Vopn Vopnaburður hefur aukist hjá ungum karlmönnum.
Vopn Vopnaburður hefur aukist hjá ungum karlmönnum. — Morgunblaðið/ Kristinn Magnússon
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Kristján Jónsson kris@mbl.is Vopnaburður ungmenna á Íslandi ætti ekki að koma fólki algerlega í opna skjöldu að sögn Helga Gunnlaugssonar, afbrotafræðings og prófessors í félagsfræði við HÍ. Því til stuðnings bendir hann á að vopnaburður sem hluti af lífsstíl hjá hópi ungmenna á jaðri þjóðfélagsins hafi verið til umfjöllunar síðustu tvö árin.

Kristján Jónsson

kris@mbl.is

Vopnaburður ungmenna á Íslandi ætti ekki að koma fólki algerlega í opna skjöldu að sögn Helga Gunnlaugssonar, afbrotafræðings og prófessors í félagsfræði við HÍ. Því til stuðnings bendir hann á að vopnaburður sem hluti af lífsstíl hjá hópi ungmenna á jaðri þjóðfélagsins hafi verið til umfjöllunar síðustu tvö árin.

„Við stöndum frammi fyrir mjög alvarlegum atburði í Hafnarfirði eins og fjallað hefur verið um í fjölmiðlum þar sem af hlaust mannsbani. Síðustu misserin hafa verið vísbendingar um vopnaburð ungmenna og ég ræddi þetta til að mynda í Morgunblaðinu í fyrra. Við höfum séð merki um að í einhverjum hópum þyki sjálfsagt að bera vopn, sérstaklega hjá ungum körlum á jaðrinum. Ekki er þar með sagt að þessir einstaklingar ætli sér að beita þessum vopnum en ef þeim er ögrað þá standi ef til vill til að sýna vopnið til varnar. En þegar komið er í átök þá getur slíkt verið fljótt að breytast. Auk þess dvínar dómgreindin fljótt ef fólk er í vímu,“ segir Helgi og segir þróunina hafa verið í þessa átt.

„Á síðustu tveimur árum eða svo hafa verið of mörg tilfelli um hnífstungur í líkamsárásarmálum, til dæmis í miðbænum, og nú er svo komið að það varð mannsbani. Ef ég segi fyrir mig þá hafði ég áhyggjur af því að þetta gæti gerst miðað við þróunina sem hefur orðið,“ segir Helgi og nefnir einnig að áður hafi svipuð þróun átt sér stað í Bretlandi og á Norðurlöndunum.

Þeir sem setið hafa í varðhaldi vegna árásarinnar í Hafnarfirði hafa flestir verið undir sjálfræðisaldri sem er 18 ár. Sá elsti er nýorðinn fullorðinn í lagalegum skilningi og er á nítjánda ári. Sakhæfisaldurinn er 15 ár þótt sjálfræðisaldurinn sé 18 ár. Helgi segist hafa velt sakhæfisaldrinum fyrir sér. „Við miðum sakhæfi við 15 ár en í barnasáttmálum sem dæmi er miðað við börn til 18 ára aldurs. Maður staldrar aðeins við þetta sem virðist ósamræmi. Annars vegar er gert ráð fyrir refsiábyrgð en á sama tíma eru þau börn til 18 ára aldurs og ákveðin réttindi sem fylgja því. Þar er umönnunarkrafa og velferðarkrafa á aðra, eins og foreldra og í raun samfélagið allt,“ segir Helgi en þetta þurfi ekki að vera vandamál.

Ákærufrestun gjarnan nýtt

„Við erum með ákveðna löggjöf og kerfi sem tekur á vanda sakhæfra barna á aldrinum 15-18 ára. Farsældarlöggjöfinni er ætlað að taka á börnum á þessum aldri, meðal annars þeim sem brjóta af sér. Dómstólar eru einnig með ákærufrestun þegar um fyrsta hegningarlagabrot er að ræða hjá börnum á aldrinum 15-18 ára. Eru þá ekki ákærð heldur látin í hendur barnaverndaryfirvalda. Menn eru að einhverju leyti að reyna að fóta sig í þessu en stundum hefur mér fundist að þetta gangi ekki alveg upp og velti því fyrir mér hvort miða ætti sakhæfisaldurinn við 18 ára í samræmi við alþjóðasáttmála og skuldbindingar varðandi réttindi barna að öðru leyti. Aðalmálið er samt að einhver úrræði séu í boði sem mæta þörfum barna sem brjóta af sér, hvort sem þau eru orðin 15 eða 18 ára, sakhæf eða ekki.“

Rannsókn miðar vel

Rannsókn á andláti karlmanns á þrítugsaldri í Hafnarfirði í síðustu viku miðar vel.

Fjórir voru handteknir og úrskurðaðir í gæsluvarðhald til 27. apríl. Yfirheyrslur hafa staðið yfir undanfarna daga, en að þeim loknum var einangrun aflétt.

Lögreglan telur sig í meginatriðum hafa nokkuð skýra mynd af atburðarásinni sem leiddi til dauða mannsins.