Landeldi Taldar eru líkur á að góðar aðstæður séu á Keilisnesi til fiskeldis.
Landeldi Taldar eru líkur á að góðar aðstæður séu á Keilisnesi til fiskeldis. — Morgunblaðið/Eggert
Nokkur fiskeldisfyrirtæki hafa sýnt áhuga á að hefja landeldi á fiski í stórum stíl á Keilisnesi á Vatnsleysuströnd. Rannsóknir benda til að þar séu góðar aðstæður frá náttúrunnar hendi til slíks eldis en bæjarstjórinn í Vogum segir þó að frekari…

Helgi Bjarnason

helgi@mbl.is

Nokkur fiskeldisfyrirtæki hafa sýnt áhuga á að hefja landeldi á fiski í stórum stíl á Keilisnesi á Vatnsleysuströnd. Rannsóknir benda til að þar séu góðar aðstæður frá náttúrunnar hendi til slíks eldis en bæjarstjórinn í Vogum segir þó að frekari rannsóknir þurfi að gera til að ganga úr skugga um það. Fyrir um þrjátíu árum var landið keypt og boðið fyrirtækjunum sem hugðust byggja stórt álver undir merkjum Atlantsáls.

Atlantsál langt komið

Ríkið og Sveitarfélagið Vogar eiga land á Keilisnesi og nágrenni. Ríkið á athafnasvæði sem þar var skipulagt þegar til stóð að reisa stórt álver á Keilisnesi. Þær hugmyndir voru mjög til skoðunar upp úr 1990 þegar bandarískt álfyrirtæki og tvö evrópsk höfðu samvinnu við stjórnvöld hér á landi um athugun á uppbyggingu álvers þar undir vinnuheitinu Atlantsál. Að verkefninu stóðu Alumax Inc. í Bandaríkjunum, Granges Aluminium AB í Svíþjóð og Hoogovens Aluminium Bv í Hollandi.

Þótt undirbúningur væri langt kominn féllu fyrirtækin frá áformum um uppbyggingu, ekki síst vegna þess að ekki tókst að afla lánsfjár á nógu hagstæðum kjörum. Síðar hafa ýmis atvinnuþróunarverkefni verið mátuð við Keilisnes, meðal annars önnur álver og landeldi á fiski, en ekki orðið úr framkvæmdum. Vatnsleysustrandarhreppur hafði keypt jörðina Flekkuvík vegna Atlansálsverkefnisins, með bakstuðningi ríkisins, og yfirtók ríkið síðar lóðina og þau lán sem hreppurinn hafði tekið vegna kaupanna. Sveitarfélagið á land í nágrenninu.

Þarf að rannsaka betur

Síðustu mánuði hafa nokkur fyrirtæki sett sig í samband við sveitarfélagið til að kanna möguleika á að fá lóðir fyrir landeldi í stórum stíl á Keilisnesi. Það eru fyrirtæki sem eru að byggja upp landeldi í Þorlákshöfn, Landeldi ehf. og Geo Salmo, DWI ehf. sem hefur hug á hlýraeldi og fleiri fyrirtæki. Hugmyndirnar ganga út á að ala lax, bleikju og hlýsjávarfiskinn hlýra.

Gunnar Axel Axelsson, bæjarstjóri í Vogum, segir að margt bendi til þess að Keilisnes sé einn af þeim stöðum á landinu þar sem ákjósanlegar aðstæður til landeldis á fiski eru til staðar. Þá er átt við nálægð við sjó og aðgang að jarðsjó af tilteknu hitastigi og hreinleika. Tekur Gunnar fram að eftir sé að rannsaka þetta betur. Hann segir að fyrirtækin líti til þessa svæðis einnig vegna staðsetningar þess, nálægðar við stóran vinnumarkað og alþjóðaflugvöllinn.

Sveitarfélagið hefur tekið við þessum umsóknum og rætt við fyrirtækin en Gunnar segir að framhaldið hafi ekki verið ákveðið. Skoða þurfi málið betur. Ákveðið hefur verið að fá sérstakan verkefnastjóra til að halda utan um verkefnið af hálfu sveitarfélagsins.

Gott fyrir sveitarfélagið

Huga þarf að skipulagsmálum. Telur Gunnar möguleika á að nokkur fyrirtæki geti fengið lóðir á Keilisnesi og þar gæti byggst upp talsvert umfangsmikill iðnaður sem hefði mikla þýðingu fyrir sveitarfélagið og efnahagslífið í landinu. Tekur hann þó fram að hugsanleg uppbygging eigi eftir að fara í gegnum ýmsar síur, fyrir utan rannsóknir á auðlindinni, meðal annars umhverfismat og skipulagsferli. Þá þurfi að huga að innviðum, svo sem samgöngum og aðgangi að raforku.

Höf.: Helgi Bjarnason