Aron Pálmarsson, landsliðsfyrirliði í handknattleik, verður ekki með íslenska landsliðinu í tveimur síðustu leikjunum í undankeppni EM vegna meiðsla. Ísland mætir Ísrael í Tel Aviv á fimmtudaginn og Eistlandi í Laugardalshöllinni á sunnudaginn

Aron Pálmarsson, landsliðsfyrirliði í handknattleik, verður ekki með íslenska landsliðinu í tveimur síðustu leikjunum í undankeppni EM vegna meiðsla. Ísland mætir Ísrael í Tel Aviv á fimmtudaginn og Eistlandi í Laugardalshöllinni á sunnudaginn.

Viktor Sigurðsson, handknattleiksmaður úr ÍR, er genginn til liðs við Valsmenn og hefur samið við þá til þriggja ára. Viktor er 21 árs, rétthent skytta, og var fjórði markahæsti leikmaður úrvalsdeildarinnar í vetur með 127 mörk í 22 leikjum.

Enska knattspyrnufélagið Tottenham rak í gær bráðabirgðastjórann Cristian Stellini, í kjölfarið á stórtapi, 6:1, gegn Newcastle á sunnudaginn. Ryan Mason er næstur í röðinni og stýrir liðinu til bráðabirgða til loka tímabilsins.

Afturelding vann Álftanes, 3:2, í oddaleik liðanna í undanúrslitum Íslandsmóts kvenna í blaki á Álftanesi í gærkvöld. Það verða því KA og Afturelding sem leika til úrslita um Íslandsmeistaratitilinn og mætast í fyrsta leik á Akureyri á fimmtudagskvöldið. Afturelding vann fyrstu tvær hrinurnar 25:20 og 25:17 en Álftanes tvær næstu, 25:16 og 25:23. Afturelding vann svo oddahrinuna 15:13.