Flutningar Tveir nýir Volkswagen ID. Buzz „rúgbrauðs“-deilibílar eru komnir á götuna frá Hopp.
Flutningar Tveir nýir Volkswagen ID. Buzz „rúgbrauðs“-deilibílar eru komnir á götuna frá Hopp.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baksvið Þóroddur Bjarnason tobj@mbl.is Deilibílar fyrirtækisins Hopp eru orðnir fjörutíu og þrír talsins. Allir bílarnir eru 100% rafdrifnir en þjónustan er veitt í samstarfi við Bílaleigu Akureyrar. Fyrsti Hopp-deilibíllinn kom á götuna í mars 2022.

Baksvið

Þóroddur Bjarnason

tobj@mbl.is

Deilibílar fyrirtækisins Hopp eru orðnir fjörutíu og þrír talsins. Allir bílarnir eru 100% rafdrifnir en þjónustan er veitt í samstarfi við Bílaleigu Akureyrar. Fyrsti Hopp-deilibíllinn kom á götuna í mars 2022.

„Kia- og Hyondai-bílar riðu á vaðið. Þeir hentuðu vel til að byrja með en nú sjáum við betur hvernig þjónustan er nýtt af notendum okkar. Við erum ennþá að leita að hinni fullkomnu tegund af deilibíl. Að okkar mati er hann enn ekki kominn í framleiðslu, en það kemur. Deilibílarnir eru stórt umhverfis-, samgöngu- og skipulagsmál. Það má segja að miðað við að hverjum bíl sé deilt fimm sinnum á dag, eins og meðaltalið er hjá okkur, séum við að stuðla að því að fimm aðrir bílar séu fjarlægðir af götunni,“ segir Sæunn Ósk Unnsteinsdóttir, framkvæmdastjóri Hopp, í samtali við Morgunblaðið.

Í dag eru flestir Hopp-bílarnir af tegundinni Renault Zoe.

„Þeir eru minni, með góða drægni og afar hentugir sem deilibílar. Einnig vorum við að bæta við nokkrum Teslum sem koma vel út. Þær hafa mjög góða drægni og búa yfir frábæru öryggis- og myndavélakerfi. Að auki eru þær stærri en Renault Zoe og notendur geta hlaðið þær sjálfir á hleðslustöðvum úti í bæ sem því miður er ekki hægt ennþá með hina bílana.“

Kom skemmtilega á óvart

Sæunn segir að tilraunir hafi einnig verið gerðar með leigu á stærri bílum.

„Við tókum tvo nýja Volkswagen ID. Buzz í notkun, nýja „rúgbrauðið“. Hann er að koma skemmtilega á óvart. Við sáum strax að það var markaður fyrir litla flutningabíla í deilihagkerfið.“

Hún segir rúgbrauðið mikið notað í smáflutninga.

„Við sjáum til dæmis að verslunareigendur á Laugaveginum eru að grípa þennan bíl til að fara með pappakassa o.fl. í endurvinnsluna. Við sjáum líka fyrir okkur að bíllinn geti nýst fyrir hljómsveitir til að flytja hljóðkerfi. Einnig vitum við að bílinn nýtist fólki sem er að kaupa notaða hluti á netinu og þarf að sendast með kommóðu eða annað smálegt sem ekki kemst í fjölskyldubílinn.“

Sæunn á von á því að rúgbrauðunum fjölgi. „Það er mjög gott að keyra þá og þeir eru auðveldir í notkun.“

Framkvæmdastjórinn ítrekar umhverfisþátt starfseminnar. Hann sé mikilvægur.

„Við erum ekki að fara út í þetta verkefni til að fjölga bílum á götunum heldur til að fækka þeim og auka valmöguleika fólks. Við viljum styðja enn frekar við bíllausan lífsstíl og sýna borgarbúum að bíll nr. tvö og nr. þrjú sé alls ekki þarfur á hvert heimili. Okkur þykir mjög vænt um þetta verkefni.“

Hopp borgar gjöldin

Hægt er að skila bílunum í hvaða bílastæði sem er í Reykjavík en þjónustusvæði deilibíla sést best á korti í Hopp-appinu. Hopp greiðir bílastæðagjöldin. „Þú þarft bara að leggja í löglegt bílastæði í borgarlandinu.“

Mögulegt er að keyra deilibílana út fyrir þjónustusvæðið. Ef notandi þarf að stoppa bifreiðina og sinna erindum er bíllinn settur á pásu. Lægra gjald er tekið í pásunni.

Spurð að því hvort von sé á að þjónustusvæðið þar sem skila má deilibílunum stækki segir Sæunn að svo verði ekki að sinni en vel sé fylgst með eftirspurninni.

„Ég tel að höfuðborgarsvæðið geti auðveldlega borið eitt hundrað deilibíla. Við fylgjumst með og fjölgum í takt við eftirspurn og notkun.“

Spurð að því hvort deilibílaverkefnið sé orðið sjálfbært hvað kostnað varðar segir Sæunn að enn sé um þróunarverkefni að ræða og horft sé til langtímaárangurs.

„Bílarnir eru hluti af okkar vörumerkjauppbyggingu og styðja hugmyndafræði okkar um að auka valmöguleika í umhverfisvænum fararmátum,“ segir Sæunn en fyrirtækið rekur einnig þrjú þúsund rafskútur sem þúsundir nota á hverjum degi. Sæunn segir að deilibílaverkefnið setji þrýsting á yfirvöld að bæta innviði. „Það vantar miklu fleiri hraðhleðslustöðvar. Við gætum vaxið hraðar ef stöðvarnar væru fleiri því það fer mikil vinna hjá okkur í að sækja og hlaða bílana.“

Skúturnar komnar út

Spurð nánar um rafskúturnar segir Sæunn að allur flotinn sé kominn út á göturnar eftir veturinn.

„Það er gríðarleg aukning í notkun á rafskútunum. Heildarnotendafjöldinn í appinu okkar er kominn yfir 300 þúsund,“ segir Sæunn að lokum.

Þróun

Hopp-appið er hannað og forritað á Íslandi.

Heildarnotendafjöldi Hopp er í dag kominn yfir 300.000.

Styður við bíllausan lífsstíl.

Notendur geta sjálfir hlaðið Teslurnar en ekki hina bílana ennþá.

Þjónustan er veitt í samstarfi við Bílaleigu Akureyrar.

Höf.: Þóroddur Bjarnason