar þar sem setið er að bjórsumbli og hlustað á lifandi tónlist frá morgni til kvölds. Mikil kaffimenning ríkir þó einnig í Prag og góð kaffihús að finna víða um stræti og torg. Það má því segja að enginn fari þyrstur heim frá Prag og síður en svo svangur því tékknesk matargerð snýr að miklu leyti að hægelduðu kjöti. Þá er einnig vert að bragða á vinsælum réttum frá nágrannaþjóðum Tékklands eins og ungversku gúllasi eða þýsk/austurrísku snitseli sem skolað er niður með tékkneskum bjór.
Kennileiti sem fá þig til að kikna í hnjánum
Það er ekki að ástæðulausu sem Prag er sögð ein fegursta borgin í Evrópu. Karlsbrúin er eitt helsta tákn borgarinnar og eitt mest heimsótta kennileiti Prag. Brúin liggur yfir Moldá sem rennur í gegnum borgina og er óviðjafnanleg tilfinning að sigla um ána í næturhúminu eða fylgjast með ljósaskiptunum við árbakkann.
Mörg kennileiti borgarinnar eru á heimsminjaskrá UNESCO og þangað streymir fjöldi fólks hvaðanæva úr heiminum á ári hverju til að berja fegurðina augum. Steinbyggðir bogar frá 15. öld setja svip á borgina og hið vinsæla bæjartorg, sem er yfir 600 ára gamalt, stenst tímans tönn, umlukt hátískuverslunum og minjagripaverslunum í bland þar sem bæheimskur kristall er í fyrirrúmi. Prag er kjörinn áfangastaður fyrir hvers kyns verslunarleiðangra.