Úrvalsdeild Leikmenn Hamars fagna eftir að sætið í úrvalsdeild var tryggt með sigri í oddaleik í umspili gegn Skallagrími í gærkvöldi.
Úrvalsdeild Leikmenn Hamars fagna eftir að sætið í úrvalsdeild var tryggt með sigri í oddaleik í umspili gegn Skallagrími í gærkvöldi. — Ljósmynd/Guðmundur Karl
Hamar hafði betur gegn Skallagrími, 93:81, í oddaleik í umspili um laust sæti í úrvalsdeild karla í körfuknattleik í Hveragerði í gærkvöldi. Hamar leikur því í úrvalsdeildinni á næsta tímabili og það í fyrsta sinn í tólf ár

Hamar hafði betur gegn Skallagrími, 93:81, í oddaleik í umspili um laust sæti í úrvalsdeild karla í körfuknattleik í Hveragerði í gærkvöldi.

Hamar leikur því í úrvalsdeildinni á næsta tímabili og það í fyrsta sinn í tólf ár.

Þrátt fyrir lokatölurnar var oddaleikurinn, líkt og leikirnir fjórir á undan honum, hnífjafn og æsispennandi nánast allan tímann, eða allt þar til í blálokin.

Þegar þrjár mínútur voru eftir á leikklukkunni var staðan nefnilega 80:79 og ekkert sem benti til þess að annað hvort liðið myndi að lokum hafa þetta öruggan sigur.

Með því að skora sjö stig í röð kom Hamar sér hins vegar í kjörstöðu og sigldi að lokum fræknum tólf stiga sigri í höfn.

Brendan Howard var stigahæstur hjá Hamri með 23 stig, auk þess sem hann tók 14 fráköst. Björn Ásgeir Ásgeirsson bætti við 21 stigi og José Medina skoraði 20 stig og gaf níu stoðsendingar. Ragnar Nathanaelsson skoraði 11 stig og tók 23 fráköst.

Björgvin Hafþór Ríkharðsson skoraði 25 stig fyrir Skallagrím, tók 12 fráköst og gaf sjö stoðsendingar. Keith Jordan var með 24 stig og 14 fráköst.