Justin Trudeau, forsætisráðherra Kanada, hefur sagt yfirstjórn Atlantshafsbandalagsins (NATO) að Kanada muni aldrei ná 2%-markinu svonefnda um útgjöld til varnarmála. Bandaríska dagblaðið Washington Post greindi frá þessu í gær, og byggði á skjali úr gagnalekanum mikla úr bandaríska varnarmálaráðuneytinu.
Í skjalinu kemur fram að Kanadaher telji sig ekki geta sinnt „stórum aðgerðum“ á sama tíma og að hann heldur úti hersveitum í Lettlandi og sendir aðstoð til Úkraínu. Ólíklegt sé að það breytist nema almenningsálitið í Kanada breytist.
Þá er það mat höfundar skjalsins að „víðtækir“ veikleikar Kanadahers spilli samstarfi hans við bandamenn sína.