Hafdís Aðils Gunnarsdóttir fæddist 8. maí 1951. Hún lést 9. apríl 2023.
Útför hennar fór fram 19. apríl 2023.
Elsku amma. Nú þegar þú hefur kvatt okkur rifjast upp allar þær ljúfu stundir sem ég átti með þér og ylja þessar minningar mér um hjartarætur á þessum erfiðu tímum. Við höfum alla tíð verið mjög nánar og þú passaðir alltaf vel upp á ungana þína. Þú varst alltaf meira en til í að fá fólkið þitt í heimsókn og ef ekki í heimsókn varstu alltaf dugleg að taka upp tólið og heyra í okkur. Þú varst mikil húsmóðir og frá unga aldri ætlaði ég alltaf að verða jafn myndarleg húsmóðir og þú. Þú bakaðir alltaf bestu kökurnar og varst svo lagin í höndunum. Byrjaðir að kenna nöfnu þinni að prjóna þegar ég var nýbyrjuð í grunnskóla, prjónuðum saman eiturgrænan trefil. Sem krakki var ekkert skemmtilegra en að fá að gista hjá ykkur afa um helgar og á sumrin, hringja í útvarpið og biðja Guðna Má um óskalag, spila skítakall fyrir svefninn og fá flóaða mjólk. Söngur og dans einkenndi þig mikið, Que sera, sera með Doris Day var reglulega sungið.
Við systkinin vorum svo heppin að búa í sama hverfi og amma og afi. Oft eftir skóla löbbuðum við frekar heim til ömmu og afa í Stórahjalla, amma tók alltaf vel á móti manni. Það var fastur liður að kíkja alltaf einu sinni á dag til ömmu og afa, Stórihjallinn var eins og okkar annað heimili í æsku.
Að kíkja í kaffibolla til þín núna í seinni tíð og að heyra hvernig sveitalífið var í denn og öll sveitaböllin var alltaf jafn yndislegt og tala nú ekki um þegar þú fórst að sýna mér myndir frá gömlum tímum.
Veikindi þín voru þér erfið og hömluðu þér mikið. Þú veiktist fyrst 2010 og eftir það varstu orðin mikill sjúklingur. Augnablikið þegar mamma hringdi í mig þegar þú varst flutt með sjúkrabíl upp á slysó núna í mars var mér virkilega erfitt. Ég var uppi á spítala í tengslum við lokaverkefnið mitt og hljóp niður á bráðamóttöku til að þú yrðir nú ekki ein, farið var með þig upp á gjörgæslu og varstu sett í öndunarvél. Ég hef aldrei upplifað jafn mikla hræðslu. Tilhugsunin að kveðja Hafdísi ömmu var sú hræðilegasta. Ég hélt þú værir að kveðja okkur þarna en mín kona sýndi algjöra þrautseigju og losnaði úr öndunarvélinni samdægurs. Síðustu vikur sýndu mikla baráttu því þetta var þér virkilega erfitt. Þú varst á A6 í rúman mánuð og gafst aldrei upp. Þú varst flutt upp á Landakot 5. apríl og kvaddir okkur á páskadag, sá dagur var sá erfiðasti sem ég hef upplifað. Ég er þakklát fyrir að hafa fengið þig sem ömmu elsku gullið mitt og allar þær stundir sem við áttum saman. Passað var vel upp á að þér liði sem best síðustu dagana og hjálpar það sorgarferlinu að vita af því. Við vorum öll hjá þér á páskadag og þú kvaddir svo sannarlega í faðmi fjölskyldunnar. Ég veit að amma Steinunn tekur vel á móti þér uppi á himnum.
Hvíldu í friði elsku amma mín, takk fyrir allt og sjáumst síðar.
Þín nafna,
Hafdís Guðrún.