Óhugur Umfjöllunarefni Nátthrafna er ekki fyrir viðkvæma og getur valdið óhug en hlaðvarpsstjórnendur mæla samt með að hlusta á kvöldin.
Óhugur Umfjöllunarefni Nátthrafna er ekki fyrir viðkvæma og getur valdið óhug en hlaðvarpsstjórnendur mæla samt með að hlusta á kvöldin.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Mannfræðingurinn Elísabet Dröfn Kristjánsdóttir og kennarinn Brynhildur Yrsa Valkyrja Guðmundsdóttir eru vinkonurnar á bak við nýja hlaðvarpið Nátthrafna sem hefur vakið nokkra athygli upp á síðkastið en báðar tengja þær við nafn hlaðvarpsins með mismunandi hætti

Rósa Margrét Tryggvadóttir

rosa@mbl.is

Mannfræðingurinn Elísabet Dröfn Kristjánsdóttir og kennarinn Brynhildur Yrsa Valkyrja Guðmundsdóttir eru vinkonurnar á bak við nýja hlaðvarpið Nátthrafna sem hefur vakið nokkra athygli upp á síðkastið en báðar tengja þær við nafn hlaðvarpsins með mismunandi hætti.

Elísabet segist vera mikill nátthrafn en glímdi einnig við mikið svefnleysi í tvö ár á meðan Brynhildur er það mikill morgunhani að hún vaknar nánast á nóttunni – en það er einmitt þá sem vinkonurnar segja að best sé að hlusta á hlaðvarpið – í myrkri.

Í þáttunum fjalla vinkonurnar um furðuleg mál og fyrirbæri en meðal þess sem þær hafa fjallað um eru mörur, svefnrofalömun, svefndauði meðal Hmong-flóttafólksins og dularfull tvíburasambönd, en sjálf er Brynhildur tvíburi.

„Næsti þáttur fjallar um hluti sem bölvun hvílir á,“ segja þær en þættirnir koma út einu sinni í viku eins og er, á fimmtudagskvöldum kl. 20.00.

Elísabet og Brynhildur segjast vera með ýmislegt áhugavert á prjónunum á næstunni, meðal annars umfjöllun um tvífara (doppelgänger), huldufólk og annað dularfullt.

Þær benda á að þættirnir geti valdið óhug hjá börnum og þeim sem eru með „lítið hjarta“ en mæla með þeim fyrir alla þá sem hafa áhuga á furðulegum fyrirbærum.

Þær segjast fagna góðum viðtökum við þáttunum.

„Við erum furðulegri en fólk er flest,“ segja vinkonurnar sem eru einnig virkar á instagramsíðu hlaðvarpsins, @natthrafnarpodcast, en þar deila þær myndum sem tengjast þeim málefnum sem þær fjalla um og gefa hlustendum færi á að koma sér í samband við þær. Þar safna þær einnig ýmsum sögum frá fólki en þær söfnuðu meðal annars nýlega sögum af fólki sem telur sig hafa séð huldufólk.

„Við höfum fengið nokkrar góðar sögur sem verður gaman að deila með hlustendum,“ segja þær.

Elísabet og Brynhildur segjast báðar lengi hafa hugsað sér að byrja með hlaðvarp en ákváðu að taka skrefið eftir að Elísabet byrjaði í menningarmiðlunaráfanga í háskólanum og ákvað að gera hlaðvarpsþátt sem lokaverkefni þar. Hún ákvað því að fá Brynhildi með sér í lið og láta slag standa.

Spurðar út í það hvernig þær finna furðuleg mál og viðfangsefni til að fjalla um segja þær: „Með grúski. Í samræðum við vini og fjölskyldu og lestri á skrítnum stöðum netsins. Hvað sem er getur komið okkur á sporið. Lífið er mjög skrítið.“

1. The Dark Paranormal „Einn þáttastjórnandi les upp óhugnanlegar hlustendasögur af yfirnáttúrulegum atburðum. Virkilega ávanabindandi og gefur mér (Elísabetu) gæsahúð reglulega.“

2. Sannar íslenskar draugasögur „Hér eru íslenskar sögur af hinu yfirnáttúrulega lesnar upp. Mjög skemmtilegt og hægt að senda þeim línu.“

3. Draugar fortíðar „Áhugavert hlaðvarp á sagnfræðilegum nótum þar sem farið er ofan í saumana á liðnum atburðum. Mjög skemmtilegt og fræðandi í senn.“

4. Allt um ættleiðingar „Hlaðvarp þar sem fjallað er um allt sem tengist því að ættleiða frá Íslandi. Ættleiðingarsögurnar koma tárum fram á hvarma og gæsahúðin lætur ekki á sér kræla.“

5. Morðcastið „Hlaðvarp um sönn sakamál sem er ekki bara með áhugaverðum glæpafróðleik heldur einstaklega fyndnum og skemmtilegum stjórnendum. Alltaf hægt að hlæja sig máttlausa við að hlusta á þær systur.“

Höf.: Rósa Margrét Tryggvadóttir