Meistarar Einar Eyþórsson með Grettisbeltið og Kristín Embla Guðjónsdóttir með Freyjumenið að Íslandsglímunni 2023 lokinni.
Meistarar Einar Eyþórsson með Grettisbeltið og Kristín Embla Guðjónsdóttir með Freyjumenið að Íslandsglímunni 2023 lokinni.
Íslandsglíman fór fyrst fram 1906 og allar götur síðan hefur verið keppt um Grettisbeltið, sem fylgir nafnbótinni glímukóngur Íslands, og er Einar Eyþórsson, sem keppir fyrir Mývetning, nýr meistari

Steinþór Guðbjartsson

steinthor@mbl.is

Íslandsglíman fór fyrst fram 1906 og allar götur síðan hefur verið keppt um Grettisbeltið, sem fylgir nafnbótinni glímukóngur Íslands, og er Einar Eyþórsson, sem keppir fyrir Mývetning, nýr meistari. Konur kepptu fyrst um Freyjumenið fyrir 24 árum og er Kristín Embla Guðjónsdóttir úr Val á Reyðarfirði glímudrottning Íslands í þriðja sinn, en hún fagnaði einnig titlinum í fyrra og 2018.

Einar byrjaði snemma að fylgjast með glímu og átti ekki langt að sækja fyrirmyndirnar. Eyþór Pétursson faðir hans var glímukóngur Íslands 1983 og 1987. Pétur, bróðir Einars, fylgdi í fótsporin 2004, 2005, 2007 og 2009-2014. „Ég byrjaði að mæta á æfingar þegar ég var sex ára,“ upplýsir Einar, sem er 28 ára og keppti nú um Grettisbeltið í 11. sinn. Þegar hann byrjaði var töluverður áhugi á glímu í sveitinni en nú eru breyttir tímar. „Ég er eini Þingeyingurinn enn í keppni,“ segir hann, en Einar er í rafvirkjanámi í Fjöbrautaskólanum í Breiðholti og æfir í Reykjavík.

Ákveðinn ljómi hefur fylgt glímunni og þótt þátttakendum hafi fækkað frá því sem áður var er alltaf gaman á æfingum og í keppni. Einar segir að landsliðsstarfið sé ein helsta gulrótin. „Hópurinn er mjög skemmtilegur og gaman að keppa á alþjóðlegum vettvangi.“ Glímusambandið er í Keltneska fangbragðasambandinu (FILC) og það heldur Evrópumót á tveggja ára fresti, en auk þess eru önnur alþjóðleg mót árlega. „Næst á dagskrá eru Hálandaleikarnir í Skotlandi í sumar,“ segir hann og bætir við að hann haldi ótrauður áfram. „Ég á nóg eftir.“

Út í óvissuna

Töluverður áhugi er á glímu á Reyðarfirði, að sögn Kristínar, sem er 23 ára landfræðinemi í Háskóla Íslands. Hún fór á fyrstu æfinguna þegar hún var tíu ára. „Frænka mín vildi prófa að æfa glímu en vildi ekki fara ein og dró mig með sér,“ segir hún. „Ég vissi ekki hvað glíma var en fannst hún skemmtileg og hef ekki hætt síðan en frænka mín hætti fyrir nokkrum árum.“

Kristín segir að íþróttin sé skemmtileg og félagsskapurinn góður. „Hreyfingin sem fylgir glímunni er sérstaklega góð og við erum mjög samhentur hópur, bæði innan félaga og á milli þeirra. Til dæmis æfum við nokkur saman hjá Glímudeild KR í Reykjavík og engin okkar eru í sama félagi.“ Landsliðsverkefnin hafi líka mikið að segja, því þau auki á fjölbreytnina. „Við keppum alltaf við þá sömu innanlands.“

Glímusambandið hefur ekki ákveðið á hvaða mótum verður keppt í sumar en Kristín, sem er í varastjórn sambandsins, er klár í slaginn. „Ég held áfram að æfa og keppa svo lengi sem ég get,“ segir hún.